ÞAÐ ræðst ekki fyrr en í dag hvaða lið komast í undanúrslit í hinni óopinberu heimsmeistarakeppni landsliða í golfi, Alfred Dunhill-liðakeppninni, sem fram fer á gamla vellinum á St Andrews í Skotlandi. Ljóst er þó að Englendingar eiga ekki möguleika því þeir hafa tapað tveimur leikjum í sínum riðli, en það verða aðeins sigurvegarar hvers riðils sem komast í undanúrslitin í fyrramálið.
GOLF Mikil spenna

á St Andrews Ástralir þeir einu sem eru svo gott sem öruggir um sæti í undanúrslitum

ÞAÐ ræðst ekki fyrr en í dag hvaða lið komast í undanúrslit í hinni óopinberu heimsmeistarakeppni landsliða í golfi, Alfred Dunhill-liðakeppninni, sem fram fer á gamla vellinum á St Andrews í Skotlandi. Ljóst er þó að Englendingar eiga ekki möguleika því þeir hafa tapað tveimur leikjum í sínum riðli, en það verða aðeins sigurvegarar hvers riðils sem komast í undanúrslitin í fyrramálið.

Leikið er í fjórum fjögurra liða riðlum og í fyrsta riðli er keppnin mjög spennandi. Írar hafa sigrað í báðum leikjum sínum en Svíar eiga einnig möguleika á að komast áfram. Bandaríkin unnu Svía í gær 2:1 eftir bráðabana í síðasta leik. Jacobsen lék á 67 höggum og vann Parnevik sem lék á 71 höggi, Crenshaw lék einnig á 67 höggum og vann Sandelin sem lék þó á 69 höggum og í síðasta leiknum hafði Per-Ulrik Johansson betur gegn Lee Janzen á 19. holunni en báðir léku á 72 höggum.

Írar unnu Bandaríkjamenn í fyrradag og í gær voru það Kanadamenn sem urðu að játa sig sigraða, Írar unnu 2:1. Clarke vann Gick Gibson sem lék á 73 höggum en Clarke var á 69. Walton lék á 71 höggi sem dugði gegn Stewart því hann lék á 73 höggum eins og landi hans í fyrsta leiknum. Dave Barr klóraði aðeins í bakkann fyrir Kanadamenn í síðasta leiknum með því að leika á 71 höggi og sigra Ronan Rafferty með einu höggi.

Í dag leika Írar og Svíar og sigri Írar komast þeir áfram en sigri Svíar 2:1 komast þeir áfram þó svo Bandaríkjamenn vinni Kanada 3:0.

Í öðrum riðli er spennan ekki síðri en í þeim fyrsta. Skotar og Suður- Afríkumenn berjast um að komast áfram og mætast þjóðirnar í hreinum úrslitaleik í dag. Skotar hafa sigrað 3:0 í báðum leikjum sínum, lögðu Þjóðverja í gær. Coltart lék á 68 höggum og þrátt fyrir að Cejka léki á 70 höggum dugði það ekki. Torrance lék á 71 höggi og sigraði Thuel sem lék á 74 höggum og Montgomerie vann Struver með einu höggi, 72-73.

Lið Suður Afríku hefur einnig sigrað í báðum leikjum sínum, vann Taiwan 3:0 í gær og var sigurinn aldrei í hættu. David Frost lék á 68 höggum, Ernie Els á 70 og þó svo Retief Goosen léki á 73 höggum dugði það honum til sigurs einnig. Els var reyndar í nokkrum vanda framan af leik en fékk fugl á tveimur síðustu holunum og það dugði.

Þriðji riðill gæti einnig orðið spennandi í dag en Wales sigraði Ný-Sjálendinga 3:0 í gær. Woosnam lék á 68 höggum og sigraði Campbell með þremur höggum, Mouland sigraði einnig með þremur höggum, lék á 71 en Turner á 74 og í síðasta leiknum lék Affleck á 69 höggum sem dugðu gegn 70 höggum Nobilo.

Í hinni viðureigninni sigraði Zimbabwe lið Japans 2:1 og ættu Mark McNulty og félagar að vera nokkuð öruggir um að komast áfram því þeir leika við Ný-Sjálendinga í dag og nægir að sigra í einum leik. Johnstone tapaði fyrsta leiknum gegn Watanabe 73-71 en McNulty burstaði Kase með 7 högga mun, lék á 66 höggum, sem er 6 undir pari. Nick Price vann síðan Serizawa 68-71.

Í fjórða riðli virðast Englendingar ekki í miklu formi þessa dagana, töpuðu 3:0 fyrir Spánverjum í fyrradag og í gær töpuðu þeir á ný, nú 2:1 fyrir Argentínu og geta gleymt draumnum um að komast í undanúrslit. Fernandez vann Barry Lane með því að leika á 68 höggum en Lane var á 76 höggum. Jose Coceres lék á 73 höggum með því að setja niður 8 metra pútt á síðustu holunni og fá þannig fugl. Það dugði til sigurs gegn Ryder-kappanum Mark James sem lék á 74 höggum. Coceres sigraði Greg Norman í fyrradag þegar Argentínumenn töpuðu fyrir Áströlum. Howard Clark hélt uppi heiðri Englands með því að leika á 69 höggum og sigra Romero sem var á 72 höggum.

Ástralir unnu Spánverja 2:1 í gær og eru nokkuð öruggir um að komast í undanúrslit enda með fullt hús. Norman lék mjög vel, kom inn á 67 höggum og sigraði Jimenez sem einnig lék vel, kom inn á 68 höggum. Elkington tapaði hins vegar fyrir Rivero, Ástralinn lék á 72 höggum en Spánverjinn á 70 og í síðasta leiknum réðust úrslitin en þar lék Craig Parry jafn vel og Norman, á 67 höggum, en Garrido á 70.

ÍRINN Ronan Rafferty vonast til að leika vel í dag og tryggja Írum sigur og rétt til að leika í undanúrslitum á morgun.