VERÐI Andrei Kozyrev, utanríkisráðherra Rússlands, látinn víkja úr embætti mun það vekja nokkrun ugg á Vesturlöndum en jafnt vestrænir sem rússneskir embættismenn telja, að þó svo fari, muni lítil breyting verða á rússneskri utanríkisstefnu.
Framtíð Kozyrevs? Stefnu-

breyting

ólíkleg

Moskvu. Reuter.

VERÐI Andrei Kozyrev, utanríkisráðherra Rússlands, látinn víkja úr embætti mun það vekja nokkrun ugg á Vesturlöndum en jafnt vestrænir sem rússneskir embættismenn telja, að þó svo fari, muni lítil breyting verða á rússneskri utanríkisstefnu.

Í yfirlýsingum Borís Jeltsíns, forseta Rússlands, um brottvikningu Kozyrevs stangast raunar eitt á annars horn. Á fimmtudag sagði hann, að það væri sín óhagganlega ákvörðun að láta hann víkja strax og hæfur maður fyndist í hans stað en daginn eftir sagði hann hugsanlegt, að Kozyrev yrði áfram í embætti ef hann fengi aðstoðarutanríkisráðherra sér við hlið.

Framfylgdi stefnu Jeltsíns

Rússneskir fréttaskýrendur benda á, að Kozyrev hafi ávallt verið Jeltsín trúr og í raun hafi hann aldrei gert neitt annað en framfylgja stefnu forsetans sjálfs. Jeltsín sé hins vegar í því hlutverki að sannfæra þingmenn og almenning um, að hann standi vörð um rússneska hagsmuni og í því ljósi beri að líta á yfirlýsingar hans um Kozyrev og kjarnorkuvopn í Austur-Evrópu. Þá er það líka skoðun sumra fréttaskýrenda, að misvísandi yfirlýsingar Jeltsíns um Kozyrev séu ekki bara fyrir heimamarkaðinn, heldur ekki síður fyrir vestræna leiðtoga. Hann sé með öðrum orðum að hóta, að Kozyrev, sem er í miklum metum á Vesturlöndum, verði rekinn ef þeir komi ekki til móts við Rússa í helstu deilumálunum.

Mest er andstaða Rússa við, að kjarnorkuvopnum verði komið fyrir í Austur-Evrópuríkjunum gangi þau í NATO og á Vesturlöndum skilja margir yfirlýsingar Jeltsíns um það mál þannig, að hann sé tilbúinn til að sætta sig við NATO-aðild ríkjanna verði komið til móts við hann að þessu leyti.