NORSKA hljómsveitin A-Ha, sem er íslenskum tónleikagestum að góðu kunn, er ein vinsælasta hljómsveit poppsögunnar, eða var það að minnsta kosti því allt bendir til þess að saga sveitarinnar sé öll.

Frægðin er

yfirborðskennd

Norski tónlistarmaðurinn Morten Harkett, sem varð heimsfrægur með hljómsveitinni A- Ha, er nú einn á ferð. Hann sagði Árna Matthíassyni að hann hafi aldrei sóst eftir frægðinni.

NORSKA hljómsveitin A-Ha, sem er íslenskum tónleikagestum að góðu kunn, er ein vinsælasta hljómsveit poppsögunnar, eða var það að minnsta kosti því allt bendir til þess að saga sveitarinnar sé öll. Liðsmenn A-Ha voru þrír, Mags Furuholmen, Pal Wåktår og Morten Harket; þeir Furuholmen og Wåktår sömdu alla tónlist og texta, en Harket var söngvari og andlit sveitarinnar og bar hana uppi á tónleikum. Eftir því sem frægðin varð meiri og umstangið fjarlægður þeir félagar hver annan og svo fór eftir 200.000 manna tónleika í Ríó að hljómsveitin liðaðist smám saman í sundur. Fyrir skemmstu kom svo út sólóskífa Harkets, en hann kom hingað til lands í stutta heimsókn um svipað leyti. "Töffari" fram í fingurgóma

Morten Harket er "töffari" fram í fingurgóma, að minnsta kosti kemur hann þannig fyrir sjónir þegar hann gengur inn á Astro uppúr hádegi á hrollköldum sunnudegi, haustdegi, með skyrtuna fráhneppta niður að nafla og gítartösku á öxlinni. Hann kemur vel fyrir, talar frekar bóklega ensku og tekur sér iðlulega málhlé til að leita að rétta orðinu. Fasið og handahreyfingar er norskt út í æsar. Ekki erum við fyrr sestir á efri hæð Astro en Morten tekur fram gítarinn, fagurlega skreyttan, og allt viðtalið er hann að handfjatla hann, spilar frasa til að undirstrika það sem hann er að segja, gefur tóndæmi þegar plötuna nýju ber á góma og á það til að hefja söng fyrirvaralítið, þegar honum liggur meira á hjarta en hann kemur orðum að. Spjall okkar hefst á sögunni um gítarinn, sem hann segir að góðvinur sinn, Phil Everly, hafi gefið sér, en glöggir þekkja þar sjálfsagt helming Everly bræðra. Í kaupbæti fylgir skemmtileg saga með það inntak að ekki sé gott að reiða sig á hinn helming Everly bræðra, Don. Platan nýja, sem heitir Wild Seed, þykir gagnrýnendum víða um heim vel heppnuð og Morten tekur undir það að hún hljómi vel; segist hafa fengið til liðs við sig frábæran samstarfsmann, Kjetil Bjerkestrand, sem hann segir einn fremsta upptökustjóra heims. "Það skýrir hve vel platan hljómar; ef ég hefði ráðið ferðinni einn hefði platan ekki verið eins samfelld og hrárri vegna þess að ég samdi lögin á kassagítar. Kjetil kallaði saman fyrsta flokks hljóðfæraleikara sem hann þekkir um allan heim og þannig safnaðist hljómsveit í kringum þessa plötu sem ég held að eigi ekki sinn líka. Það gerði mér meðal annars kleift að taka plötuna upp nánast beint, til að mynda er upphafslag plötunnar, A Kind of Christmas Card, tekið upp beint."

Eðlisávísuninni gefinn laus taumurinn "Að spila beint inn gefur fastan ramma sem þú verður að fylgja, en þá getur þú líka gefið eðlisávísuninni lausan tauminn. Yfirleitt kom ég með lag í hljóðverið og spilaði það fyrir strákana," segir Morten og syngur fyrstu erindin í A Kind of Christmas Card. "Eftir að hafa heyrt lagið tvisvar eða þrisvar þá kom tillaga frá trommuleikaranum, þá hugmynd frá bassaleikaranum og svo hljómborðsleikaranum og eftir smá vangaveltur renndum við okkur í lagið. Í þessu tilfelli varð þriðja rennslið það sem er á plötunni."

Forðum félagar Harkets eru þekktir fyrir nákvæmni í hljóðveri og plötur A-Ha voru fágaðar út í æsar. Harket segir að því séu þessi vinnubrögð ný fyrir honum, "og mikil upplifun, að taka þátt í samstarfi og stýra því á þennan hátt".

Rokk í Ríó Á rokkhátíðinni í Ríó fyrir fjórum árum lék A-Ha á Maracanáö-leikvanginum fyrir 150-200.000 áhorfendur eins og áður er getið. Hljómsveitinni var vel tekið, en mörgum viðstaddra, þar á meðal mér, fannst sem Morten væri ekki með á nótunum; mér fannst hann fjarrænn og kaldur, eftir að hafa séð hann á tónleikum í Laugardalshöllinni.

"Það er lóðið," segir Morten eftir smá umhugsun, "Við höfðum náð öllu sem hægt var að ná, unnið allskyns verðlaun og komist á toppinn um allan heim, og mér fannst ég ekki hafa að neinu að keppa. Ég skammaðist mín fyrir að hafa ekkert að gefa öllum þessum fjölda. Það var ekkert mál að syngja og setja á svið skemmtun, en það að vera skemmtikraftur snýst ekki um það að leika; það snýst um að gefa. Það má segja að þetta hafi verið vendipunktur í lífi mínu. Í kjölfar Ríótónleikanna fórum við í tónleikaferð um allan heim, en hljómsveitin breyttist mikið við þetta.

Ég hafði aldrei viljað viðurkenna að ég væri orðinn stjarna, en áttaði mig á að ég var að taka sjálfan mig of alvarlega með því að sætta mig ekki við stjörnuhlutverkið. Þegar við komumst á toppinn um allan heim fannst mér það sjálfsagt, Ég vissi að við værum með allt með okkur og var frekar óþolinmóður yfir því hvað þetta tók langan tíma," segir Morten og hlær við.

"Tónlistarheimurinn byggist á ýkjum og stærilæti, en við gerðum þvert á móti lítið úr velgengninni, fannst lítið til um milljónasöluna og umtalið, en það var ekki síður rangt. Eftir á að hyggja var rangt af okkur að kunna ekki að fagna velgengninni, að geta ekki sleppt okkur um stund og notið ávaxtanna.

Eflaust hefði mér liðið allt öðruvísi ef ég hefði samið lögin sjálfur sem ég söng í Ríó, en það verður líka að líta á það að ég hefði ekki farið að semja ef ég hefði ekki upplifað Ríó-tónleikana.

Kvíðir ekki framtíðinni Þó Morten hafi starfað í heimsþekktri hljómsveit lærði hann aldrei á hljóðfæri, það var alltaf einhver til staðar til að sjá um slíkt. "Ég tók upp gítarinn 1994. Það var afrakstur tveggja ára ferlis og dimmasta hluta ævi minnar, ég var áttavilltur og varð að byrja allt upp á nýtt, hreinsa út mengun hugans. Eftir það fór ég að skapa; fór allt aðra leið en ég hafði farið með A-Ha. Ég varð að bera fulla ábyrgð á því sem ég var að gera," segir Morten, en þó hann vilji ekki segja að A-Ha sé búin að syngja sitt síðasta segist hann ekki hafa hitt félaga sína í á þriðja ár.

Fyrsta sólskífa Mortens, sem kom út í Noregi fyrir tveimur árum, fékk harkalega útreið í norskum fjölmiðlum. Morten segir plötuna hafa verið sér mikilvæga, en á henni söng hann sálma við lög eftir norskt nútímatónskáld. Hann segir að með tímanum hafi fólk lært að meta hana og margir hafi komið að máli við hann og þakkað honum fyrir. "Wild Seed hefur svo breytt andrúmsloftinu gagnvart mér í Noregi, á henni heyra menn hliðar sem þeir áttu ekki von á og hafa tekið vel. Platan hefur selst í 80.000 eintökum í Noregi, og þó ég viti af gamalli reynslu að hrifningin muni ekki endast gerir hún líf mitt þægilegra í Noregi.

Ég er með aðra plötu tilbúna, ég er alltaf að semja. Mér finnst það afskaplega gaman og ég kvíði ekki framtíðinni, því ég finn það innra með mér að ég er að gera eitthvað rétt, einmitt það sem ég á að gera."

Blekking frægðarinnar

Morten Harkett hefur kynnst frægðinni og greinilega velt henni fyrir sér, því viðmótið breytist þegar hana ber á góma, hann verður alvarlegri og ígrundar hverja setningu.

"Ég sóttist aldrei eftir frægðinni sem slíkri, hún skipti mig engu máli. Frægðin er yfirborðskennd og felst í yfirborðskenndum hlutum. Hún felur ekkert í sér," segir Morten með þunga og bætir svo við eftir andartaks þögn: "Æskuárin voru mér lærdómsrík. Ég var lagður í einelti í skóla, var mikið einn og þá kynntist ég hópnum, skrílnum og villimennskunni sem felst í skílnum. það er skammt á milli niðurlægingar og aðdáunar.

Að þessi sögðu þagnar Morten um stund en heldur svo áfram:

"Frægðinni fylgir aðeins eitt, einstakt tækifæri til að kynnast fólki, allskyns fólki og það er mér mjög dýrmætt. Að hitta fólk um allan heim, að setjast niður með einhverjum, úr hvaða stétt sem er, og kynnast honum skiptir mig miklu máli; ég þarfnast þeirra kynna, að hitta fólk og eyða tíma með því. Að hafa þekkt andlit auðveldar mér að kynnast fólki, því því finnst sem það þekki mig þegar og er opnara og afslappaðra.

Ég hitti fleira fólk en flestir, býst ég við, og ég er þakklátur fyrir það; það gefur mér kraft og metnað til að halda áfram, en því fylgir líka mikil ábyrgð.

Þetta er ekki eitthvað sem ég geri fyrir sjálfan mig, heldur fyrir fólkið. Ef mér tekst ekki að ná til fólks þá er ég að gera eitthvað vitlaust, því það sem drífur mig áfram er að ná sambandi við fólk; mér er ætlað að ná til fólks og ég mun gera það, þrátt fyrir tónlistariðnaðinn, en ekki vegna hans." Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir