AÐ LOKINNI tónlistarhátíðinni UXI 95, sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri nú um nýliðna verslunarmannahelgi, þykir okkur undirrituðum ástæða til að gefa landsmönnum innsýn í þann þátt sem að okkur starfsfólki heilsugæslunnar sneri. Það var í júní sem fyrstu fréttir bárust af væntanlegri útihátíð á Kirkjubæjarklaustri, þeirri fyrstu sinni tegundar á staðnum.

UXI 95 frá sjónarhóli

heilsugæslunnar

Upp til hópa, segja Haukur Valdimarsson og Matthildur Pálsdóttir , eru krakkarnir myndarlegir, vel innrættir, opnir, heiðarlegir og skemmtilegir. AÐ LOKINNI tónlistarhátíðinni UXI 95, sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri nú um nýliðna verslunarmannahelgi, þykir okkur undirrituðum ástæða til að gefa landsmönnum innsýn í þann þátt sem að okkur starfsfólki heilsugæslunnar sneri.

Það var í júní sem fyrstu fréttir bárust af væntanlegri útihátíð á Kirkjubæjarklaustri, þeirri fyrstu sinni tegundar á staðnum. Um árabil hafa ferðamenn fjölmennt að Klaustri um verslunarmannahelgi en fjölskyldufólk og erlendir ferðamenn hafa verið mest áberandi í þeim hópi. Það var því vissulega í vændum bæði kvíðvænlegt og spennandi verkefni að takast á við, þar sem bjartsýnustu menn spáðu komu tíu til fimmtán þúsund unglinga. Samningum við tónleikahaldara miðaði hægt framan af og var því ekki hægt að skipuleggja móttökuna fyrr en vel var liðið á júlímánuð.

Heilsugæslan á Klaustri

Á Klaustri er H1 heilsugæslustöð með lækni, hjúkrunarforstjóra, ljósmóður og ritara. Þessi mannskapur sinnir að öllu jöfnu rúmlega sex hundruð manna héraði sem staðsett er milli Sanda. Að vísu margfaldast íbúatalan flestar helgar yfir sumartímann vegna ferðamanna án þess að aukið sé við mannafla á heilsugæslustöðinni. Það var því ljóst að talsvert þyrfti að auka þjónustugetuna á væntanlegum tónleikum ef vel ætti að vera, ekki vegna tónleikanna eða unglinganna sem kæmu til með að sækja þá, heldur vegna hins mikla fjölda sem búist var við að sýndi sig.

Skipulag

Alls störfuðu fjórir hjúkrunarfræðingar og fjórir læknar ásamt fimm sjúkraflutningamönnum við heilsugæslu þá sjötíu og tvo tíma sem hátíðin stóð yfir. Auk þess var unnið í nánu samstarfi við björgunarsveitarmenn á staðnum. Komið var upp sjúkramóttöku á mótssvæðinu þar sem unnt var að sinna öllu því helsta sem uppá kom. Alvarlegri tilfelli voru send á heilsugæslustöðina, sem er í þriggja kílómetra fjarlægð frá mótssvæðinu, en þar er m.a. aðstaða til að taka röntgenmyndir, framkvæma einfaldar blóð- og þvagrannsóknir, gifsa og hafa fólk tímabundið undir eftirliti.

Eiturlyf

Aðsóknin að tónleikunum var mun minni en búist var við. Ástæður þess eru ekki ljósar, en ýmsir telja að fjölmiðlaumræðan fyrir samkomuna hafi haft neikvæð áhrif á aðsóknina. Talað var um dóphátíð; alsæla og amfetamín flytu um í stríðum straumum og að þeir sem ekki hefðu ánetjast slíkum efnum, myndu gera það á hátíðinni. Það er því afar skiljanlegt að unglingar sem eru afhuga slíku og foreldrar sem vilja allt til vinna að halda börnum sínum frá fíkniefnum tækju stefnuna annað.

Reynslan sýndi að fíkniefnaneysla var lítil á einhverjum mælikvarða sem lögreglan notar. Það er hins vegar alvarlegt umhugsunarefni að starfsmönnum heilsugæslunnar bárust endurtekið fréttir af mönnum sem buðu unglingunum eiturlyf "frítt", þ.e.a.s. reyndu að tæla þau til að verða fastir viðskiptavinir. Nokkrir unglingar létu glepjast og upplifðu vonda vímu sem síðan leiddi til heimsóknar í sjúkramóttökuna.

Starfið

Fyrsti sólarhringurinn í sjúkramóttökunni var annasamastur því þá leituðu flestir sér aðstoðar vegna meiðsla í kjölfar áfloga og annars ofbeldis. Eftir það var aðalverkefnið að sinna snúnum eða brotnum ökklum, ýmiss konar verkjum, brjóstsviða í kjölfar landadrykkju og sólbruna vegna þeirrar einmuna veðurblíðu sem ríkti alla helgina.

Samvinna við björgunarsveitir, starfsfólk Rauða kross hússins, Stígamótakonur og lögreglu var með miklum ágætum og unnu allir að því sem einn maður að vaka yfir velferð unglinganna. Það var athyglivert að sjá hvernig allt þetta fólk umgekkst unglingana með rósemd og virðingu þrátt fyrir talsvert annríki á köflum.

Cheerios kynslóðin

Það er álit okkar sem stjórnuðum heilsugæsluhópnum á þessari umtöluðu hátíð um verslunarmannahelgina að unglingarnir okkar hafi enn einu sinni sýnt sína góðu eiginleika. Upp til hópa eru krakkarnir myndarlegir, vel innrættir, opnir, heiðarlegir og skemmtilegir. Til lasts viljum við þó segja að þau eru löt að ganga og þau ætlast til að fá ókeypis heilbrigðisþjónustu! Þeir gallar eru uppeldislegir og ætti að vera auðvelt að laga. Kynslóðin er alin upp á cheerios og örbylgjupoppi og þau eru vön að láta aka sér um eins og greifum til ýmiss konar tómstundaiðkana. Við viljum gjarnan sjá þá hugarfarsbreytingu hjá unga fólkinu að jafnsjálfsagt sé að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, rétt eins og menn greiða fyrir pylsu, gos og teygjuhopp. Það er óneitanlega sérkennilegt að fólk skuli vera tilbúið að borga 4.500 krónur fyrir að hoppa úr tuttugu metra hæð með teygju bundna við fótleggina, en vilja ekki greiða 15 krónur fyrir verkjatöflu við höfuðverknum sem hlýst af stökkinu.

Útihátíð eða ekki?

Við höfum endurtekið heyrt það viðhorf að skipulagðar útihátíðir af þessu tagi eigi ekki rétt á sér. Þar sé unglingum safnað saman til margra sólarhringa drykkju með öllum þeim vandamálum sem slíkt hefur í för með sér. Hins vegar má benda á, að ef engar útihátíðir væru skipulagðar, myndu unglingarnir samt sem áður safnast saman og sukka. Þá væru þau án þess eftirlits, aðhlynningar og öryggis sem þau búa við á vel skipulagðri hátíð.

Niðurlag

Eftir reynslu okkar þessa helgi þykir okkur miður að eiturlyfjasalar skuli komast upp með að reyna að fá unga fólkið til að ánetjast eiturlyfjum. Slíka skemmdarverkastarfsemi ber að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Fólkið sem á að erfa landið er glæsilegur hópur sem hefur alla burði til að bægja þeirri óværu frá sér, sem eiturlyfjasalar eru. Fjársjóður Íslands er æskufólkið og um þann fjársjóð þarf að standa vörð. Þá mun þjóðinni vel farnast.

Haukur er heilsugæslulæknir á Kirkjubæjarklaustri, Matthildur er hjúkrunarforstjóri heilsugæslustöðvarinnar á Kirkjubæjarklaustri.

Haukur Valdimarsson

Matthildur Pálsdóttir