HLUTHAFAR í Softis hf., sem vinnur að þróun og sölu á Louis- hugbúnaðinum ákváðu að auka hlutafé félagsins á aðalfundi þess í gær. Aflvaki Reykjavíkur hf. og Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. munu leggja fram stóran hluta hins nýja hlutafjár. Softis hefur undirritað viljayfirlýsingu við tvö erlend fyrirtæki um notkunarrétt og dreifingu á hugbúnaðinum.
Aflvaki og Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn fjárfesta

Leggja fram nýtt

hlutafé í Softis hf.

Tvö erlend fyrirtæki í samstarf um dreifingu á Louis- hugbúnaðinum

HLUTHAFAR í Softis hf., sem vinnur að þróun og sölu á Louis- hugbúnaðinum ákváðu að auka hlutafé félagsins á aðalfundi þess í gær. Aflvaki Reykjavíkur hf. og Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. munu leggja fram stóran hluta hins nýja hlutafjár. Softis hefur undirritað viljayfirlýsingu við tvö erlend fyrirtæki um notkunarrétt og dreifingu á hugbúnaðinum.

Softis var stofnað árið 1990 og síðan hefur það unnið að þróun og markaðssetningu Louis-hugbúnaðarins, sem bæði aðskilur og tengir saman vinnslu og viðmót í tölvukerfum.

151 milljón í þróun og markaðssetningu Louis

Heildarkostnaður Softis við markaðssetningu og þróun hugbúnaðarins hefur numið 151 milljón króna og í efnahagsreikningi er þessi kostnaður eignfærður, að frádregnu söluverði. Þá nema skuldir félagsins 42 milljónum og eigið fé 114,9 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Á fundinum kom fram að kostnaður við hugbúnaðinn væri eignfærður því ef hann yrði færður sem tap myndi hann fyrnast á fimm árum. Í athugasemdum endurskoðenda segir að réttmæti þessarar eignfærslu sé háð því að félaginu takist að selja hugbúnaðinn á næstunni en takist það ekki geti það haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu félagsins og framtíðarstöðu þess.

Hlutabréfin seld á genginu 4

Hlutafé Softis er nú 39 milljónir króna að nafnvirði en á fundinum var samþykkt að veita stjórn heimild til að auka það í 51 milljón. Viðskipti með hlutabréf í Softis voru síðast skráð á Opna tilboðsmarkaðnum fyrir rúmu ári og þá á genginu 6. Sigurður Björnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að ljóst sé að heimildin verði nýtt að einhverju leyti en stefnan sé að auka hlutafé sem minnst. "Nýju hlutabréfin verða seld á genginu 4 og hafa Aflvaki Reykjavíkur hf. og Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. nú þegar lofað að kaupa bréf fyrir 15 milljónir samtals að kaupvirði að fullnægðum skilyrðum. Stjórnin mun síðan taka ákvörðun um frekari útboð ef á þarf að halda og þá innan þess ramma sem aðalfundur veitti heimild til."

Viðræður við erlend fyrirtæki

Sigurður segir að hlutafjáraukningin sé nauðsynleg til að fjármagna rekstur fyrirtækisins þar til það fari að skila tekjum og telur hann allar líkur á að það verði á næsta ári. "Softis er í viðræðum við tvö erlend fyrirtæki um notkunarrétt og sölu á Louis-hugbúnaðinum. Skrifað var undir viljayfirlýsingar um samstarf við þessi fyrirtæki í júní og júlí en stefnt er að formlegum viðskiptasamningum fyrir lok þessa árs. Við erum bjartsýnir á að þá fari tekjurnar loks að skila sér."

Hluthafar Softis eru nú 262 talsins. Aðeins einn hluthafi á stærri en 10% hlut eða Radíóbúðin með 30,6%. Á aðalfundinum vék Sigurður Björnsson úr stjórn fyrirtækisins en Páll Guðjónsson, starfsmaður Aflvaka, kom inn í hans stað.