Deilur norskra fræðimanna um landafundi og grænlenska landnámsmenn Kom Kólumbus til Ameríku árið 1477? Norsku fræðimennirnir Helge Ingstad og Thor Heyerdahl deila nú í blöðum um tilgátur sænsks fræðimanns, Pers Lillieströms,
Deilur norskra fræðimanna um landafundi og grænlenska landnámsmenn Kom Kólumbus

til Ameríku

árið 1477?

Norsku fræðimennirnir Helge Ingstad og Thor Heyerdahl deila nú í blöðum um tilgátur sænsks fræðimanns, Pers Lillieströms , er telur að Kólumbus hafi tekið þátt í leiðangri er fundið hafi eyjar í norð-austurhluta Kanada þegar árið 1477. Lillieström telur einnig að Portúgalar hafi rænt norrænum landnámsmönnum á Grænlandi um 1500 og selt í þrældóm á Kanaríeyjum

NÝLEGA gagnrýndi norski fræðimaðurinn Helge Ingstad harkalega tilgátur Svíans Per Lillieström um að Kristófer Kólumbus hefði komið til Ameríku mörgum árum fyrr en talið hefur verið. Norski landkönnuðurinn Thor Heyerdahl hefur tekið undir skoðanir Svíans og telur að Kólumbus hafi tekið þátt í dansk- portúgölskum leiðangri undir leiðsögn Norðmannsins Johannesar Scolvusar frá Íslandi 1477 til hafsvæðanna vestan Grænlands og hafi leiðangursmenn þá uppgötvað austustu hluta Kanada.

Ingstad segir í grein í Aftenposten að Heyerdahl noti sem heimild frásögn sonar Kólumbusar af uppgötvunum og siglingum föðurins á yngri árum, hún byggist að sögn á glötuðum ritum eftir Kólumbus sjálfan.

Ísland var forðum nefnt Thile eða Thule. Ingstad segir að Heyerdahl slái því föstu að ferð sem Kólumbus hafi farið til Thile árið 1477 sé í reynd sama ferð og leiðangur áðurnefnds Scolvusar 1476.

Sjálfur telur Ingstad líklegast að Kólumbus, sem þá var ungur og fátækur, hafi tekið þátt í fiskveiðum sem Englendingar stunduðu af kappi hér við land um þetta leyti, einkum frá Bristol.

Haft er eftir Kólumbusi að á þessum slóðum sé ekki hafís og syðsti hluti landsins sé á 73. breiddargráðu. Ingstad segir að könnuðurinn hafi verið ungur og óreyndur, aðeins 25 ára gamall, og sonurinn Fernando, reyndur kortagerðarmaður, hafi lagfært þessa villu síðar, ritað 63. gráðu sem er mjög nálægt lagi sé átt við Ísland.

Til eru frásagnir af ferð Scolvusar, er líklega hét upprunalega Jon Skolp. Að sögn Ingstad tekur Heyerdahl sér það bessaleyfi að slá ferðunum saman í eina og fullyrða að Scolvus og Kólumbus hafi uppgötvað Ameríku árið 1477, hann vitni í breiddargráðuna 73 þessu til stuðnings. Engar nothæfar röksemdir séu fyrir þessum vinnubrögðum og þar að auki séu sumar tilvitnanirnar í Kólumbus beinlínis uppspuni. Auk þess hafi Scolvus verið á ferð í febrúar og þá sé útilokað að sigla í grennd við Norður- Ameríku á 73. breiddargráðu vegna hafíssins.

Afdrif grænlensku landnámsmannanna

Áðurnefndur Lillieström hefur ennfremur sett fram kenningar um að Portúgalar hafi numið á brott og gert að þrælum á Kanaríeyjum norrænu landnemana á Grænlandi um aldamótin 1500 og sé það skýringin á hvarfi fólksins sem lengi hefur valdið heilabrotum.

Heyerdahl styður einnig þessar niðurstöður er byggjast m.a. á þeirri kenningu að Portúgalar hafi túlkað samning frá 1494 um skiptingu nýrra landsvæða í Ameríku milli þeirra og Spánverja svo að Grænland ætti að vera portúgölsk eign. Einnig telur Lillieström að ljóshært og bláeygt fólk á Kanaríeyjum og gamall tréskurður sem þar hefur fundist styðji tilgátuna.

Ingstad telur að hér sé um allt of glannalegar ályktanir að ræða. Rétt sé að á gömlu korti frá 1502 sé sýndur portúgalskur fáni á suðurodda Grænlands en það hafi verið algengt að sýna með þessum hætti að siglt hafi verið á staðinn, þetta þurfi alls ekki að merkja neitt annað. Auk þess hafi sæfararnir ekki séð neina mannabyggð þarna og þess vegna talið að um land í Asíu væri að ræða. Ljóst sé að þetta hafi ekki verið byggðir norrænna manna á Grænlandi, þær hafi allar verið á vesturströndinni.

Bréf Nikulásar páfa

Heyerdahl svarar Ingstad daginn eftir í Aftenposten og sakar hann um að misskilja málið, um sé að ræða skoðanir Lillieströms er hann, Heyerdahl, hafi fyrst og fremst verið að kynna.

Sjálfur hafi Heyerdahl aldrei verið neinn sérfræðingur í Kólumbusi og byggðum norrænna manna á Grænlandi eða þóst vera það.

Lillieström hafi kannað vel heimildir sínar og bendi á að umræddur leiðangur Scolvusar hafi verið farinn í febrúarmánuði vegna þess að á þeim árstíma sé minnst um að brot úr borgarísjökum geri siglingarnar ótryggar. Margt bendi til þess að heitið Thile hafi ekki aðeins átt við Ísland heldur allar byggðir norrænna manna þar og á Grænlandi.

Um afdrif Grænlendinganna fornu segir Heyerdahl að ekki megi gleyma bréfi Nikulásar V. páfa á 15. öld til biskupa á Íslandi þar sem hann minnist á herferðir þrælasala á Grænlandi. "Er hægt að vísa á bug þeim möguleika að önnur þrælaferð hafi verið farin í lok aldarinnar?", spyr Heyerdahl. Hann segist aðeins vilja að öll sjónarmið komi fram en hann beri mikla virðingu fyrir Ingstad og störfum hans.Helge Ingstad

Thor Heyerdahl

Kólumbus