HARALDUR Kröyer, fyrrverandi sendiherra, er látinn. Haraldur fæddist 9. janúar árið 1921 í Svínárnesi, Grýtubakkahreppi í Suður- Þingeyjarsýslu. Móðir hans var Eva Pálsdóttir, húsfreyja á Akureyri, en faðir hans, Jóhann Þorsteinsson Kröyer, fyrrum deildarstjóri á Akureyri, lifir son sinn og er á 101. aldursári. Hann býr með seinni konu sinni, Margréti Kröyer, að Helgamagrastræti 9, Akureyri.
Andlát HARALDUR KRÖYER

HARALDUR Kröyer, fyrrverandi sendiherra, er látinn. Haraldur fæddist 9. janúar árið 1921 í Svínárnesi, Grýtubakkahreppi í Suður- Þingeyjarsýslu. Móðir hans var Eva Pálsdóttir, húsfreyja á Akureyri, en faðir hans, Jóhann Þorsteinsson Kröyer, fyrrum deildarstjóri á Akureyri, lifir son sinn og er á 101. aldursári. Hann býr með seinni konu sinni, Margréti Kröyer, að Helgamagrastræti 9, Akureyri.

Haraldur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1940 og lauk B.A.-prófi í ensku frá Kaliforníuháskóla árið 1943 og M.A.-prófi í stjórnvísindum frá sama skóla 1945. Haraldur hóf störf í utanríkisráðuneytinu 1945 og var skipaður sendiráðsritari í Stokkhólmi 1947, í Osló 1949 og í París 1952. Árið 1954 var Haraldur skipaður sendiráðunautur í París og sat í fulltrúanefnd Evrópuráðsins á árunum 1953-1956. Hann var deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu á árunum 1956-1962 og var forsetaritari á sama tíma og átti sæti í orðunefnd.

Haraldur var skipaður sendiráðunautur í Moskvu 1962. Árið 1966 var hann skipaður sendiráðunautur við fastanefnd Sameinuðu þjóðanna og ræðismaður við aðalræðisskrifstofu í New York sama ár. Haraldur var fulltrúi í hafsbotnsnefnd Sameinuðu þjóðanna 1968-1969 og 1972. Hann var skipaður sendiherra í Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki árið 1970. Haraldur var fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum á árunum 1972-1973 og var skipaður sendiherra í Washington árið 1973. Var hann jafnframt sendiherra í sjö Suður-Ameríkulöndum. Haraldur var fastafulltrúi hjá alþjóðastofnunum í Genf frá 1976 og sendiherra í Egyptalandi, Kenýu og Tanzaníu. 1980 var Haraldur skipaður sendiherra í Moskvu og árið 1985 varð hann sendiherra í Frakklandi og fleiri löndum. Haraldur var einnig fastafulltrúi hjá OECD og UNESCO frá sama tíma. 1989 tók hann við sendiherrastöðu í Noregi og jafnframt í Póllandi og Tékkóslóvakíu.

Haraldur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður í dómnefnd GATT í deilumáli milli Bandaríkjanna og EBE 1979 og í deilumáli Bandaríkjanna og Japans 1980-1981. Hann hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og var gerður heiðursborgari í Winnipeg árið 1975 og ári síðar í Los Angeles.

Fyrri eiginkona Haraldar var Ragnheiður Hallgrímsdóttir Kröyer sem fæddist 23. september 1921. Eignuðust þau tvö börn, Evu og Jóhann. Ragnheiður lést 15. júlí 1959. Seinni kona Haraldar var Unni Börde Kröyer, fædd 30. desember 1930. Eignuðust þau tvö börn, Ara og Katrínu. Unni lést 8. október 1991. Haraldur lét af störfum í utanríkisþjónustunni árið 1992 og bjó síðustu æviár sín ásamt Auði Rútsdóttur í Kópavogi.