29. ágúst 1995 | Íþróttir | 677 orð

Hvernig fannst KR-ingnumMIHAJLO BIBERCICað skora sigurmarkið? Viss um að ég næði að skora

MIHAJLO Bibercic var hetja KR-inga í bikarúrslitaleiknum gegn Fram á Laugardalsvelli. Hann fékk fjölmörg marktækifæri sem hann átti oftar en ekki þátt í að skapa. Hann misnotaði vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks og hann skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok og það er það sem máli skiptir þegar upp er staðið.

Hvernig fannst KR-ingnum MIHAJLO BIBERCIC að skora sigurmarkið?

Viss um að ég

næði að skora

MIHAJLO Bibercic var hetja KR-inga í bikarúrslitaleiknum gegn Fram á Laugardalsvelli. Hann fékk fjölmörg marktækifæri sem hann átti oftar en ekki þátt í að skapa. Hann misnotaði vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks og hann skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok og það er það sem máli skiptir þegar upp er staðið. Bibercic hefur sett svip sinn á íslenska knattspyrnu þau þrjú ár sem hann hefur verið hér. Hann lék í tvö ár með Skagamönnum og varð Íslandsmeistari með liðinu bæði árin og að auki bikarmeistari 1993 og svo aftur á sunnudaginn með KR.

Bibercic, eða Mikki, eins og hann er oftast kallaður, er fæddur 23. september 1968 og heldur uppá 27 ára afmælið sitt þegar KR-ingar taka á móti Keflvíkingum í Frostaskjólinu í síðustu umferð Íslandsmótsins. Hann er kvæntur og eiga þau hjón tvær dætur, Ivonu sem er þriggja ára, og Alexöndru sem er 6 ára. Bibercic byrjaði ungur í knattspyrnunni, lék með Radnicki Kragusevac á sínum yngri árum, var um tíma í Þýskalandi en lék með júgóslavnesku liði í 1. deildinni áður en hann kom hingað til lands.

"Það var þannig að Luka Kostic vinur minn hafði leikið hér á landi í nokkur ár og spurði mig hvort ég vildi ekki koma til Íslands og spila fótbolta. Ég sagði bara nei, það gæti ekki verið leikin knattspyrna á Íslandi."

En þú komst nú samt?

"Já þegar ég fór að hugsa málið nánar ákvað ég að slá til og kom til Akraness fyrir þremur árum og lék með þeim í tvö ár og svo með KR í sumar. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími og ég kann vel við mig hér á landi, sérstaklega upp á Akranesi. Hjarta mitt er þar."

Þú fékkst nokkur færi sem misfórust meðal annars vítaspyrnu.

"Já, það er alveg rétt. Ég var búinn að fá nokkur færi sem misfórust, en ég var alveg viss um að ég myndi skora í þessum leik. Ég hef alltaf reynt að skjóta í fyrstu snertingu og það tókst sem betur fer þarna undir lokin."

Nú fagnaðir þú alveg ógurlega, hvað hugsaðir þú þegar boltinn lá í netinu?

"Eiginlega ekkert. Það er atvinna mín að skora mörk og ég er bara ánægður að ég náði að setja boltann í netið. Annars var ég búinn að fá færi sem ég hefði átt að skora úr. Til dæmis skallinn í fyrri hálfleik, það var ótrúlegt hvernig Birkir varði hann og ég er viss um að enginn annar markvörður hér á landi hefði varið þennan skalla. Birkir er besti markvörður landsins á því er enginn vafi."

En þú fékkst gult spjald fyrir fagnarðarlætin.

"Já það var í sjálfu sér allt í lagi, en ég er viss um að það er bara á Íslandi sem menn fá gult fyrir að fagna. Það er samt ekki alltaf gefið gult fyrir að fagna hér og ég hef oft séð menn hlaupa að stúkunni og fagna án þess að fá gult spjald fyrir."

Þú ert nokkuð örugg vítaskytta, en hvað klikkaði núna?

"Þetta var ágætt víti en ég tók það öðruvísi en ég er vanur. Ég hef vanið mig á að horfa alltaf á markið þegar ég spyrni en ég gerði það ekki núna. Það breytir því ekki að spyrnan var ágæt en Birkir bara varði vel."

Þú fékkst gullskóinn í fyrra sem markahæsti leikmaður fyrstu deildarinnar. Hefur þú alltaf skorað mikið af mörkum?

"Já ég hef verið markheppinn í gegnum tíðina og var meðal annars markahæstur í öðrum flokki með Kragusevac árið 1987, gerði 45 mörk í 36 leikjum."

Hvernig finnst þér knattspyrnan vera hér á Íslandi?

"Knattspyrnan hér er á uppleið og mér hefur fundist hún vera það þessi ár sem ég hef verið hér, það þarf ekki annað en að skoða Skagaliðið til að sjá að fótboltinn er á réttri leið, en það vantar meiri peninga í boltann til að hann verði enn betri."

Morgunblaðið/Gunnlaugur Rögnvaldsson MIHAJLO Bibercic hefur tvívegis orðið bikarmeistari þau þrjú ár sem hann hefur leikið hér, fyrst með ÍA og nú KR. Eftir

Skúla Unnar

SveinssonAðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.