BARRY Venison er hættur hjá tyrkneska liðinu Galatasaray - og er á leiðinni heim á ný, eins og Mike Marsh, sem fór frá félaginu til Southend fyrir stuttu. Þeir áttu erfitt með að aðlaga sig lífinu í Tyrklandi.


BARRY Venison er hættur hjá tyrkneska liðinu Galatasaray - og er á leiðinni heim á ný, eins og Mike Marsh, sem fór frá félaginu til Southend fyrir stuttu. Þeir áttu erfitt með að aðlaga sig lífinu í Tyrklandi.

VENISON mun ræða við Lawrie McMenemy hjá Southampton um helgina, en hann lék undir stjórn hans hjá Sunderland fyrir tíu árum. Hann mun sjá Southampton leika gegn Liverpool, sem hann lék einnig með, á morgun á The Dell. Galatasaray vill fá 500 þús. pund fyrir Venison.

ERIC Cantona mun leika með Man. Utd. gegn Chelsea í dag, en aftur á móti eru þeir Roy Keane og Denis Irwin frá vegna meiðsla.

FRANCO Baresi, fyrirliði AC Milan, leikur ekki með liðinu á morgun gegn Vicenza, þar sem hann tekur út leikbann. Dejan Savicevic, sem hefur ekki leikið tvo síðustu leiki AC Milan, kemur inn á ný fyrir Króatann Zvonimir Boban.

MIKIÐ er um meiðsli hjá Parma, þannig að óvíst er hvort Faustino Asprilla, Lorenzo Minotti og Fernando Couto geti leikið með gegn Róma.

ÞAÐ eru einnig meiðsli í herbúðum Róma. Daniel Fonseca, landsliðsmiðherji Uruguay og Amedeo Carboni eru meiddir og gat Fonseca ekki leikið með í Evrópuleik gegn belgíska liðinu Aalst í vikunnu.

ROY Hodgson, landsliðsþjálfari Sviss, mun stjórna liði Inter heima gegn Lazíó. Marco Delvecchio er í leikbanni og Davide Fontolan er meiddur. Hodgson mun líklega tefla 21 árs Argentínumanni Sebastian Rambert í sókninni. Ef Rambert leikur, mun einhver einn þeirra Paul Ince, Englandi, Javier Zanetti, Argentínu og Roberto Carlos, Brasilíu þurfa að hvíla.

SAMPDORIA teflir fram öllum sínum bestu leikmönnum heima gegn Fiorentina. Roberto Mancini, Frakkinn Christian Karembeu, Hollendingurinn Clarence Seedorf og Serbinn Sinisa Mihajlovic leika með.

FIORENTINA, sem lagði Napolí að velli í sl. viku á útivelli, 2:0, mætir einnig með sitt sterkasta lið - með leikmenn eins og Argentínumanninn Gabriel Batistuta, Svíann Stefan Schwarz og Rui Costa, Portúgal.