Minning: Úlfur Gunnarsson yfirlæknir Fæddur 12. nóvember 1919 Dáinn 29. september 1988 Úlfur Gunnarsson, fyrrverandi yfirlæknir Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði og heiðursborgari Ísafjarðarkaupstaðar, sem lést hinn 29. september sl., verður borinn til moldar í dag. Í faðmi fjallanna þarsem hann þjónaði fólkinu í 34 ár, hvort heldur var á nóttu eða degi, mun hann nú loksins hvílast.

Úlfur fæddist á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn 12. nóvember 1919. Foreldrar hans voru Franzisca Antonie Josefine, danskrar ættar og Gunnar Gunnarsson rithöfundur. Hann lauk stúdentsprófi í Birkeröd árið 1939 og lagði síðan stund á læknisfræði í Rostock ogg Greifswald á árunum 1939 til 1945. Hann varð cand. med. frá Hásóla Íslands árið 1947 og var námskandidat á Landspítalanum 1948-49 og jafnframt var hann aðstoðarlæknir á Vífilsstöðum í rúmt ár á þessum tíma. Hann varvið framhaldsnám í Lyon í Frakklandi á árinu 1949 og ennfremur í Danmörku á árunum 1949-1953. Almennt lækningaleyfi hér á landi hlaut hann 28. maí 1954 og samadag varð hann viðurkenndur sem sérfræðingur í handlækningum.

Úlfur Gunnarsson var ráðinn yfirlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði 1. október árið 1954 og gegndi því starfi óslitið til 1. ágúst 1981. Síðan starfaði hann sem sérfræðingur við sjúkrahúsið.

Úlfur kvæntist Benedictu Katharinu Irene, hjúkrunarkonu frá Rostock, þann 12. febrúar árið 1943 og eignuðust þau fjögur börn: Katharina f. 1944, búsett í Englandi, Birgir f. 1947 og Gunnar Martin f. 1954, báðir búsettir í Reykjavík, og Kristín f. 1957, búsett á Siglufirði.

Fljótlega eftir að Úlfur Gunnarsson kom til starfa á Ísafirði varð ljóst hvern ágætismann hann hafði að geyma. Það var ekki aðeins að bæjarbúar skynjuðu að þeir höfðu fengið til starfa frábæran lækni, og höfðu þeir þó kynnst mörgum afbragðs læknum, heldur fór þar maður dagfarsprúður, hógvær og lítillátur, sem vann verk sín af mikilli kostgæfni og kunnáttu. Hann var afbragðs skurðlæknir, með mikla reynslu og þekkingu, sem hann hafði aflað sér erlendis, m.a. á stríðsárunum í Þýskalandi. Að baki prúðmennskunnar, sem ávallt fylgdi honum, bjó þó kímnin og orðheppinn var Úlfur með afbrigðum ef því var að skipta. Á góðri stund var hann óborganlegur húmoristi, sem flestir kunnu að meta.

Það fór ekki hjá því að starfið tæki flestar stundir yfirlæknisins. Hann vann og vann og þrátt fyrirað hann hefði oftast góða aðstoðarmenn þá urðu vinnustundirnar alltof margar. Og í tímans rás kom einnig í ljós að vinnuaðstaðan var orðin óviðunandi. Gamla-sjúkrahús ið, sem byggt var 1925 og var þá eitthvert glæsilegasta sjúkrahús landsins, var nú orðið ófullnægjandi með öllu. Þar voru þrengsli slík, að ekki reyndist unnt að koma fyrir nýjum tækjum, þrátt fyrir góðan vilja, og öll aðstaða starfsfólks var orðin svo bágborin að erfiðleikarnir margfölduðust. Þetta sá Úlfur og reyndi eftir megni að opna augu ráðamanna fyrir þörfinni á bættu húsnæði. Hann vildi fljótlega byggja við gamla húsið og lagði fram tillögur. En menn töldu réttara að byggja nýtt hús. Reyndin varð sú, að ráðist var í byggingu nýs húss, sem nú hefur verið í smíðum í 13 ár, og enn hefur ekki leyst gamla húsið af hólmi. Menn hefðu trúlega farið að ráðum Úlfs, ef þeir hefðu séð þróunina fyrir. Það var þó ekki langt í það að Úlfi auðnaðist að sjá nýja húsið vígt, e.t.v. nokkrar vikur, og þótt hann hlakkaði til þeirrar stundar, þá hafði hann um nokkurt skeið starfað í nýja sjúkrahúsinu við sérfræðistörf.

Þau Úlfur og Benedikta áttu sér þó griðastað, sumarbústað í Tungudal, þar sem þau dvöldu einslengi og fært var. Allt of oft munþó síminn hafa kallað lækninn til skyldustarfa, bæði á sjúkrahúsinu og á heimilum hinna fjölmörgu Ís firðinga, sem báru meira traust til læknis síns en annarra manna. Þá má ekki gleyma hinum stóra þætti í störfum Úlfs hér áður fyrr, þegarhann á öllum tímum var kallaður til að sinna erlendum sjómönnum, af togurum, sem leituðu til Ísafjarðar. Hann var líka vararæðismaður Vestur-Þýskalands frá árinu 1961 til dauðadags, enda tengdur þýsku þjóðinni sterkum böndum.

Eftir áratuga fórnfúst starf, semtekið hafði sinn toll af þreki okkar ágæta læknis, gat ekki hjá því farið að bæjarstjórnin vildi sýna honum nokkurn sóma og þakklæti. Og því var það á 65. afmælisdegi hans, hinn 12. nóvember 1984, að samþykkt var einróma að kjósa Úlf Gunnarsson heiðursborgara Ísafjarðarkaupstaðar. Með kjörinu vildi bæjarstjórinn votta honum virðingu sína og þökk fyrir ómetanleg og fórnfús störf að heilbrigðismálum kaupstaðarins um 30 áraskeið.

Ég átti því láni að fagna að fá að starfa nokkuð með Úlfi Gunnarssyni um ævina. Leiðir okkar lágu saman í stjórn sjúkrahússins, þarsem ég gegndi formennsku í tæplega áratug. Reyndar lágu leiðir okkar saman á fleiri sviðum, þarsem sjúkrahússreksturinn heyrði undir bæjarsjóð Ísafjarðar allt framá síðustu ár, en þar var minn vinnustaður. Það fór því ekki hjá því að ég kynntist honum vel. Þessi kynni hafa orðið mér umhugsunarefni nú, þegar hann er allur. Skyldum við Ísfirðingar eignast slíkan lækni aftur? Það eru vissulega breyttir tímar frá því sem áður var og viðhorf önnur.

Ég kveð Úlf Gunnarsson. Það sem einkenndi hann í mínum augum voru trúmennska, hógværð og góðlátleg glettni, þrátt fyrir gífurlegt álag alla tíð. Mættum við fá að njóta starfskrafta fleiri slíkra manna, hér norður við heimskaut.

Ég vil að lokum votta eiginkonu hans, börnum og aðstandendum öllum innilegustu samúð.

Magnús Reynir Guðmundsson,

bæjarritari.