HÚSEIGENDUM ber að tilkynna til Hagstofu þegar einhver flytur á heimili þeirra, hvort sem það er leigjandi eða annar. Sama skylda hvílir reyndar á öllum þeim sem flytja og er kveðið á um þetta í lögheimilislögum og lögum um tilkynningu aðsetursskipta. Sumir hunsa þessi lög og láta hjá líða að tilkynna búsetuskipti og mun algengasta ástæðan vera að einhverjir hagsmunir eru í húfi, t.
Reynslusögur Ókunnur maður flutti

lögheimilið heim til mín

Ef annarra manna póstur fer að berast inn um bréfalúgu er rétt að kanna strax hvort einhver hafi ranglega flutt lögheimili sitt. Brynja Tomer ræddi við Reykvíking sem hafði "huldumann" skráðan heima hjá sér í meira en ár.

HÚSEIGENDUM ber að til kynna til Hagstofu þegar einhver flytur á heimili þeirra, hvort sem það er leigjandi eða annar. Sama skylda hvílir reyndar á öllum þeim sem flytja og er kveðið á um þetta í lögheimilislögum og lögum um tilkynningu aðsetursskipta. Sumir hunsa þessi lög og láta hjá líða að tilkynna búsetuskipti og mun algengasta ástæðan vera að einhverjir hagsmunir eru í húfi, t.d. barnabætur eða pláss fyrir barn á leikskóla. Færri gerast svo djarfir að skrá lögheimili sitt hjá fólki án vitundar þess eða samþykkis, en það kemur þó fyrir endrum og eins. Heimilisfaðir í Reykjavík, sem varð fyrir því að ókunnur maður flutti lögheimili sitt heim til hans, án þess að flytja þangað, líkir þessu við að hafa draug á heimilinu.

"Þegar skattskýrslur voru bornar í hús í upphafi ársins fylgdi aukaskýrsla á nafni manns sem enginn úr fjölskyldunni kannaðist við," segir maðurinn og kveðst hafa haft samband manntalsskrifstofu Reykjavíkurborgar nokkru síðar. "Þar var mér var sagt að þessi maður hefði átt lögheimili hjá mér í næstum því ár og ég þyrfti að fylla út eyðublað til að fá manninn fluttan. Það gerði ég og fór einnig á Hagstofuna þar sem starfsfólkið fann tilkynningu frá huldumanninum sem eigin hendi fyllti út og undirritaði flutning lögheimilis heim til mín. Í tölvum Hagstofunnar kom í ljós að þessi maður hafði víða verið skráður með lögheimili á síðustu árum, oftar en ekki "óstaðsettur í hús" eins og það er kallað þegar menn hafa ekki fastan dvalarstað."

Gluggapóstur frá banka

Segist heimilisfaðirinn hafa dregið þá ályktun að um einhvern vandræðapésa væri að ræða, sem falsaði upplýsingar um búsetu til að fá bætur úr félagslega kerfinu. "Á Hagstofunni var mér sagt að reynt yrði að ná í manninn og svo yrði lögheimili hans flutt án þess að við yrðum fyrir frekara ónæði.

Nú í haust, mörgum mánuðum síðar, kom gluggaumslag frá banka inn um lúguna hjá okkur, stílað á vininn. Að mér læddist slæmur grunur og stóðst því ekki freistinguna að opna umslagið, þótt samviskan segði mér að gera það ekki. "Debetkortið þitt er tilbúið til afhendingar," stóð í bréfinu og þá hætti mér að lítast á blikuna. Ég fór í útibúið til að vara starfsfólkið við og kanna hvort maðurinn væri kominn með skilríki á þessu falsaða heimilisfangi. Þar kom í ljós að vinurinn var að sjálfsögðu búinn að ná í kortið og var enn skráður hjá mér enda hafði tilkynningin verið send út samkvæmt þjóðskrá."

Enn var skundað á Hagstofu Íslands, þar sem heimilisfaðirinn segir að fátt hafi verið um svör hjá afgreiðslufólkinu. "Mér var sagt að líklega hefði ekki náðst í manninn og það væri ástæðan fyrir því að hann væri enn skráður með lögheimili á þessum stað. Aftur var undirrituð brottflutningstilkynning og þegar ég kannaði málið mánuði seinna hafði lögheimili huldumannsins loks verið flutt heiman frá mér. Þessi maður olli mér engu öðru en óþægindum, en ég ímynda mér að hægt sé að gera fólki grikk með því að falsa upplýsingar af þessu tagi og mér finnst óþægilegt að vita af því að alls konar lýður geti skráð sig heima hjá manni, án þess að maður hafi hugmynd um það. Einnig finnst mér með ólíkindum hversu langan tíma tók að koma manninum úr húsi, þótt það hafi bara verið á pappírum."

Ætti hvorki að vera flókið né tímafrekt

Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri þjóðskrár segir að mistök hafi valdið því að svo langan tíma tók að leiðrétta þennan flutning. "Um leið og starfsfólk Hagstofu áttaði sig á mistökunum voru þau leiðrétt. Það er sem betur fer afar sjaldgæft að menn skrái sig hjá húseigendum án þess að þeir viti af því. Ef annarra manna póstur fer að berast, ráðlegg ég fólki að gera Hagstofu strax viðvart, svo hægt sé að bregðast við því."

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins segir að reglur laga um skráningar og tilkynningar séu skýrar. "Það getur verið til ama og óþæginda ef huldufólk skráir sig heima hjá manni. Við því er fátt annað að gera en fá leiðréttingu hjá Hagstofunni. Á það hvorki að vera flókið né tímafrekt að reka slíkt huldufólk af höndum sér. Fyrirmæli laganna miða við að menn séu rétt skráðir svo hægt sé að ná í þá bæði hvað varðar réttindi þeirra og skyldur. Það eru fyrst og fremst opinberir hagsmunir að menn séu skráðir á ákveðinn stað. Séu menn í feluleik að þessu leyti er það yfirleitt þáttur í einhverju öðru ólöglegu athæfi. Rangar eða falsaðar tilkynningar eru refsiverðar og varða sektum eða þyngri refsingu ef önnur brot koma við sögu."

Svona feluleikur tengist oftast öðru ólöglegu athæfi.