LANGVARANDI samdráttur í neyslu kindakjöts hefur neytt sauðfjárbændur til að breyta um stefnu. Bændur virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að kvótakerfið og opinber verðlagning á kindakjöti hafi leitt þá út í öngstræti.
VANDI SAUÐFJÁRRÆKTARINNAR

Kvótakerfi afnumið og

verðlagning gefin frjáls

Samkvæmt drögum að nýjum búvörusamningi verður kvótakerfi í sauðfjárrækt afnumið og verðlagning á kindakjöti gefin frjáls. Jafnframt er stefnt að því að fækka búum og stuðla að því að þau stækki. Egill Ólafsson skoðaði drögin í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið í sauðfjárrækt á síðustu árum. LANGVARANDI samdrátt ur í neyslu kindakjöts hefur neytt sauðfjárbændur til að breyta um stefnu. Bændur virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að kvótakerfið og opinber verðlagning á kindakjöti hafi leitt þá út í öngstræti. Drög að nýjum búvörusamningi gera ráð fyrir að kvótakerfi í sauðfjárrækt verði afnumið og opinberri verðlagningu kjötsins verði hætt árið 1998. Beingreiðslum til bænda verður hins vegar haldið áfram.

Samkvæmt núgildandi búvörusamningi eru framleiðslu sauðfjárafurða settar þröngar skorður. Allir bændur fá úthlutað svokölluðu greiðslumarki, þ.e. kvóta. Greiðslumarkið er miðað við framleiðslu bænda á tilteknu tímabili áður en kvótakerfinu var komið á fót. Heildargreiðslumarkið er miðað við neyslu innanlands. Samkvæmt samningnum á að ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert ár á haustin og skal þá taka tillit til sölu síðustu mánuðina á undan og birgðastöðu. Birgðir eiga ekki að vera meiri en sem nemur sex vikna sölu, en miðað við núverandi neyslu er það um 800 tonn.

Með núgildandi búvörusamningi, sem tók gildi árið 1992, var gerð sú breyting að niðurgreiðslum á búvörum var hætt en teknar voru upp beinar greiðslur til bænda. Í dag greiðir ríkið 50% af því verði sem sauðfjárbændur fá fyrir framleiðslu sína, samtals 1.627 milljónir. Þessar greiðslur eru tengdar framleiðslunni þannig að þær skerðast ef bændur framleiða ekki 80% af sínu greiðslumarki.

Bændur framleiða meira af lambakjöti en selst á innanlandsmarkaði og þar með meira en heildarkvótinn (heildargreiðslumarkið) segir til um. Bændur verða sjálfir að sjá um að selja þetta kjöt úr landi og það hafa þeir gert með því að taka það inn á svokallaða umsýslusamninga. Ekki eru greiddar neinar beingreiðslur fyrir þetta kjöt.

Stöðugur sölusamdráttur

Sala á lambakjöti á innanlandsmarkaði hefur minnkað ár frá ári. Á árunum 1982 og 1983 seldust tæplega 11 þúsund tonn af lambakjöti á innanlandsmarkaði, en núna nemur salan um 7 þúsund tonnum. Þegar búvörusamningurinn var gerður gerðu höfundar hans sér grein fyrir að sala kynni að halda áfram að minnka, en hann er þó byggður á þeirri forsendu að sölusamdrátturinn yrði ekki verulegur. Við upphaf samningsins var heildargreiðslumarkið 8.600 tonn. Árið eftir lækkaði greiðslumarkið niður í 8.000 tonn og í ár er greiðslumarkið 7.200 tonn. Sölusamdráttur á kindakjöti hefur haldið áfram á þessu ári og nú eru til í landinu um 2.000 tonn af kjöti, sem samsvarar 3-4 mánaða neyslu. Miðað við núgildandi samning hefði þurft að skerða greiðslumark um allt að 17%.

Stöðug skerðing á greiðslumarki hefur leitt til þess að búin hafa minnkað ár frá ári og þar með tekjur bænda. Í dag eru 88% af öllum hreinum sauðfjárbúum undir 300 ærgildum. Svo lítil bú leiða til þess að framleiðslan er óhagkvæm og mun dýrari en hún þyrfti annars að vera. Við endurskoðun búvörusamningsins hafa flestir talið að ekki sé hægt að skera framleiðsluna meira flatt niður eins og gert hefur verið. Búin verði að fá að stækka á ný, en það þýðir jafnframt að þeim verður að fækka. Þess má geta að undanfarin ár hefur allt önnur þróun átt sér stað í mjólkurframleiðslunni. Þar hafa búin verið að stækka.

Kvótakerfið afnumið

Þær tillögur sem nú hafa verið lagðar fram gera ráð fyrir að kvótakerfi í kindakjötsframleiðslu verði afnumið. Áfram verða þó greiddar beingreiðslur með svipuðum hætti og verið hefur. Þetta þýðir með öðrum orðum að bændur fá greiðslur frá ríkinu upp að ákveðnu marki, en þeir mega aftur á móti framleiða eins mikið af kjöti og þeir vilja. Beingreiðslurnar verða framleiðslutengdar þannig að menn fá þær ekki nema að framleiða eitthvert kjöt.

Samningsdrögin gera ráð fyrir að svokallað "Markaðsráð bænda" áætli í upphafi hvers verðlagsárs hvað mikið magn á að reyna að selja á innanlandsmarkaði. Það kjöt sem framleitt er umfram það verður selt út og taka bændur sameiginlega ábyrgð á því. Í dag fá bændur um 400 krónur fyrir kílóið af lambakjöti á innanlandsmarkaði, en útflutningurinn gefur þeim ekki nema 110-115 krónur á kíló. Verð fyrir útflutt kjöt hefur farið lækkandi. Í fyrra var það t.d. um 150 krónur.

Jón Erlingur Jónasson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, sagði að þessi breyting ætti t.d. að leiða til þess að bændur sæju sér hag í að senda alla gripi í sláturhús og að minna yrði um heimaslátrun, sem margir telja að hafi verið mjög mikil.

Verðlagning frjáls 1998

Önnur meginbreyting sem stefnt er að því að gera með búvörusamningnum er að gefa verðlagningu á kindakjöti frjálsa. Sumir bændur hafa verið hikandi við að stíga þetta skref ekki síst vegna þess að framleiðslan á kjötinu er miklu meiri en eftirspurnin. Þess vegna er gert ráð fyrir aðlögunartíma og að frjáls verðlagning taki gildi árið 1998, að því tilskildu að þá hafi skapast jafnvægi á kjötmarkaðinum.

Í dag er verð á kindakjöti ákveðið af fimmmannanefnd og sexmannanefnd, sem í sitja fulltrúar bænda, neytenda, sláturleyfishafa og stjórnvalda. Svo á að heita að opinber verðlagning sé einnig á nautakjöti, en í reynd hefur nautakjötsverð sveiflast eftir markaðsaðstæðum. Verðlagning á öðru kjöti í landinu er frjáls.

Eins og gefur að skilja er kindakjötið í ákaflega erfiðri samkeppnisstöðu þegar það er eina kjöttegundin sem er með opinbera verðlagningu. Aðrir kjötframleiðendur geta verið með tilboð á ákveðnum tímum t.d. fyrir jól og páska og verðlagt sig út frá þeirri staðreynd að verð á kindakjöti er fast. Við þessar aðstæður er staða kindakjötsins til að bregðast við breytilegum aðstæðum á kjötmarkaðinum mjög þröng. Þessi opinbera verðlagning á kindakjöti telja margir að sé ein af skýringum á því að neysla á kindakjöti hefur dregist stöðugt saman.

Stefnt að stækkun sauðfjárbúa

Í drögum að nýjum búvörusamningi er stefnt að því að fækka framleiðendum. Þetta er gert með tilboðum til bænda um aðstoð ef þeir skuldbinda sig til að hætta búskap. Rætt er um að greiða bændum sérstaklega fyrir hverja kind sem þeir farga og bjóða þeim, sem hætta búskap, óskertar beingreiðslur í tvö ár.

Margir hafa efasemdir um að þessi leið skili nokkrum árangri, ekki síst í ljósi þess að bændur eiga í dag kost á því að selja sinn framleiðslurétt. Áhugi bænda á að nýta sér þennan kost virðist ekki vera mikill. Skýringin á því er kannski ekki síst sú að meirihluti sauðfjárbænda eru eldri menn sem hafa stundað búskap alla sína ævi. Þeir hafa hvorki menntun eða starfsreynslu í öðrum atvinnugreinum. Möguleikar manna, sem orðnir eru fimmtugir eða sextugir til að fá aðra vinnu, eru heldur ekki mjög góðir. Tregða bænda við að yfirgefa atvinnugreinina er þess vegna mikil þrátt fyrir lélega afkomu.

Þá gera samningsdrögin ráð fyrir að beingreiðslur verði ekki greiddar til bænda sem eru orðnir 70 ára. Bændum sem orðnir eru 67 ára eru gerð sérstök tilboð um að hætta. Rökin fyrir þessari breytingu er að gamlir bændur fái ellilaun frá ríkinu og því þurfi þeir síður á beingreiðslum að halda. Bændur 70 ára og eldri framleiða um 500 tonn af kindakjöti á ári og bændur á aldrinum 67-70 ára framleiða önnur 500 tonn.

Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, sagðist ekki gera ráð fyrir að þessi 70 ára regla muni leiða til mikillar framleiðsluminnkunar. Í mörgum tilfellum stæðu yngri menn undir búskapnum þó að framleiðslurétturinn væri skráður á þessa fullorðnu menn. Hann sagðist gera ráð fyrir að ef þessi regla yrði sett myndi framleiðslan í mörgum tilfellum verða skráð á yngri aðila.

Samningsdrögin gera ráð fyrir að þeir sem verða áfram í búskap fái úthlutað framleiðslurétti þeirra sem hætta framleiðslu á þann hátt að stærri búin fái meira en þau minni. Í samninganefndinni hefur talsvert verið rætt um að skerða alla framleiðendur að ákveðnu marki og endurúthluta framleiðslurétti með það að markmiði að stækka stóru búin en minnka litlu búin. Þessi hugmynd hefur mætt mikilli andstöðu meðal bænda og hafa samningamenn bænda í búvörusamninganefnd enn sem komið er ekki samþykkt þessa leið. Sumir hafa efasemdir um að þessi eignatilfærsla standist lög.

Samkvæmt gildandi lögum eiga sláturleyfishafar að greiða bændum fyrir framleiðslu sína fyrir 15. desember ár hvert. Rætt hefur verið um að breyta þessu og að það verði á valdi hvers bónda og sláturleyfishafa að gera samning um greiðslukjör og greiðslufyrirkomulag.

Ekki hefur verið gengið frá samkomulagi um vaxta- og geymslukostnað, en fulltrúar bænda í nefndinni hafa óskað eftir því að fyrirkomulagið verði óbreytt.

Kostnaðurinn enn óljós

Ekki liggur fyrir hvað þessi pakki allur kemur til með að kosta ríkið. Á síðasta ári nam heildarstuðningur ríkisins við sauðfjárbændur um 2,7 milljörðum. Fulltrúar bænda hafa óskað eftir óbreyttum stuðningi á næsta ári, en samningamenn ríkisins hafa ekki svarað því enn hvað ríkið er tilbúið til að leggja mikla fjármuni til þessara mála.

Ein af ástæðunum fyrir því að ekki hefur tekist að ljúka málinu er sú að engin lausn hefur enn fundist á því hvað á að gera við þau 2.000 tonn af kindakjöti sem til eru í landinu nú við upphaf sláturtíðar. Fulltrúar bænda hafa lagt mikla áherslu á að reynt verði að flytja 1.000- 1.500 tonn út til að jafnvægi ríki á innanlandsmarkaði. Hvert þetta kjöt gæti farið liggur ekki fyrir. Kostnaðurinn við að flytja kjötið út hleypur á hundruðum milljóna. Bændur telja sig ekki hafa bolmagn til að flytja kjötið út án stuðnings frá ríkinu.

Miklar birgðir kindakjöts snerta einnig sláturleyfishafa sem margir hverjir geta í reynd ekki hafið slátrun í haust vegna þess að þeir eiga svo mikið af birgðum fyrir. Á birgðunum hvíla afurðalán sem gjaldfalla í haust. Bændur telja mikla þörf á hagræðingu í slátrun sauðfjár og innan búvörusamninganefndir gætir þess sjónarmiðs að rétt sé að nota birgðavandann til að neyða sláturhúsin til að hagræða hjá sér. Slík hagræðing getur í reynd ekki gerst á annan hátt en með sameiningu sláturhúsa.

Er birgðavandinn 4.000 tonn?

Offramleiðsla hefur verið í sauðfjárframleiðslu á Íslandi í yfir 20 ár. Búið er að gera nokkrar tilraunir til að leysa vandamálið og skapa bændum umhverfi, sem gerir þeim fært að lifa við sæmileg kjör. Þær hafa að verulegu leyti mistekist ekki síst vegna þess að menn hafa alltaf verið að burðast með gamlan birgðavanda.

Nú þegar sláturtíð er að hefjast eru til um 2.000 tonn af kindakjöti frá fyrra hausti. Halldór Gunnarsson, fulltrúi í Framleiðsluráði landbúnaðarins, segir að birgðavandinn sé í raun mun stærri en þessi tala gefur til kynna. Hann bendir á að samkvæmt spá Framleiðsluráðs sé gert ráð fyrir að 9.100 tonn af kindakjöti verði afsett í haust, en það er um 400 tonnum meira en slátrað var í fyrrahaust. Ef margir bændur taki tilboðum um að hætta búskap verði birgðavandinn enn meiri. Halldór segir að birgðavandinn sé því ekki 2.000 tonn heldur 4.000-5.000 tonn.

Útlit er fyrir að framleiðsla á kindakjöti aukist í ár

Verð á kjöti á erlendum mörkuðum hefur verið

að lækka