Snorri Júlíusson Mig langar í fáum orðum að minnast tengdaföður míns, Snorra Júlíussonar, sem lést á Landakotsspítala aðfaranótt þriðjudagsins 8. ágúst síðastliðins eftir tiltölulega stutta en erfiða legu.

Ég hitti Snorra fyrst er ég ung að árum fór með syni hans, Hilmari, að taka á móti honum einhverju sinni er Esjan kom til Reykjavíkur af ströndinni, en Snorri starfaði langan tíma á skipum Skipaútgerðar ríkisins. Ég minnist þess helst við þennan fyrsta fund okkar, er ég var kynnt fyrir föður piltsins, að hönd mín hvarf algerlega í hendi Snorra er við heilsuðumst. Svo verklegar og stórar voru hendur Snorra alla tíð að hann var stundum kenndur við þær, Snorri með stóru hendurnar. Snorri og Sigríður, eiginkona hans, áttu heimili sitt að Rauðalæk í Reykjavík og kom ég mikið til þeirra þar á fyrstu hjúskaparárum okkar Hilmars. Ævinlega var gott þar að koma, og þá fannst börnunum sérstaklega mikið til afa síns koma, enda allt látið eftir þeim ef hann var heima. Var Snorri alla tíð hamhleypa til vinnu, sama í hvaða starfi hann var, ævinlega sýndi hann af sér einstaka ósérhlífni. Hvort sem um sjómennsku, málningarvinnu eða saumaskap í slátrinu var að ræða gekk hann til vinnu sinnar af ákafa og lauk sínu verki með sóma. Snorri varð fyrir því slysi við vinnu sína að lærbrotna 1984 og upp úr því ákvað hann að hætta til sjós og enda fékk hann vinnu hjá sínu fyrirtæki í landi og starfaði hann þar, allt þar til Ríkisskip voru lögð niður 1992. Þótti Snorra ætíð gott að starfa hjá Ríkisskipum, enda átti það félag hug hans óskiptan. Snorra var veitt heiðursmerki Sjómannadagsins í Reykjavík á sjómannadaginn árið 1985 fyrir langt og farsælt starf til sjós. Gladdi þetta Snorra mjög þótt fá orð hefði hann um þennan heiður. Árið 1986 fluttumst við Hilmar með börn okkar, Önnur Sigríði og Guðmund Má á Hrísateiginn og var nú aðeins spölkorn á milli húsa okkar. Háttaði svo til að Hilmar var mikið á sjó er við fluttumst og átti Snorri ófáar stundir hér á Hrísateig að hjálpa til við standsetningu á þessu gamla og vanrækta húsi. Urðu heimsóknir Snorra til okkar að daglegum viðburði og nú þóttust börnin himin höndum hafa tekið og geta hlaupið til afa og ömmu í hvert skipti sem þeim datt í hug. Snorri var ekki margmæltur en oft gat orðið ansi heitt í hamsi er rædd voru stjórnmál á heimili þeirra tengdaforeldra minna og blönduðust oft ýmsir inn í þær umræður. Sigríður var á þessum tíma farin að veikjast nokkuð en hún lést á heimili þeirra árið 1987. Skömmu áður en Sigríður lést höfðu þau fest kaup á íbúð að Dalbraut 18, í sambýli aldraðra. Þangað fluttist Snorri og bjó hann þar alla tíð síðan. Eftir að Snorri hætti störfum til sjós skrapp hann þó öðru hverju með syni sínum Hilmari á ströndina. Ævinlega kom hann endurnærður úr þessum túrum, enda átti Snorri marga góða vini og kunningja um alla strönd. Sumarið 1993 fórum við Hilmar með Snorra og börnin á æskuslóðir Snorra í Fljótavík og áttum þar yndislega viku við veiðar og aðra skemmtun. Gengum við meðal annars upp á Hælavíkurbjarg og nutum þar útsýnis og hriklegrar fegurðar æskustöðva Snorra. Ófáar stundir átti Snorri við björgin sem ungur maður og nutum við nú þess að heyra hann segja okkur frá æskuárum sínum og bjargferðum. Þessi vika mun ævinlega verða ógleymanleg í minningunni um mann sem lifði erfiðu en viðburðaríku lífi. Enn einu sinni komust þeir Hilmar og Snorri ásamt syni okkar, Guðmundi Má, í heimsókn í Fljótavíkina í fyrrasumar og var sem Snorri yngdist upp við að heimsækja æskuslóðirnar aftur þótt stutt væri stoppað. Um leið og ég og börnin kveðjum að lokinni yndislegri samfylgd, viljum við þakka elskulegum tengdaföður og afa fyrir allt og allt. Megi algóður guð ævinlega geyma þig, ljúfurinn okkar.

Tengdadóttir og börn.