Eggert V. Briem Þegar menn settust að á biskupsstólum til forna og lögðu með sér fé, voru þeir aufúsugestir og kölluðust próventukarlar. Háskólinn hefur átt slíkan próventukarl í nær 40 ár.

Eggert V. Briem kynntist prófessor Þorbirni Sigurgeirssyni á fyrstu dögum Eðlisfræðistofnunar Háskólans 1958. Þeir Þorbjörn og Eggert náðu vel saman. Þorbjörn gat svalað forvitni Eggerts um margvísleg fyrirbæri náttúrunnar og leiðbeint honum um lesefni til að glíma við þær gátur sem á hann sóttu. Vestan hafs hafði Eggert lengi reynt að ná eyrum lærðra manna en lítinn hljómgrunn fundið. Eggert hreifst af starfi Þorbjarnar og lærisveina hans og vildi styrkja það af bestu getu. Stofnunin átti engan bíl til mælingaferða. Eggert sendi Þorbirni bíl sinn að vestan og sagði hann betur kominn hjá Þorbirni. Seinna gaf hann Raunvísindastofnun torfærubifreið til fjallaferða. Hann veitti styrki til kaupa á sveiflusjá sem var grundvallartæki til mælinga og tækjasmíði. Hann gaf tæki til Mössbauermælinga, ljósnema fyrir ljósstrik- og segulhermumælingar á veilum í hálfleiðurum og tæki til myndgreininga. Á sviði jarðeðlisfræði var áhugi Eggerts einkum tengdur jöklum. Hann styrkti frumvinnu sem leiddi til smíði íssjár til að kortleggja landslag undir jöklum, rannsóknarstöð á Grímsfjalli, borun eftir gufu þar til að framleiða rafmagn fyrir rannsóknartæki og til hitunar skála Jöklarannsóknarfélagsins á Grímsfjalli, smíði bræðslubors til að bora í gegnum íshellu Grímsvatna og gaf snjósleða og lorantæki til jöklaferða. Eggert styrkti fyrstu tilraunir með örtölvur og forritun þeirra. Sú reynsla varð undirstaða í þróun rafeindavoga sem síðan byltu hér starfsháttum í fiskvinnslu og lögðu grundvöll að fyrirtækinu Marel hf.

Öll þessi verkefni styrkti Eggert vegna áhuga sem hann hafði sjálfur á efninu og hann naut þess að taka þátt í brautryðjandastarfi. Styrkir hans voru sérlega mikilvægir þar sem hér var oftast um tvísýn viðfangsefni að ræða, sem fáir vildu styðja fyrr en meira var vitað og árangur var tryggur. Styrkir hans brutu ísinn og ruddu þessum verkefnum greiða braut. Eggert hefur notið þess að sjá árangur af stuðningi sínum. En hann hefur jafnframt sjálfur verið ríkur af hugmyndum og notið þess að kynna þær fyrir yngri mönnum sem hann hefur hvatt til dáða. Ein athyglisverðasta ábending hans varðar eina grundvallarforsendu eðlisfræðinnar, hraða ljóssins. Eggert hefur réttilega bent á að enginn hefur í raun mælt ljóshraðann í eina stefnu. Allar mælingar eru gerðar þannig að ljós er látið fara fram og til baka. Sá ljóshraði sem þannig er mældur er meðalhraði beggja leiða, en þar gefa menn sér að hraðinn fram sé hinn sami og hraðinn til baka. Þessu vill Eggert ekki una nema það sé sannað með mælingum. Enginn hefur enn treyst sér til þeirra.

Eggert er mikill áhugamaður um virkjanir vatnsfalla. Hann hefur gert tillögu um virkjun Grímsvatna sem jafnframt kæmi í veg fyrir Skeiðarárhlaup. Hann vill sameina vötn frá Brúarjökli og Dyngjujökli í miðlunarlóni á Jökulsdalsheiði og veita vatninu norður í Vopnafjörð til virkjunar.

Ætla mætti að með hundrað ára aldri væri Eggert orðinn saddur lífdaga og leiður á brölti vísindamanna. Ekkert er þó fjær honum. Hann á sér þann draum að mega enn ganga vestur á Mela til að ræða áhugamál sín við yngri menn og fylgjast með gangi rannsókna. Megi hann njóta þeirrar ánægju sem lengst.

Sveinbjörn Björnsson.