SNILLI Rembrandts er óumdeild en líklega er fátt annað í lífi og starfi þessa hollenska 17. aldar listamanns sem ekki er deilt um af hörku og fjöri. Ráðgátan við Rembrandt eru falsanirnar. Enginn 17.
Rembrandt eða ekki er spurningin í New York

SNILLI Rembrandts er óumdeild en líklega er fátt annað í lífi og starfi þessa hollenska 17. aldar listamanns sem ekki er deilt um af hörku og fjöri. Ráðgátan við Rembrandt eru falsanirnar. Enginn 17. aldar málari hefur verið stældur eins grimmt og Rembrandt og enn þann dag í dag er það höfuðverkefni þeirra listfræðinga, sem fást við verk hans, að segja til um með haldbærum rökum hver þeirra verka sem eignuð hafa verið Rembrandt í gegnum tíðina séu í raun og veru eftir hann og hver ekki.

Þetta veldur umtalverðum erfiðleikum þegar sýna á verk Rembrandts á yfirlitssýningu eins og þeirri sem nýlega var opnuð í Metropolitan-safninu í New York. Það hefur nefnilega komið á daginn að mörg fræg Rembrandt-verk sem tvímælalaust eiga heima á góðri Rembrandt-sýningu eru alls ekki eftir hann, heldur ýmist eftir nemendur hans eða samstarfsmenn, eða hreinlega seinni tíma falsanir. Metropolitan-safnið gerir Rembrandt skil á dálítið nýstárlegan hátt. Í stað þess að sýna aðeins þau verk sem menn eru sammála um að hljóta að vera eftir Rembrandt er sýningin tileinkuð vandanum við að þekkja "Rembrandt" frá "ekki Rembrandt".

Á sýningunni eru bæði verk Rembrandts sjálfs og verk sem ýmsir hafa málað í anda hans. Þetta gerir nokkrar kröfur til sýningargesta því verkunum fylgja ítarlegar útskýringar á uppruna þeirra og aðferðunum við að greina þau og það er þolinmæðisverk að setja sig inn í þau fræði. En erfiðið er ekki einskis virði. Á leiðinni gegnum sýninguna fræðist maður um röntgenmyndatökur af málverkum, greinungu með innrauðum geislum, geislamyndatöku, þar sem geislavirkum efnum er beitt til að sjá þykkt og efnasamsetningu litanna, notkun útfjólublárra geisla, smásjárrannsóknir á málverkum og fleira.

Sérfræðingar safnsins fullyrða þó, að þrátt fyrir þær tæknilegu aðferðir sem menn geta beitt nú til dags sé augað eftir sem áður besti dómarinn ásamt þekkingu á sérkennum listamannsins. Enda hafa nýmóðins rannsóknaraðferðir alls ekki dugað til að setja niður deilur um hvaða verk megi eigna Rembrandt og hver ekki. Þetta kemur vel fram í sýningarskránni, því tveir elstu Rembrandt-sérfræðingar safnsins eru ósammála um nokkur verkanna og því hefur sá kostur verið valinn að gefa út tvær sýningarskrár, þar sem hvor gerir grein fyrir sínu sjónarmiði. Sýningin gefur því ekki endanleg svör um myndirnar, en maður verður allmiklu nær um hvernig slík svör eru rökstudd.

Af 42 málverkum Metropolitans- safnsinsin, sem talin voru eftir Rembrandt þegar safnið eignaðist þau, eru nú álitið að aðeins 18 séu örugglega eftir hann. Á sýningunni eru einnig 62 teikningar og þrykkmyndir, sem eignaðar hafa verið Rembrandt, en rúmur helmingur þeirra er nú talinn vera eftir aðra.

Rembrandt-sýningin er ekki eina sýning Metropolitan-safnsins þar sem eftirlíkingar koma við sögu. Nú stendur þar yfir sýning á verkum spænska málarans Goya en á síðustu árum hefur safnið orðið að viðurkenna að mörg verk í eigu þess, sem eignuð voru Goya, eru í raun og veru falsanir og að stundum hafa starfsmenn safnsins verið auðblekktir. Uppistaðan í sýningunni eru raunar ekki málverk Goya heldur teikningar og þrykk. Þar státar Metropolitan af veglegu og óvenjulegu safni sem ekki hefur verið sýnt í heild áður.

"ARISTOTELES með Hómerstyttu" er eitt þeirra verka sem menn geta verið vissir um að sé eftir Rembrandt. Þótt öll gerð og uppbygging verksins eigi reyndar að taka af öll tvímæli, þá er ástæðan þó ekki síður sú að aðrar heimildir eru til um myndina, en hún var gerð eftir pöntun sikileysks málverkasafnara. "Uppboðshaldarinn" var álitin Rembrandt-mynd þar til nýlega. Þegar beitt var geislamyndun til að kanna grunnlög málverksins kom í ljós að upphaflegar útlínur myndarinnar eru engan veginn dæmigerðar fyrir Rembrandt-verk. Listfræðingar Metropolitan-safnsins benda einnig á að þegar myndirnar tvær eru bornar saman sjáist augljós munur á handbragðinu og af því megi ráða að þær geti varla verið eftir sama manninn. Til dæmis gæti miklu meiri ónákvæmni um búning og líkamsbyggingu "Uppboðshaldarans" heldur en "Aristotelesar". Einnig sé skugginn í andliti "Uppboðshaldarans", staðsetning augnanna og nefnið í þeim hlutföllum sem búast mætti við ef Rembrandt hafði málað myndina. Niðurstaðan er því sú að stælingin sé yfirborðsleg og myndina skorti þá dýpt sem verk Rembrandts hafi. Þetta er náttúrlega skondinn dómur þegar hugsað er til þess að áratugum saman var myndinni hampað sem einu af meistaraverkum snillingsins.