BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra telur varasamt að móta opinbera stefnu í fjölmiðlun þar sem slíkt gæti reist skorður við því frelsi, sem eðlilegt sé að ríki þegar fjölmiðlar eru annars vegar. Þetta sagði Björn í umræðu um þingsályktunartillögu um opinbera fjölmiðlastefnu.
Opinber fjölmiðlastefna varasöm

BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra telur varasamt að móta opinbera stefnu í fjölmiðlun þar sem slíkt gæti reist skorður við því frelsi, sem eðlilegt sé að ríki þegar fjölmiðlar eru annars vegar.

Þetta sagði Björn í umræðu um þingsályktunartillögu um opinbera fjölmiðlastefnu. Björn sagðist telja að Alþingi hefði með breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins á síðasta þingi gert ráðstafanir til að standa vörð um tjáningarfrelsið sem hornstein lýðræðis. Því hafi þegar verið staðfest með viðunandi hætti eitt af þeim þremur markmiðum sem þingsályktunartillagan miðaði að.

Þá sagði Björn að með í fyrra hefði Alþingi lagt grunn að stórátaki til að efla íslenska tungu og menningu, m.a. með því að koma á fót sérstökum sjóði til að styrkja átak í þágu íslenskrar tungu og menningar.

Ekki á valdi stjórnvalda

Varðandi þriðja meginmarkmið þingsályktunartillögunnar, að tryggja almenningi aðgang að málefnalegum og faglegum upplýsingum, sagði Björn að hann teldi það ekki vera á valdi löggjafans eða stjórnvalda að setja reglur um þetta.

Þróunin væri í þá átt, að samruni ætti sér stað hjá mörgum stórum aðilum í fjölmiðlaheiminum en á sama tíma ykjust möguleikar bæði einstaklinga og smærri fyrirtækja til að taka þátt í fjölmiðlun með þeim hætti sem aldrei hefði verið áður. Einn maður á heimili sínu gæti verið að stunda fjölmiðlastarfsemi með tölvu og síma að vopni og upplýsingamiðlunin væri orðin á þann veg að ógerlegt væri að ætla sér að setja um það opinberar reglur um hvernig að slíku verði staðið.

Björn sagðist telja það tímaskekkju að ætla að fara að álykta um þetta efni sérstaklega og setja niður nefnd til þess að fjalla um það.

Hann spurði hvað fælist í virkri fjölmiðlastefnu, sem getið er um í greinargerð fyrir tillögunni. "Ef opinberir aðilar eiga að fylgja slíkri stefnu, hver eru mörkin milli virkrar fjölmiðlastefnu og ritskoðunar eða annarra hamla sem menn setja á þá sem stunda fjölmiðlun?" sagði Björn

Ekki ritskoðun

Lilja Á. Guðmundsdóttir svaraði Birni og sagði það mikinn misskiling ef hann héldi því fram að þingsályktunartillagan væri sett fram til að hindra störf fjölmliðla. Þvert á móti væri það markmið tillögunnar að hindra ekki eða ritskoða það efni sem almenningi stæði til boða.

Hins vegar væri spurning hvort það væri ekki einhvers konar ritskoðun ef sú þróun hélti áfram, að almenningi stæði til boða nánast einhæft tónlistarefni í útvarpsrásum og örfrá dagblöð. Ríkisvaldið gæti auðvitað eflt upplýsingaflæðið í landinu með því að styðja við útgáfu blaða og tímarita.

Hættan væri sú þróun að einungis útvalinn hópur hefði aðgang að alls konar upplýsingum á ýmsum tungumálum en síðan hefði stór hópur mjög takmarkaðan aðgang að upplýsingum.

Björn Bjarnason