Sund og vogar sálma yrkja, syngur Esjan helgilag. Móðir, faðir, kristin kirkja kætast við þinn skírnardag. Lofið Drottin! Lofið Drottin! Lofið Drottin! Amen. Megi hann þig styðja og styrkja, stundir líði þér í hag. Sund og vogar sálma yrkja, syngur Esjan helgilag. Daga ljósa, daga svarta dafni ást þín, von og trú.
ÞORSTEINN GYLFASON

Skírnarsálmur

Anastasíu

Sund og vogar sálma yrkja,

syngur Esjan helgilag.

Móðir, faðir, kristin kirkja

kætast við þinn skírnardag.

Lofið Drottin! Lofið Drottin!

Lofið Drottin! Amen.

Megi hann þig styðja og styrkja,

stundir líði þér í hag.

Sund og vogar sálma yrkja,

syngur Esjan helgilag.Daga ljósa, daga svarta

dafni ást þín, von og trú.

Geymdu þá í þínu hjarta

þetta barn sem ertu nú.

Lofið Drottin! Lofið Drottin!

Lofið Drottin! Amen.

Hann í sínum bjarma bjarta

blessi þennan skírnardag.

Sund og vogar silfri skarta,

syngur Keilir skírnarlag.

Sálmurinn var sunginn af Garðari Cortes þegar Pítírím erkibiskup frá Moskvu skírði nýfædda frænku sína, Anastasíu Jónsdóttur, í Bessastaðakirkju laugardaginn 26. ágúst 1995. Lagið er eftir Dmítrí Stepanovitsj Bortníanskí (1751-1825), en hann var og er eitt af höfuðtónskáldum rússnesku kirkjunnar. Þetta lag er kunnugt á Íslandi úr Íslenzku söngvasafni ("Fjárlögunum") þar sem það heitir "Ljúfur ómur". Frá skírninni var ítarlega sagt í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. ágúst.

Höfundurinn er prófessor við Háskóla Íslands.