21. júlí 1995 | Forsíða | 435 orð

Bandaríkjamenn beita sér fyrir aðgerðum til að vernda "griðasvæði" múslima í Bosníu

Vilja að NATO hóti loftárásum á Serba

Zagreb, Sarajevo. Reuter.

BARDAGAR blossuðu upp að nýju á "griðasvæðinu" Zepa í austurhluta Bosníu í gærkvöldi eftir að frestur, sem Bosníu-Serbar veittu múslimum í bænum til að gefast upp, rann út. Áður höfðu Serbar sagt að þeir hefðu náð Zepa á sitt vald, en múslimar neituðu að fallast á uppgjafarskilmála þeirra.
Bandaríkjamenn beita sér fyrir aðgerðum til að vernda "griðasvæði" múslima í Bosníu Vilja að NATO hóti

loftárásum á Serba

Zagreb, Sarajevo. Reuter.

BARDAGAR blossuðu upp að nýju á "griðasvæðinu" Zepa í austurhluta Bosníu í gærkvöldi eftir að frestur, sem Bosníu-Serbar veittu múslimum í bænum til að gefast upp, rann út. Áður höfðu Serbar sagt að þeir hefðu náð Zepa á sitt vald, en múslimar neituðu að fallast á uppgjafarskilmála þeirra. Bandaríkjamenn lögðu til að Atlantshafsbandalagið (NATO) gripi til harðra loftárása ef Serbar héldu áfram árásum sínum á "griðasvæðin" í Bosníu.

Stjórn Bosníu neitaði staðhæfingum Serba um að Zepa væri fallin en sagði að reynt hefði verið að semja um að íbúar bæjarins, einkum sært fólk, yrðu fluttir á brott undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins. Íbúar Zeba eru um 17.000.

Yfirmaður hers Serba, Radko Mladic, gaf múslimum í Zepa frest til klukkan 17 að íslenskum tíma í gær til að verða við uppgjafarskilmálunum. Hann kvaðst vilja að særðir íbúar bæjarins yrðu fluttir á brott fyrst, síðan konur, börn og aldrað fólk. Hann boðaði hins vegar að karlmönnum á aldrinum 18-55 ára yrði haldið sem stríðsföngum, en múslimar gátu ekki fallist á það þar sem þeir óttast að fangarnir verði teknir af lífi.

Þegar fresturinn rann út hófu Serbar harðar árásir á bæinn og fregnir hermdu að bosníski stjórnarherinn hefði svarað þeim með stórskotaárás á búðir úkraínskra friðargæsluliða. Enginn Úkraínumaður féll.

Utanríkis- og varnarmálaráðherrar frá Bandaríkjunum og löndum sem hafa sent friðargæsluliða til Bosníu koma saman í London í dag. William Perry, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lagði til í gær að á fundinum yrði samþykkt að NATO gerði harðar loftárásir á serbnesk skotmörk ef Serbar hæfu árásir á fleiri "griðasvæði", sem njóta verndar Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði að ekki ætti að hætta slíkum árásum þótt Serbar tækju friðargæsluliða í gíslingu. NATO hætti loftárásum sínum í maí eftir að Serbar tóku 400 friðargæsluliða í gíslingu.

Bretar tóku þessari tillögu fálega í fyrstu en embættismaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði í gærkvöldi að Bretar og Frakkar væru að nálgast sjónarmið Bandaríkjamanna.

Árásir á Bihac

Serbar frá Króatíu gerðu í gær harðar árásir á "griðasvæðið" Bihac í vesturhluta Bosníu og náðu mikilvægum bæ, Sturlic, á sitt vald. Allt að 1.200 manns flúðu frá bænum.

Þá lenti sprengja á forsetabyggingunni í Sarajevo þegar Carl Bild, sáttasemjari Evrópusambandsins, var þar að ræða við Alija Izetbegovic, forseta Bosníu. Enginn særðist í árásinni.

Reuter DRENGIR frá Srebrenica í stríðsleik í búðum fyrir flóttamenn við flugvöll Sameinuðu þjóðanna í Tuzla. Flóttafólk frá Srebrenica hefur sagt að serbneskir hermenn hafi klæðst búningum friðargæsluliða til að lokka til sín flóttamenn úr skógi nálægt bænum. Hermennirnir hafi síðan raðað flóttamönnunum upp og skotið þá.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.