CHARLES Moore var ráðinn ritstjóri breska dagblaðsins The Daily Telegraph á miðvikudag í stað Max Hastings, sem hafði sagt af sér. Moore var áður ritstjóri systurblaðsins The Sunday Telegraph, en við því blaði tekur Dominic Lawson, ritstjóri tímaritsins Spectator og sonur Nigels Lawsons, fyrrverandi fjármálaráðherra.
The Daily Tele-

graph fær

nýjan ritstjóra

London. Reuter.

CHARLES Moore var ráðinn ritstjóri breska dagblaðsins The Daily Telegraph á miðvikudag í stað Max Hastings, sem hafði sagt af sér.

Moore var áður ritstjóri systurblaðsins The Sunday Telegraph , en við því blaði tekur Dominic Lawson, ritstjóri tímaritsins Spectator og sonur Nigels Lawsons, fyrrverandi fjármálaráðherra. Hastings tilkynnti í september að hann hygðist segja skilið við dagblaðið og gerast ritstjóri Evening Standard .

Líklegt þykir að The Daily Telegraph hneigist meira til hægri í stjórnmálaumfjöllun sinni undir stjórn Moore, sem aðhyllist stefnu Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra.

Ágreiningur kom upp innan ritstjórnar The Daily Telegraph í júlí þegar blaðið birti forystugrein til stuðnings John Redwood, sem bauð sig fram gegn John Major forsætisráðherra í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Hastings virtist síðar vilja bæta fyrir þá árás á Major.

The Daily Telegraph er enn söluhæsta vandaða dagblaðið í Bretlandi en The Times hefur verið að sækja í sig veðrið. Samkvæmt nýjustu upplýsingum var The Daily Telegraph selt í 1.065.000 eintökum að jafnaði í apríl til september í ár en The Times í 667.000 eintökum.

Conrad Black, stjórnarformaður Telegraph-útgáfunnar, fór lofsamlegum orðum um hina nýju ritstjóra, Moore og Lawson, og sagði að báðir væru þeir mjög færir ritstjórar, sem mundu halda áfram að skila frábærum árangri." Moore væri einstaklega vel í stakk búinn til að auka markaðsforystu The Daily Telegraph og undir forystu Lawsons hefði The Spectator náð meiri útbreiðslu en dæmi væru til um áratugaskeið og jafnvel í allri 167 ára sögu blaðsins.

Rætt við marga aðra

Black sagði að áður en Moore og Lawson hefðu verið valdir hefði verið rætt ítarlega við nokkra kunna menn frá öðrum fjölmiðlum, sem sýnt hefðu áhuga, en komizt hefði verið að þeirri niðurstöðu að hæfustu mennirnir í stöðurnar væru innan blaðsins.

Moore og Lawson eru báðir 38 ára gamlir. Moore hefur verið ritstjóri The Sunday Telegraph síðan 1992 og hefur lengst af starfað á Telegraph-blöðunum síðan hann ákvað að leggja fyrir sig blaðamennsku.