Sú sjón er mér enn í fersku minni frá bernskudögum í Biskupstungum, að þegar þornaði með norðanátt, mátti sjá tvo mekki fylla loftið svo blár himinninn varð grábrúnn. Annar mökkurinn, dökkgrár á lit, kom upp vestanvert við Heklu og var eins og veggur suður yfir Rangárþing. Hinn mökkurinn var í næsta nágrenni, kominn af Haukadalsheiði og oft brúnn eða gulbrúnn á litinn.

Landvinningar á Haukadalsheiði Grein og myndir:

GÍSLI SIGURÐSSON.Þegar uppgræðsla hófst á Haukadalsheiði 1963 var eyðingin á fullu og stór flæmi örfoka. Árangur landgræðslunnar þar eftir rúma þrjá áratugi er ævintýri líkastur.

Sú sjón er mér enn í fersku minni frá bernskudög um í Biskupstungum, að þegar þornaði með norðanátt, mátti sjá tvo mekki fylla loftið svo blár himinninn varð grábrúnn. Annar mökkurinn, dökkgrár á lit, kom upp vestanvert við Heklu og var eins og veggur suður yfir Rangárþing. Hinn mökkurinn var í næsta nágrenni, kominn af Haukadalsheiði og oft brúnn eða gulbrúnn á litinn. Þar blandaðist saman jökulleir, sandur og mold úr börðum, sem þá voru að eyðast. Sú eyðing gekk hratt og henni er ekki alveg lokið enn.. Hún hættir ekki fyrr en einungis grjót og klappir eru eftir, sé ekkert gert til varnar.

Nú er heldur betur orðin breyting á Haukadalsheiði. Ég hefði ekki trúað því þegar ég var smali á þessu svæði fyrir um 45 árum að önnur eins breyting gæti átt sér stað á tiltölulega skömmum tíma. Viðhorfið var þá, eftir því sem mig minnir, að uppblásturinn væri náttúrulögmál og ekkert við honum að gera. Viðhorfsbreytingin sem nú er orðin, ræður úrslitum ásamt tækninni. Menn vita nú að hægt er að stöðva landeyðingu og hefja ræktun. Það er aðeins spurning um fjármagn hversu hratt það gengur.

Fréttir af landgræðslu eru óþarflega oft neikvæðar. Þær snúast ekki um það sem áunnizt hefur, heldur framrás sandsins, t.d. við Dimmuborgir, árekstra við sauðfjárbændur og meinta hættu af lúpínu. Þegar ég fór um Haukadalsheiði í ágústmánuði í fylgd Kristínar Sigurðardóttur, landvarðar í Haukadal, þá fannst mér blasa við allt annar flötur á starfi landgræðslunnar en sést í fréttum. Myndirnar sem hér fylgja með, segja raunar meira en orð um það.T ÓLF B EITARHÚS F YRIR 100 Á RUM

Flestir Íslendingar hafa komið að Geysi og Gullfossi. Haukadalsheiðin er inn af brún hálendisins og tekur við ofan við skógi vaxnar brekkurnar í Haukadal. Heiðin er um 11 þúsund hektarar og afmarkast að austanverðu af Sandvatni og Ásbrandsá, sem raunar heitir Tungufljót eftir að kemur niður undir byggð. Að vestanverðu afmarkast heiðin af Sandfelli en útmörkin að norðanverðu eru nokkuð óljós. Hér er öræfafegurð eins og hún verður mest á Íslandi. Svipmestar eru Jarlhettur sem standa eins og röð af tignarlegum musterum meðfram Langjökli. Vestar eru Hagafell og þar fellur Hagafellsjökul niður í Hagavatn. Síðan Mosaskarðsfjöllin, Lambahraunsbungan, Kálfstindar og Högnhöfði í vestri. Ekki er þó síður tilkomumikið útsýnið niður í Haukadal og framyfir sveitir Árnessýslu, þegar komið er á heiðarbrúnina eftir vegi sem liggur af Línuveginum og niður í skógræktargirðingu. Sá vegur er einungis fær jeppum.

Margir hafa orðið dolfallnir yfir andstæðunum sem birtast þarna. Annarsvegar öræfatignin að baki og hrikaleg landeyðing með stórgrýti og rofabörðum, en hinsvegar gróskan og skógurinn í hlíðum Sandfellsins og grösugt landið framundan.Sú var tíð að landið var einnig grösugt á heiðinni. Þegar Ásbrandur nam land í Haukadal hefur hún verið vaxin birki- og víðikjarri. Þegar vegur Haukdæla var mestur hefur án efa verið þar gífurlegt beitarálag, en kannski ekki um of vegna þess að veðurfar var þá hlýrra. Eftir kólnunina sem varð laust fyrir 1300 hefur ugglasut farið að síga á ógæfuhliðina en engum sögum fer af þeirri þróun, nema hvað Árni Magnússon getur þess í jarðabók sinni 1711, að sandur sé farinn að sækja á landið að norðan. Guttormur Sigurbjarnarson jarðfræðingur telur að heiðin sunnan við Sandvatn hafi verið eydd af uppblæstri fyrir 1750.

Fyrir um 100 árum voru þó slíkir hagar á Haukdalsheiði, að þar voru þá 12 beitarhús; sum þeirra notuð fram til 1938. Nærri má þó geta hver áhrifin hafa orðið. Nú sést ekkert eftir þessi hús; vegna uppblásturs sér þeirra engan stað.

J ÖKULLEIRINN E R V ERSTUR

Áfok, ofbeit og viðartaka hafa raskað vistkerfinu og orsakað eyðingu. Þarna er mikið af gosösku í jarðveginum, sem ásamt með jökulleir gerir hann ákaflega fokgjarnan. Jökulhlaup úr Hagavatni hafa öðru fremur skapað skilyrði fyrir áfok og eyðingu. Stærstu hlaupin á þessari öld urðu 1929 og aftur 10 árum síðar. Farið sem rennur úr Hagavatni skar sér þá nýja leið í gegnum gljúpt móberg og vatnsborðið lækkaði um að minnsta kosti 10 metra. Við það komu upp víðáttumiklar leirur og sá jökulleir er eins og hveiti og þyrlast uppí loftið þegar þornar og hvessir. Hagavatn er nú aðeins fjórðungur þess sem það var fyrir 1929. Sú minnkun hefur líka breytt grunnvatnsstöðu á heiðinni þannig að lækir, sem þar voru hafa þornað upp og Grjótá er ekki annað en örnefni og þurr farvegur bergvatnsár, sem hefur myndað fallega fossa og flúðir þar sem hún rann fram af heiðinni.

Hlaupin hafa borið milljónir tonna af jökulleir og sandi út í Sandvatn, norðaustanvert við Haukadalsheiðina, og Farið hefur haldið þeim framburði áfram. Þar hefur verið annað vandræðasvæði; leirur sem rjúka í þurrki á gróðurlendi heiðarinnar. Lengi hefur þótt brýnt verkefni að hækka vatnsborð Sandvatns með stíflu þar sem Ásbrandsá og Sandá renna úr því og raunar er það alger forsenda þess að takist að vinna endanlegan sigur í baráttu við eyðingaröflin á Haukadalsheiði. Þetta hefur nú tekizt fyrir tilstilli Íslandsbanka; bæði starfsfólksins þar og bankans sjálfs. Byrjað var á stífluframkvæmdum í fyrrahaust og stefnt að því að kaffæra leirurnar í svonefndum Syðri-Flóa. Á loftmyndinni sem Ragnar Axelsson hefur tekið og hér fylgir með, sést hvernig vatnið lítur núna út.

G RJÓT Þ AR S EM Á ÐUR V AR M ÝRI

Skriflegar heimildir skortir og lýsingar í munnlegri geymd eru fáar um Haukadalsheiði eins og hún var, til að mynda á síðustu öld. En örnefni hafa geymst og þau segja sína sögu. Eitt þeirra er Grasdalir, kvos í heiðinni austan við Sandfell. Sandurinn eyddi með tíð og tíma öllum gróðri þar. Í Grasdölum var Norðlingatjörn. Hún fylltist af sandi og hvarf.

Um miðbik heiðarinnar var sá staður sem hét Stóra-mýri. Þar var heyjað á engjum fyrir rúmri öld, en uppúr 1930 hafði áfok nær þurrkað upp mýrina og síðan blés hún upp. Þegar aðgerðir hófust að snúa við þessari óheillaþróun eftir 1960, blés þar enn úr þurrum mó. Nú er þessi fyrrverandi mýri að gróa upp aftur; þar er komin fífa og starir.

Í Héðinsdæld, mýrardragi sunnan við Stóru-mýri, var sel og þar var heyjað fyrir 90 árum. Þar er nú aðeins grýttur melur á illa blásnu svæði sem bíður aðgerða. Sama er að segja um Fögruflöt við Sandfell, þar sem áður var heyjað.

Frá Sjónarhólum, á hrauninu norðan við Sandfell, og inn að Fari lágu fyrr meir þær götur sem kenndar voru við Norðlendinga, nefndar Norðlingagötur. Að sögn Sigurðar Pálssonar bónda í Haukadal, lagðist þessi leið af uppúr 1850. Þar var land allt gróið fram til 1929. Síðan byrjaði þar verulegur uppblástur; vafalaust í tengslum við jökulhlaupið 1929. Svæðið var þá nefnt Torfur vegna fjölda rofabarða. Um 1960 var svæðið nær allt örfoka og moldar- og sandmökkurinn sem þessi skrifari man eftir úr æsku, hefur ugglaust átt upptök sín þar að verulegu leyti. Svæðið hefur í seinni tíð verið nefnt Moldir og þar hefur mikill sigur unnizt síðastliðin tvö ár. Nú blæs þar ekki lengur upp; aðeins örfá rofabörð standa eftir, sum ótrúlega há. Græn slikja var komin á Moldirnar í ágúst og uppúr þeim standa óteljandi dökkgrænir hólar þar sem melgresið hefur safnað að sér sandi og bundið hann.

Sandurinn sem Árni Magnússon nefnir í jarðabók sinni, hefur að öllum líkindum borizt frá Sandvatni fram á miðhluta heiðarinnar. Þar hófst uppblásturinn á svæði sem nú heitir Skersli og merkir grjót. Sá uppblástur átti í tímans rás eftir að ná niður í byggð eins og blasir við þegar ekið er þjóðveginn frá Geysi að Gullfossi. Hinsvegar stendur eftir í fullum blóma ríkuega gróið svæði næst Tungufljóti; þar heita Fljótsbotnar og er þar sumstaðar erfitt yfirferðar í hvannstóði og háu grasi.

F RIÐUN Í 30 Á R

Upphaf friðunar Haukadalsheiðar var árið 1963, þegar Greipur Sigurðsson í Haukadal var ráðinn til starfa sem landvörður. Þá var girt norðanmegin úr skógræktargirðingunni í Haukadal og allar götur norður í Far. Heimalönd í Haukadal voru hinsvegar friðuð 1938 og stóð Skógrækt ríkisins fyrir því. Síðan var girt meðfram Sandvatni og Ásbrandsá árið 1967. Greipur vann mikið og árangursríkt starf á heiðinni í nærri þrjá áratugi og þar féll hann frá fyrir aldur fram haustið 1990. Við starfi landvarðar tók þá ekkja Greips, Kristín Sigurðardóttir, og gegnir því enn. Hún tók að sér að vera mér til leiðsagnar í sumar, þegar meðfylgjandi myndir voru teknar á einum fegursta degi sumarsins; litskrúð hvert sem litið var og víða ilmur í lofti af blómgresi.

Við Línuveginn á miðri heiðinni, þar sem fyrist var gerð tilraun með heybagga, stendur nú hlaðinn minnisvarði um Greip í Haukadal. Fóru þeir Greipur og mágur hans, Björn í Úthlíð, með vélbundna heybagga og voru þeir settir í röð á svæði þar sem sandurinn var á sífelldri hreyfingu. Á þennan hátt er hægt að flytja fjölbreytt lífríki í dauða jörð og baggarnir mynda ákjósanleg skilyrði fyrir melgresið, sem síðan var sáð. Er skemmst frá því að segja að þessi hryggur er nú orðinn um það bil tvær mannhæðir. Til skamms tíma hefur einhver sandur fokið í hann, en melgresið hefur alltaf yfirhöndina.

Heybaggarnir reyndust mun árangursríkari en skjólborð sem reist voru þvert á ríkjandi vindátt á fyrstu árum uppgræðslunnar. Fyrir 1970 var byrjað var á því að ýta niður rofabörðum, sem voru sem óðast að eyðast, og síðan var sáð í sárin og borinn á áburður. Nú er þar vel gróið land. Þegar eftir 1963 var farið að sá melgresi, einkum í Moldirnar, sem fyrr eru nefndar, og á vesturhluta heiðarinnar. Nær árvisst hefur melgresi verið sáð í heiðina síðan og talið að um 2000 hektarar séu grónir melgresi, þó ekki samfellt.

Fyrir aldarfjórðungi, árið 1970, var byrjað að bera á úr lofti og til þess notuð lítil flugvél, sem flaug frá frumstæðum flugvelli við Haukadal og bar hún hálft tonn. Síðar kom svo til sögu Douglasvélin Páll Sveinsson, sem Flugleiðir gáfu Landgræðslunni og er hún enn notuð.

L ÚPÍNAN E R B JARGVÆTTUR

"Fyrstu árin vann Greipur einn því fjárveitingin leyfði ekki meiri mannafla", segir Kristín. "Síðar var hann með 4-6 stráka með sér, bæði við sáningar og í girðingunum. Þá var allt melfræ herfað niður með herfi sem sett var aftan í traktor. Á síðustu árum hefur aftur á móti verið sáð með raðsáningarvél sem Hagkaup gaf Landgræðslunni. Þetta er afkastamikil vél sem sett er aftan í traktor og gefur áburð um leið. En hún nýtist ekki á grjóti eða þar sem dráttarvélin kemst ekki yfir.

Fyrirtæki og samtök hafa stutt uppgræðslu á Haukadalsheiðinni. Þar á meðal er "Átak í landgræðslu" undir forystu Árna Gestssonar í Globus, Olís, Íslandsbanki og starfsfólk bankans, Rotaryklúbbar á Íslandi, Lionsklúbbur Biskupstungna og Lionsklúbburinn Freyr í Reykjavík. Á árunum 1988-91 stóð hópur fyrirtækja og einstaklinga að söfnun til uppgræðslu á heiðinni og gaf hún af sér 27 milljónir króna. Það má því segja að margir séu á bak við þann árangur sem náðst hefur."

Á leiðinni niður af heiðinni liggur vegarslóðinn yfir grýtta fláka og þar sést að lúpínan er búin að nema land. Í ljósi þess að reynt hefur verið með ákafa sem minnir á trúarofstæði að líta á þessa plöntu sem illgresi og sérstakan varg meðal innlendra plantna, lék mér forvitni á að heyra álit landvarðarins í Haukadal.

"Lúpínan er bara bjargvættur hérna", segir Kristín. Hún vex þar sem enginn jarðvegur virðist vera, bæði í farvegum og á grýttum flákum þar sem enginn annar gróður er til. Og reynslan hér sýnir að hræðsla við hættulega útbreiðslu hennar er óþörf. Það eru áratugir síðan lúpínu var sáð í rof og farvegi, sem náðu niður í skóg. Lúpínan dafnar þar en breiðist alls ekki út og lætur annan gróður í friði.

Við sáum lúpínu í svæði sem eru svo grýtt og ill yfirferðar að raðsáningarvélin kemst þar ekki um. Til þeirrar sáningar er notað áhald sem heitir plöntustafur. Lúpínan er alin upp í gróðurhúsi í Haukadal; að vísu við lítinn hita. Síðan eru plönturnar hertar með því að hitinn er tekinn alveg af húsinu og um leið og hættir að frjósa á vorin, eru þær bornar út."Landgræðsluáætlun fyrir Haukadalsheiði fram til ársins 2000 hefur verið gerð og verður unnið eftir henni. Þar er tilgreint hvað gert verður á hverju ári og hljóðar áætlunin svo fyrir næsta ár: Nýsáningar: Sáð verður mel með raðsáðvél í 30 ha. sunnan Sandvatns. Beringspunti og áburði verður dreift í rofabörð í Skyggnisheiði, um 50 ha. Beringspunti og túnvingli verður dreift við eldri sáningar sunnan Línuvegar í 50 ha. Lúpínu verður sáð í vatnsrásir í Sandfelli, um 24 ha. Lúpínu verður sáð við Sandvatn, í um 40 ha. Styrkingar: Rofabarðasáningar á Skyggnisheiði, um 50 ha. Eldri sáningar á Moldum, um 50 ha. Eldri flugsáningar við Línuveg, um 300 ha. Eldri sáningar við Sandvatn, um 130 ha. Annað: Plantað verður lúpínu í um 1100 ha. á svæðinu sunnan Fars og suður fyrir Línuveg. Um 50 þús plöntum verður plantað út með 15 metra millibili. Einnig verður plantað um 10 þús. plöntum af baunagrasi, birki og víði. Unnið verður að slóðalagningu, almennu viðhaldi girðinga auk þess sem endurnýjaður verður 5 km. kafli eldri girðinga. Lífrænir sandvarnargarðar verða gerðir sunnan Sandvatns.En hvað skyldi stór hluti heiðarinnar núna vera örfoka og ógróinn? Kristín segir að ekki sé til nákvæm mæling á því, en gizkar á að það sé fjórðungurinn. Ennþá verður uppblástur ef hvessir, segir hún, einkum á Skyggnisheiði, austanvert á Haukadalsheiðinni. Þar er mjög viðkvæmt svæði og það er næst á dagskrá að stöðva allt fok þaðan. Þar eru bæði börð og ávalar moldarbungur sem gott er að sá í. Aðaláherzlan er alltaf á að stöðva uppblástur; vinna þar sem landið er að eyðast. Alveg örfoka land er þá látið bíða."

Það sem umfram allt þarf þó að gera er að stífla þröngan farveg Farsins, þar sem það skar sér leið úr Hagavatni. Allri uppgræðslu á Haukadalsheiði stafar enn hætta af leirunum við Hagavatn. Þetta er tiltölulega einföld framkvæmd, en hér verður enn að treysta á þjóðholl fyrirtæki.

Á leið okkar vestur í Moldir lá vegarslóðinn yfir flæmi vaxið svo háum Beringspunti, að hann tekur manni í mitti. Kristín sagði að breytingin þarna á fáeinum árum væri kraftaverki líkust. Allt var þar örfoka áður. Og hvað eftir annað var sáningin unnin fyrir gíg. En tvö síðastliðin sumur hafa alveg ráðið úrslitum, segir hún. Engin norðan áhlaup, en alltaf hlýtt og vel rakt, einkum nú í sumar.

Mér fannst ég í rauninni vera að koma á ókunnugt land, með breiðum af súru og blómgresi; land vaxið grasi og punti sem var skriðinn og búinn að taka á sig litblæ haustsins og bylgjaðist eins og kornakur fyrir golunni. ótrúleg sjón og eftirminnileg.BERINGSPUNTUR er ein hinna innfluttu tegunda sem reynzt hafa frábærlega. Efst: Kristín Sigurðardóttir landvörður í puntunum við Sjónarhól. Í miðju: Punturinn bylgjaðist eins og kornakur vestur á Moldum; Kálfstindar og Högnhöfði í baksýn. Neðst: Ekið um götuslóða þar sem allt var örfoka fyrir fáeinum árum.

MINJAR um blómlegt land og betri tíð. Að ofan: Sveppurinn, há torfa vestanvert við Asbrandsá, nú fallin. Að neðan: Þessi torfa stendur enn vestur á Moldum og á ekki langt eftir nema sárinu verði lokað.Á MOLDUM, vestast á Haukadalsheiði. Hér hefur lengi verið barizt og sandurinn alltaf sigrað þar til nú að umskipti hafa orðið. Efst: Garðarnir eru upphaflega heybaggar, sem melgresi hefur verið sáð í. Neðst: Ótal melhólar eru eins og sátur eða galtar á sléttlendinu þarna.ÞANNIG leit verkefnið út - og raunar ennþá, því mikið er óunnið á Haukadalsheiði. Að ofan: Hér er mold að eyðast af völdum vatns og vinda. Að neðan: Gersamlega örfoka svæði eins og þetta eru látin bíða. Þar getur ekkert versnað.Á HAUKADALSHEIÐI: Efst: Eins og "bleikir akrar og slegin tón" þar sem fyrir skömmu var örfoka land. Næstefst: - Hér vr fyrsta tilraunin gerð með heybagga og melsáningu og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Bak við hólinn er minnisvarðinn um Greip Sigurðsson landgræðsluvörð í Haukadal. Næstneðst: Flæmi með súru á miðri heiðinni. Hún þykir afbragð og er undanfari víðisins. Þarna er margskonar blómgresi, Geldingahnappur, músareyra, lambagras, holurt, melskriðnablóm og blóðberg. Í baksýn eru Hagafellsjökull, Mosaskarðsfjall, Einifell og Jarlhettur. Neðst: Lúpína í þurrum vatnsfarvegi - "bjargvætturinn" eins og Kristín landvörður nefnir hana.SANDVATN séð úr lofti. Nú hefur verið stíflað við frárennslið í Ásbrandsá og Sandá og vatnið nær nú yfir leirur sem áður rauk úr þegar þornaði. Ljósm.Morgunblaðið/RAX.STARFSFÓLK Íslandsbanka á stíflugarðinum við Sandvatn.