19. júlí 1995 | Erlendar fréttir | 295 orð

Chirac viðurkennir aðild Frakka að helförinni

JACQUES Chirac, forseti Frakklands, hefur viðurkennt að Frakkland beri ábyrgð á flutningum á 76.000 gyðingum í útrýmingarbúðir þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni, að sögn International Herald Tribune. Franskir ráðamenn hafa hingað til neitað því að franska ríkið beri ábyrgð á atburðunum.
Chirac viðurkennir að-

ild Frakka að helförinni

JACQUES Chirac, forseti Frakklands, hefur viðurkennt að Frakkland beri ábyrgð á flutningum á 76.000 gyðingum í útrýmingarbúðir þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni, að sögn International Herald Tribune . Franskir ráðamenn hafa hingað til neitað því að franska ríkið beri ábyrgð á atburðunum.

"Þessir myrku tímar munu ávallt flekka sögu okkar og eru fortíð okkar og hefðum til vansæmdar," sagði Chirac í ræðu sem hann flutti á sunnudag í tilefni þess að 53 ár voru liðin frá fyrstu fjöldahandtökunum á gyðingum í París. "Já, Frakkar, franska ríkið, aðstoðuðu við þetta glæpsamlega uppátæki".

Chirac gekk þar með mun lengra í fordæmingu á þætti Frakka í flutningunum en forverar hans í forsetaembættinu. Fyrstu 25 árin eftir síðari heimsstyrjöldina héldu franskir forsetar því fram að þýskir nasistar bæru ábyrgð á flutningum á gyðingum frá Frakklandi. Síðustu forsetar hafa hins vegar kennt Vichy-stjórninni um og sagt að þar sem hún hafi ekki verið lögmæt stjórn Frakklands eigi franska ríkið ekki sök á atburðunum.

Gyðingar ánægðir

Leiðtogar gyðinga í Frakklandi fögnuðu ummælum Chiracs. Joseph Sitruk, æðsti rabbíninn í París, kvaðst "fullkomlega sáttur" við yfirlýsinguna. "Þessi ræða innihélt allt sem við höfðum vonast til að heyra að lokum," sagði Serge Klarsfeld, franskur lögfræðingur sem er þekktur fyrir leit sína að nasistum.

Forveri Chiracs í forsetaembættinu, Francois Mitterrand, neitaði því ekki að Vichy-stjórnin hefði átt aðild að flutningunum en hann hélt því alltaf fram að einungis Vichy- stjórninni, ekki Frakklandi eða franska lýðveldinu, væri um að kenna. "Ég biðst ekki afsökunar í nafni Frakklands," sagði hann í fyrra. "Ég tel ekki að Frakkland beri ábyrgðina.

Fortíð Mitterrands sjálfs blandaðist inn í deiluna í fyrra þegar hann viðurkenndi að hafa starfað fyrir Vichy-stjórnina í átján mánuði áður en hann gekk til liðs við frönsku andspyrnuhreyfinguna árið 1943.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.