Georg Gíslason Georg Gíslason var fæddur í Vestmannaeyjum 24. ágúst 1895, sonur sæmdarhjónanna Gísla Lárussonar og Jóhönnu Árnadóttur sem allan sinn búskap bjuggu í Stakkagerði í Vestmannaeyjum. Gísli var sonur Lárusar, bónda og hreppstjóra Jónssonar á Búastöðum í Vestmannaeyjum og konu hans Kristínar Gísladóttur.

Gísla er svo lýst af Theodóri Friðrikssyni, rithöfundi, sem var vertíðarmaður hjá honum vetrarvertíðina 1919: "Gísli Lárusson var gullsmiður að námi en ekki hafði hann sinnt þessu handverki sínu árum saman. Hann hafði verið með fremstu formönnum sem stundað höfðu sjó á opnum bátum frá Vestmannaeyjum. Hann hafði verið með bestu bjargmönnum í Eyjum fyrr og síðar, snar og viðbragðsfljótur. Nú var hann forstjóri kaupfélagsins Bjarma og var það félag umsvifamikið um þessar mundir." (Í verum 1941 bls. 589.)

Þrátt fyrir mikil umsvif í útgerð og verslunarrekstri lagði Gísli stund á fræðistörf og var vel að sér í öllu er varðaði náttúrufræði og sögu Vestmannaeyja. Eftir hann liggja handrit á Landsbókasafni um þessi efni. Hann var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar.

Jóhanna var dóttir Árna Diðrikssonar, bónda og hreppstjóra í Stakkagerði (bróður Þórðar Diðrikssonar sem gerðist mormóni og flutti til Utah) og konu hans Ásdísar Jónsdóttur frá Djúpavogi. Um Jóhönnu var sagt að hún hefði verið mikill kvenskörungur og stjórnað sínu heimili af rausn enda var heimili hennar rómað fyrir myndarskap. Hún var lengi formaður kvenfélagsins Líknar sem alla tíð hefur unnið að mannúðarmálum og félagslegum umbótum í Vestmannaeyjum.

Georg ólst upp hjá foreldrum sínum í Vestmannaeyjum ásamt fjórum systkinum en þau voru: Theodóra gift Osvald Petersen, dönskum manni, og bjuggu þau í Bandaríkjunum; Árni, verslunarmaður, kvæntur Sigurbjörgu Sigurðardóttur frá Seyðisfirði; Lárus sem dó tvítugur og Kristín gift Bjarna Sighvatssyni, starfsmanni Útvegsbanka Íslands síðar útibústjóra í Vestmannaeyjum.

Ungur að árum gerði Georg víðreist og innritaðist í verslunarskóla í Englandi, þar sem hann dvaldi um hríð. Upp frá því varð hann mikill Bretavinur og innleiddi ýmsa breska siði þegar hann eignaðist heimili sjálfur. Þegar ég kom á heimilið tæplega tvítug lærði ég fljótt að drekka te og ýmislegt var það sem mér þótti nýstárlegt þá.

Georg stofnsetti eigin verslun árið 1917 aðeins 22 ára gamall, Verslun Georgs, og rak hana til dauðadags. Hún var að vísu aldrei umfangsmikil en Georg gerði sér far um vandað vöruúrval og naut verslun hans trausts og vinsælda. Auk verslunar sinnar rak Georg framan af árum útgerð og var meðal brautryðjenda í útflutningi ísvarins fisks á breskan markað. Einnig stofnsetti hann og rak reykhús til fiskreykingar um árabil. Þar framleiddi hann eftirsótta gæðavöru. Sjálfri finnst mér ég aldrei fá jafngóðan reyktan fisk og þá.

Georg Gíslason var um áratugaskeið umboðsmaður breskra og belgískra togaraeigenda í Vestmannaeyjum og breskur vararæðismaður frá 1946 til dauðadags.

Georg var mikill Vestmannaeyingur og vildi veg og vanda síns byggðarlags sem mestan. Hann var mikill félagshyggjumaður og tók þátt í margvíslegum félags- og umbótamálum bæjarfélagsins. Hann var meðal stofnenda og fyrsti formaður Íþróttafélagsins Þórs og keppti sjálfur í knattspyrnu fram eftir aldri. Hann var liðtækur glímumaður og vann raunar til verðlauna á þeim vettvangi. Á seinni árum gaf hann sig mest að golfíþróttinni og var meðal keppenda á fyrsta Íslandsmótinu í golfi árið 1942. Georg var meðal stofnenda Félags kaupsýslumanna í Vestmannaeyjum og lengi formaður félagsins, átti lengi sæti í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja og var um árabil formaður Sjálfstæðisfélags Vestmannaeyja. Hann var virkur þátttakandi í Leikfélaginu á sínum yngri árum en var hættur að leika þegar ég kynntist honum. Oft var gaman að hlusta á hann rifja upp ýmsar uppákomur á leikferlinum. Auk áðurnefndra félagsstarfa sinnti Georg ýmsum öðrum trúnaðarstörfum sem of langt yrði upp að telja.

Georg Gíslasyni var prúðmennskan og snyrtimennskan í blóð borin. Hann var að mestu sjálfmenntaður og fróður enda sjaldan komið að tómum kofanum í viðræðum við hann sama hvert málefnið var. Georg var hávaxinn, hvikur á fæti og vakti verðskuldaða athygli þar sem hann fór. Georg var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Jakobína Sighvatsdóttir en hún var systir Bjarna manns Kristínar. Þau voru börn Sighvats Bjarnasonar, bankastjóra Íslandsbanka og konu hans Ágústu Sigfúsdóttur. Þeirra sambúð varð skammvinn því Jakobína lést ung að árum. Þau voru barnlaus. Önnur kona Georgs var Guðfinna Sigríður, dóttir Kristjáns Ingimundarsonar, fiskimatsmanns í Klöpp og konu hans Sigurbjargar Sigurðardóttur. Þau eignuðust þrjú börn. Guðfinna andaðist 1953 aðeins 54 ára að aldri. Þriðja kona Georgs var Svava Guðmundsdóttir en henni kvæntist hann 1954 og höfðu þau verið nokkra mánuði í hjónabandi þegar hann lést.

Eins og áður segir eignuðust Georg og Guðfinna þrjú börn en eitt dó í fæðingu. Þeir sem upp komust eru: 1) Theodór Sigurjón, f. 5.2. 1927, lögfræðingur, kvæntur Ástu Þórðardóttur, f.16.10, 1930. Þeirra börn eru: Katrín, lögfræðingur í Reykjavík, f. 10.6. 1950; Guðfinna Stefanía, sölustjóri, Reykjavík, f. 20.9. 1951; Georg, prentari, Reykjavík, f. 20.3. 1955 og Þórður, tæknifræðingur, Reykjavík, f. 8.7. 1957. Barnabörnin eru 10. 2) Kristján síðast skrifstofumaður í Vestmannaeyjum, f. 13.11. 1928, d. 1977 kvæntur Helgu Björnsdóttur frá Seyðisfirði, f. 2.4. 1931 en hún lést 1994. Þeirra börn eru Georg Þór, verslunarstjóri og bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, f. 25.3. 1950; Björn, sjómaður Reykjavík, f. 13.7. 1951; Guðfinna Sigríður, bankastarfsmaður og húsmóðir, Túni, Hraungerðishreppi, f. 17.11. 1953; Margrét Grímlaug húsmóðir Vestmannaeyjum, f. 5.10. 1958; tvíburarnir Mjöll og Drífa húsmæður í Vestmannaeyjum, f.15.12. 1959 og tvíburarnir Óðinn og Þór, sjómenn, Vestmannaeyjum, f. 27.11. 1961. Barnabörnin eru 21. Georg Gíslason varð bráðkvaddur á heimili sínu 27. febrúar 1955 tæplega sextugur að aldri. Segja má með sanni að hann hafi verið dæmigerður fulltrúi aldamótakynslóðarinnar sem lagði krafta sína og metnað í að móta íslenskt þjóðfélag á fyrstu áratugum aldarinnar. Þess njótum við í dag.

Ásta Þórðardóttir.