ÍSLENSKA sjónvarpið hf. leitar að nafni á nýja sjónvarpsstöð sem hefur útsendingar fljótlega. Efnt er til samkeppni um besta nafnið og er öllum heimil þátttaka, nema starfsmönnum Íslenska sjónvarpsins hf. og fjölskyldum þeirra. Tillögu, eina eða fleiri, skal senda í umslagi merktu "Besta nafnið", Íslenska sjónvarpið hf., Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7, 103 Reykjavík.
Ný sjónvarpsstöð leitar að nafni

ÍSLENSKA sjónvarpið hf. leitar að nafni á nýja sjónvarpsstöð sem hefur útsendingar fljótlega. Efnt er til samkeppni um besta nafnið og er öllum heimil þátttaka, nema starfsmönnum Íslenska sjónvarpsins hf. og fjölskyldum þeirra. Tillögu, eina eða fleiri, skal senda í umslagi merktu "Besta nafnið", Íslenska sjónvarpið hf., Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7, 103 Reykjavík.

Í frétt frá Íslenska sjónvarpinu hf. segir að það muni í fyrstu senda út á 4 rásum og fái áskrifendur aðgang að þeim öllum með einni áskrift. Í boði verði íslensk rás með samsettri dagskrá með afþreyingarefni á borð við kvikmyndir, gaman- og spennuþætti, auk talsetts barnaefnis.

Einnig verði í boði þrjár gervihnattarásir fyrst um sinn. Áskrifendur fái afruglara sem gerir heimilisfólki kleift að horfa á allar rásir samhliða.

Skilafrestur í samkeppninni um besta nafnið er til 19. september nk. Einu skilyrðin eru þau að nafnið sé stutt og laggott. Úrslitin verða kynnt 22. september og þá kemur í ljós hver verður 100.000 kr. ríkari fyrir besta nafnið.