ÁSHILDUR Haraldsdóttir flautuleikari og Selma Guðmundsdóttir píanóleikari halda útgáfutónleika í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, sunnudaginn 22. október kl. 20.30. Á efnisskrá tónleikanna er að finna úrval stuttra tónverka, svokallaðra smáverka, fyrir flautu og píanó sem þær Áshildur og Selma hafa nýlega leikið inn á hljómdisk.
Smáverk á

tónleikum og

geisladiski

ÁSHILDUR Haraldsdóttir flautuleikari og Selma Guð mundsdóttir píanóleikari halda útgáfutónleika í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, sunnudaginn 22. október kl. 20.30.

Á efnisskrá tónleikanna er að finna úrval stuttra tónverka, svokallaðra smáverka, fyrir flautu og píanó sem þær Áshildur og Selma hafa nýlega leikið inn á hljómdisk. Diskurinn, sem ber nafnið Miniatures , kemur út hjá útgáfufyrirtækinu Spori á næstunni.

Áshildur sagðist í spjalli við Morgunblaðið efast um að smáverkin hafi verið leikin hér á landi áður og sum þeirra hafa jafnvel aldrei verið leikin inn á plötu áður. "Margt af því sem ég spila er eitthvað sem ég hef grafið upp hér og þar. Sum verkin eru eftir óþekkt tónskáld sem ég fann ekki einu sinni í tónlistarorðabókum, þótt inn á milli séu þekktari verk."

Áshildur sagði að flautuleikarar leiki mikið sömu verkin aftur og aftur og þá gjarnan verk sem þeir læra meðan þeir eru í námi. " Mér finnst oft gleymast að leita annað og finna ný verk. Ég er alltaf að leita að verkum og grúska hér og þar og vonast alltaf eftir að finna einhverjar perlur þótt auðvitað kaupi ég einnig mikið af ónothæfum verkum," sagði Áshildur.

Tveir fingurbrjótar

Hún sagði að smáverkin væru flest frá síðustu aldamótum og tengdust Tónlistarháskólanum í París. Verk íslensku höfundanna, þeirra Árna Björnssonar, Atla Heimis Sveinssonar og Þorkels Sigurbjörnssonar, eru mun yngri en eru svipuð að lengd.

Áshildur sagði að á disknum og efnisskrá tónleikanna væru tveir sannkallaðir fingurbrjótar sem eiga að leiða í ljós hvers flautan er tæknilega megnug. "Þetta eru tvö smáverk. Ég spila þau til að hrista upp í fólki og brjóta upp stemmninguna á disknum," sagði hún.

Áshildur býr í París og hefur nóg að gera við spilamennsku bæði sem einleikari og með kammerhljómsveit. Hún segist leika u.þ.b. tvisvar á ári á tónleikum hér á landi sem er að hennar sögn hæfilegt fyrir stærð markaðsins en bætti við að hún myndi fegin vilja búa á Íslandi ef unnt væri að leika þar oftar. Væntanlegur er diskur sem gefinn verður út í Svíþjóð en þar leikur Áshildur, með undirleik hljómsveitar, konserta frá barrokktímabilinu og mun hún fylgja honum eftir þar í landi á næstunni.

Samstarf hennar og Selmu er nýtt af nálinni og hefur það gengið mjög vel enda Selma sjóuð í meðleik á geisladiskum að sögn Áshildar, en hún lék meðal annars með Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara á disk hennar, Cantabile. Selma hefur einnig haldið fjölda einleikstónleika, leikið einleik með hljómsveitum og spilað kammertónlist.

ÁSHILDUR Haraldsdóttir flautuleikari.

SELMA Guðmundsdóttir píanóleikari.