13. september 1995 | Aðsent efni | 599 orð

Á slóðum Ferðafélags Ísland

Selvogsgata ­ forna þjóðleiðin

VÍÐA um land eru glögg merki um gamlar þjóðleiðir milli byggða. Dæmi um slíka leið í nágrenni þéttbýlisins á höfuðborgarsvæðinu er Selvogsgata. Nánar tiltekið er það leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Árnessýslu. Þessi leið var skemmsta leið um 30 km frá fjörunni í Hafnarfirði og til strandar í Selvogi. Mun hér lýst leiðinni frá Kaldárseli og Valahnúkum og í Selvog. 1.
Á slóðum Ferðafélags Ísland

Selvogsgata ­ forna þjóðleiðin

VÍÐA um land eru glögg merki um gamlar þjóðleiðir milli byggða. Dæmi um slíka leið í nágrenni þéttbýlisins á höfuðborgarsvæðinu er Selvogsgata. Nánar tiltekið er það leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Árnessýslu. Þessi leið var skemmsta leið um 30 km frá fjörunni í Hafnarfirði og til strandar í Selvogi. Mun hér lýst leiðinni frá Kaldárseli og Valahnúkum og í Selvog.

1. áfangi: Kaldársel ­ Grindaskörð

Hér er miðað við að hefja gönguna við Kaldársel ofan Hafnarfjarðar og ganga norður fyrir Valahnúka. Þegar komið er vel austur fyrir Valahnúka liggur gatan um úfin hraun sem m.a. eru komin úr Grindaskörðum. Á þessari leið yfir hraunin í stefnu á Grindaskörð eru vörður við veginn, sem lagfærðar hafa verið eða endurhlaðnar fyrir nokkrum árum. Nú er Helgafell á hægri hönd en Húsfell á vinstri. Eftir klukkustundar gang frá Kaldárseli er komið á helluhraun og þar er gatan glögg. Stefnan er í vestasta skarð Grindaskarða sem er um það bil í suðaustur og er Selvogsgata alla leið í Selvog nokkurn veginn gengin í þá stefnu. Forfeður okkar voru glöggir á beinustu og auðveldustu leið milli byggða. Þegar komið er upp í Grindaskörð er gott að líta yfir farinn veg og héðan er góð yfirsýn yfir inn-nesin og til Esju og Akrafjalls. Þennan áfanga frá Kaldárseli og í Grindaskörð má auðveldlega ganga á 2­3 klst.

2. Áfangi: Grindaskörð ­ Hvalskarð

Í Grindaskörðum eru eldvörp á alla vegu. Úr Miðbollum hafa runnið hraun eftir landnám og náð í sjó fram milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þegar horft er úr Grindaskörðum í stefnu á Selvog blasir Hvalskarð við. Þangað eru um 4­5 km og liggur Selvogsgata milli hrauns og hlíðar eins og víða á fornum þjóðleiðum. Úr Grindaskörðum hallar nokkuð niður í sigdal þar sem Heiðin há er á vinstri hönd en hraunbreiða þekur sigdalinn. Þegar komið er niður í sigdalinn austan hraunbreiðunnar er komið að fallegri eldborg er ber nafnið Kóngsfell. Við Kóngsfell skiptu fjallkóngar úr Selvogi í leitir og þar af nafnið. Við Kóngsfell er kjörið að draga upp nestið og setjast niður smástund. Hér er Selvogsgatan hálfnuð, þ.e. öll leiðin frá Hafnarfirði í Selvog. Héðan er um klukkustundar ganga í Hvalskarð og leiðin auðrötuð milli hrauns og hlíðar.

3. áfangi: Hvalskarð ­ Katlabrekkur

Þessi áfangi er um 7 km og fer nú að halla undan fæti. Hér er Selvogsgatan nokkuð óglögg og vörður margar hálffallnar. Neðar verður leiðin aftur greinilegri og verður nokkur lækkun er kemur í Katlabrekkur vestan Urðarfells og stutt leið niður á láglendið í Selvogi.

4. áfangi: Katlabrekkur ­ Hlíð/Strandarhæð

Síðasti áfanginn eftir að komið er ofan af fjallinu er annaðhvort vestur með hlíðinni eða Hlíðarvatni og bænum Hlíð er þar stóð eða ganga í suður í stefnu á Vörðufell. Vörðufell er lág hæð, þar sem Selvogsmenn réttuðu og smalar hlóðu þar vörður ef þeir fundu ekki gripi sína. Brást þá ekki að gripirnir fundust. Hér er því gott að rifja upp sögur af séra Eiríki í Vogsósum, en héðan sést til Vogsósa við ósa Hlíðarvatns. Héðan sést einnig til Eiríksvörðu á Svörtubjörgum. Selvogsheiði er í austri héðan og Hnúkar tróna þar efst á heiðinni. Á þessum slóðum eru margir hraunhellar og sumir notaðir af Selvogsmönnum sem fjárhellar.

Hér hefur stuttlega verið lýst Selvogsgötu frá Kaldárseli og í Selvog. Algengast er þó að ganga frá björgunarskýlinu neðan við Grindaskörð og í Selvog og er það um 6 klst. ganga á góðum degi. Flestar gönguferðir á vegum Ferðafélags Íslands hafa verið á þann veg. Þessa leið er gott að ganga vor, sumar og haust.

Bolli Kjartansson.

Á göngu í Grindaskörðum.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.