SKÓGARDAGUR Skógræktar ríkisins og Skeljungs hf. verður haldinn í Jafnaskarðsskógi við Hreðavatn laugardaginn 19. ágúst. Jafnaskarðsskógur er talinn vera eitt fegursta og ævintýralegasta skógarsvæði landsins og er þessi náttúruperla lítt þekkt þótt hún liggi við alfaraleið. Þetta er sjöundi skógardagurinn sem þessir aðilar hafa gengist fyrir og jafnframt sá síðasti á þessu ári.
Skógardagur í Jafnaskarðsskógi

SKÓGARDAGUR Skógræktar ríkisins og Skeljungs hf. verður haldinn í Jafnaskarðsskógi við Hreðavatn laugardaginn 19. ágúst. Jafnaskarðsskógur er talinn vera eitt fegursta og ævintýralegasta skógarsvæði landsins og er þessi náttúruperla lítt þekkt þótt hún liggi við alfaraleið. Þetta er sjöundi skógardagurinn sem þessir aðilar hafa gengist fyrir og jafnframt sá síðasti á þessu ári.

Dagskráin í Jafnaskarðsskógi hefst kl. 14. Boðið verður upp á fræðslu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Gengið verður um skóginn með gestum undir leiðsögn skógarvarðar þar sem fjölbreytt lífríki skógarins og umhverfi hans verður kynnt. Ævintýraferð verður farin fyrir börn þar sem skógarálfarnir verða á sveimi í skóginum. Pylsur verða grillaðar og boðið upp á ketilkaffi. Stuttar hestaferðir standa til boða og frí veiði í Hreðavatni. Listamenn af ýmsum toga koma einnig fram í skóginum.

Skógrækt ríkisins eignaðist Jafnaskarðsskóg árið 1939 og er hann um 150 hektarar að stærð. Unnið hefur verið að því að gera skóginn að aðgengilegu útivistarsvæði fyrir fólk og hefur hann nú verið grisjaður og nýir göngustígar lagðir. Skógarvörður er Birgir Hauksson.

Skógræktin/Ól. Odds. MYNDIN var tekin á skógardeginum í Haukadalsskógi 29. júlí sl. Þann dag heimsóttu 600 manns skóginn. Efst til vinstri má sjá skógarálfinn sem er fastagestur á skógardögunum.