DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra segist vona að upplýsingar Kjaradóms verði jákvætt innlegg í þær umræður sem farið hafa fram um kjaramál að undanförnu. Björn Grétar Sveinsson, formaður VMSÍ, segir upplýsingarnar engu breyta og Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ,
Forsætisráðherra um greinargerð Kjaradóms sem lögð var fram í gær Vonandi jákvætt

innlegg í umræð-

urnar um kjaramál

Verkalýðshreyfingin krefst ekki frekari upplýsinga

Kjaradómur hefur lagt fram greinargerð um forsendur úrskurðar sem féll í haust um laun æðstu embættismanna landsins. Egill Ólafsson ræddi við forsætisráðherra og forystumenn á vinnumarkaði um greinargerðina. DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra segist vona að upplýsingar Kjaradóms verði jákvætt innlegg í þær umræður sem farið hafa fram um kjaramál að undanförnu. Björn Grétar Sveinsson, formaður VMSÍ, segir upplýsingarnar engu breyta og Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, segir að krafa verkalýðshreyfingarinnar um aukinn hlut í efnahagsbatanum standi óhögguð.

Davíð Oddsson lýsti á fundi með fréttamönnum ánægju sinni með að Kjaradómur skyldi fallast á óskir verkalýðshreyfingarinnar um viðbótarupplýsingar um það sem á bak við úrskurðinn lægi. Hann sagði að það hefði ekki verið sjálfsagt að dómurinn yrði við þessum óskum.

Davíð var spurður hvort hann teldi að þessar nýju upplýsingar Kjaradóms myndu lægja þær ófriðaröldur sem vaknað hefðu í þjóðfélaginu í kjölfar úrskurðar Kjaradóms. "Ég skal ekkert um það segja, en ég tel þó að það geti ekki verið annað en jákvætt að talnagrundvöllurinn liggi fyrir. Hvort hann leiðir til sannfæringar einstakra manna um tiltekin atriði skal ég ekkert um segja, en það hafa mjög margir aðilar í þjóðfélaginu lagt á það höfuðáherslu að þessir þættir kæmu fram. Það hefur tekist að stuðla að því að slíkar upplýsingar lægju fyrir. Menn verða síðan að ráða því hvernig þeir túlka þessar upplýsingar.

Ég túlka þær svo að Kjaradómur hafi rökstutt það að hann hafi farið að lögum. Séu menn óánægðir með þessa niðurstöðu þá hefur lagaramminn af hálfu Alþingis ekki verið nægilega vel settur.

Ég hygg að það sé algerlega ljóst að hækkanir til t.a.m. þingmanna séu ekki umfram hækkanir á almennum markaði, sérstaklega ef haft er í huga, sem geta má sér til, að þær hækkanir sem eiga að verða um áramót eiga ekki að ganga til þeirra."

Davíð sagði að hækkanir Kjaradóms sköpuðu ekki forsendur fyrir uppsögn samninga. Slík forsenda myndi ekki skapast nema að verðlagshækkanir færu úr böndunum.

Hlutdeild í efnahagsbatanum

Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, var spurður hvort hann teldi þær upplýsingar, sem Kjaradómur hefði lagt fram, nægilegar.

"Við báðum um allar upplýsingar sem Kjaradómurinn gæti látið af hendi um forsendur sínar, og erum búnir að fá svar við því. Því verður ekki neitað. Við eigum hins vegar eftir að leggja mat á svarið."

Benedikt sagði greinilegt á upplýsingum Kjaradóms að þeir efnameiri hefðu fengið ríkulegan hlut í efnahagsbatanum. Krafa verkalýðshreyfingarinnar stæði óhögguð um að þeir lægst launuðu fengju aukinn hlut í efnahagsbatanum.

"Þessar hækkanir stangast á við grunninn, sem við fórum af stað með þegar við gerðum samningana. Í þeim vorum við að gera ráð fyrir því að efnahagsbatinn yrði fyrst og fremst nýttur til þess að bæta kjör þeirra sem lakast væru settir, en mér sýnist fljótt á litið að þessar upplýsingar komi ekki alveg heim og saman við það."

Benedikt var spurður hvort að hann hvetti félög til að feta í fótspor Alþýðusambands Vestfjarða, Dagsbrúnar og fleiri félaga, sem samþykkt hafa ályktanir um uppsögn samninga.

"Ég hef ekki mikið verið þátttakandi í þeirri umræðu. Ég hef hins vegar sagt að ég telji, miðað við þá niðurstöðu sem hafi orðið hjá Kjaradómi, að siðferðilegar forsendur fyrir samningunum séu brostnar og þá á ég við þann grunn sem við fórum af stað með, þ.e. að efnahagsbatann ætti að nýta í þessum tilgangi. Ég hef hins vegar ekki lagt neitt tæknilegt mat á forsendur samningsuppsagnar."

Ekki stílbrot á launastefnunni

"Það verður ekki séð að í þessu yfirliti sé að finna nein sérstök stílbrot á þeirri launastefnu sem að mótuð var í vetur," sagði Víglundur Þorsteinsson, varaformaður VSÍ, um upplýsingar Kjaradóms.

"Lægstlaunaða fólkið fékk efnahagsbatann með þeim samningum sem gerðir voru í fyrravetur. Verkalýðshreyfingin hefur ekki gert grein fyrir því að svo hafi ekki verið. Hún hefur hrópað, en hefur ekki sýnt fram á með neinum hætti að stílbrot hafi orðið í þeirri launajöfnunarstefnu sem mótuð var í febrúar. Það er enginn vafi á því að lægst launuðu hóparnir fengu mjög verulegar launahækkanir. Heildarlaunabreytingar lægst launuðu hópanna innan ASÍ á þessum tveggja ára samningstíma eru yfir 14%.

Atvinnulífið hækkaði launagreiðslur sínar í febrúar um 6.500 milljónir. Í greiðslunni sem kemur um áramót hækka greiðslurnar um 4.500 milljónir. Þar til viðbótar komu skattaívilnanir frá ríkisvaldinu. Þetta eru því með raunsærri tilraunum sem gerðar hafa verið í langan tíma. Verðlagsforsendur hafa haldið og þar með eru forsendur að fullu í gildi. Það er ekkert meira til atvinnulífsins að sækja nema menn ætli í gömlu gengisfellingarúrræðin, þ.e. gervikauphækkanir og verðbólgu. Ég lýsi eftir þeim verkalýðsforingjum sem að þora að ganga fram fyrir skjöldu og biðja um gervilaunahækkanir og gengisfellingar."

Breytir engu

"Þessi niðurstaða breytir engu varaðandi þá ólgu sem risið hefur í þjóðfélaginu," sagði Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambandsins. Hann sagðist ekki eiga von á öðru en að á þingi Verkamannasambandsins, sem hefst í næstu viku, kæmi fram hörð krafa um að samningum yrði sagt upp.

Björn Grétar sagði mikilvægt að hafa í huga að almennt verkafólk hefði samið um krónutöluhækkun, 2.700-3.700 krónur við upphaf samnings og 2.700 krónur um næstu áramót. Hugsunin á bak við samningana hefði verið að jafna laun í landinu. Í greinargerð Kjaradóms væri einungis talað um prósentur, en á bak við þær lægju upphæðir sem gæfu hálaunafólki tugi þúsunda í kauphækkanir á mánuði.

Björn Grétar sagðist ekki vera sáttur við allt sem stæði í greinargerð Kjaradóms, en sagðist ekki gera ráð fyrir að fá meiri upplýsingar frá dómnum. Launafólk yrði nú að taka sínar ákvarðanir út frá þeim upplýsingum sem það hefði í höndunum.

Morgunblaðið/Kristinn DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra greinir frá greinargerð Kjaradóms á fundi með fréttamönnum í gær.