Í FRÍKIRKJUSÖFNUÐINUM í Hafnarfirði eru nú nærri 2.700 manns og hefur safnaðarfólki fjölgað verulega síðustu árin. Lætur nærri að fjölgað hafi um 1000 manns á 12 árum en það er meiri fjölgun en í flestum öðrum kirkjufélögum á landinu. Fríkirkjusöfnuðurinn er lútherskur söfnuður og starfar því við hlið Þjóðkirkjunnar og á sama grundvelli.
Starfsemi í Fríkirkjunni í

Hafnarfirði

Einari Eyjólfssyni:

Í FRÍKIRKJUSÖFNUÐINUM í Hafnarfirði eru nú nærri 2.700 manns og hefur safnaðarfólki fjölgað verulega síðustu árin. Lætur nærri að fjölgað hafi um 1000 manns á 12 árum en það er meiri fjölgun en í flestum öðrum kirkjufélögum á landinu. Fríkirkjusöfnuðurinn er lútherskur söfnuður og starfar því við hlið Þjóðkirkjunnar og á sama grundvelli. Söfnuðurinn er hins vegar sjálfstæður í öllu því sem lýtur að stjórn og starfsháttum en fer þá um leið á mis við þann stuðning sem ríkisvaldið lætur Þjóðkirkjunni í té. Þeir sem eru í söfnuðinum greiða hins vegar sömu sóknargjöld og fólk í Þjóðkirkjunni og eru þetta einu tekjurnar sem kirkjan hefur, fyrir utan gjafir. Engu að síður hefur kirkjan alla tíð leitast við að halda uppi öflugu safnaðarstarfi og verður hér sagt frá því helsta sem í boði er nú í vetur.

Barnaguðsþjónustur

Barnaguðsþjónustur eru í kirkjunni alla sunnudaga kl. 11. Þær eru ætíð vel sóttar enda er mikið sungið og sagðar sögur, auk þess sem börnin læra bænir og biblíusögur. Það er einkar gleðilegt hve vel foreldrar hafa mætt í þessar stundir.

Opið hús fyrir 8-10 ára börn

Á þriðjudögum kl. 17 er opið hús í safnaðarheimili kirkjunnar að Austurgötu 24, fyrir 8-10 ára börn. Í þessum samverustundum er mikið föndrað, sagðar sögur, sungið og farið í leiki. Hverri samverustund lýkur svo með helgistund.

Opið hús fyrir 10-12 ára

Á fimmtudögum kl. 17 er opið hús í safnaðarheimilinu fyrir börn á aldrinum 10-12 ára. Í þessum samverustundum er einnig fjölbreytt dagskrá við hæfi þessa aldurshóps.

Barnakór kirkjunnar

Barnakór kirkjunnar æfir tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum kl. 16.10. Þetta starf er sérstaklega fyrir 10 ára börn og eldri. Í vetur verður svo starfandi yngri deild (7-9 ára) og verða þeirra æfingar á mánudögum kl. 17.15- 18.00.

Kirkjukór

Kór kirkjunnar æfir öll miðvikudagskvöld kl. 19.30. Kórinn er nú að hefja undirbúning fyrir helgihald aðventu og jóla og verður vandað vel til þeirrar dagskrár. Kórinn er skipaður áhugasömu fólki en hins vegar vantar fleiri karlaraddir og eru þeir sem áhuga kunna að hafa beðnir að hafa samband við organista kirkjunnar.

Fermingarstarf

Í vetur taka um 80 unglingar þátt í fermingarundirbúningi kirkjunnar og er það langstærsti hópur sem hefur skráð sig til þátttöku og býsna stór hluti allra ungmenna á fermingaraldri í Hafnarfirði. Hópurinn tók þátt í fermingarnámskeiði í Vatnaskógi nú í september og er áætlað að fara aðra slíka ferð í vor.

Unglingastarf

Það er opið hús fyrir unglinga öll sunnudagskvöld kl. 20. Þetta starf er í safnaðarheimilinu og er leitast við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá.

Heimsóknarþjónusta

Safnaðarprestur og djákni kirkjunnar vitja sjúkra og aldraðra. Þeir sem óska eftir heimsókn eða vilja láta vita af einhverjum eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við safnaðarprest.

Kirkjudagur nk. sunnudag

Á sunnudaginn kemur, 22. október, er kirkjudagur safnaðarins. Við guðsþjónustu kl. 14 mun Sigríður Valdimarsdóttir, djákni kirkjunnar, prédika og barnakórinn syngur ásamt kór kirkjunnar en stjórnandi beggja kóra er Kristjana Ásgeirsdóttir. Að lokinni guðsþjónustu verður svo hin veglega kaffisala Kvenfélagsins.

EINAR EYJÓLFSSON,

prestur,

Arnarhrauni 34, Hafnarfirði.

Fríkirkjan í Hafnarfirði