WILLY Claes, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) kallaði saman blaðamannafund í Brussel síðdegis í gær og skýrði frá því að hann hefði sagt af sér embætti vegna ásakana í sinn garð í tengslum við Agusta-mútumálið.
Claes segir af sér embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins Sakar andstæðinga sína í

Belgíu um "pólitískt morð"

Brussel. Reuter.

WILLY Claes, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) kallaði saman blaðamannafund í Brussel síðdegis í gær og skýrði frá því að hann hefði sagt af sér embætti vegna ásakana í sinn garð í tengslum við Agusta-mútumálið. "Ég hef með miklum trega ákveðið að segja af mér," sagði Claes en belgíska þingið samþykkti á fimmtudag að svipta hann þinghelgi svo að hæstiréttur gæti yfirheyrt hann vegna mútumálsins.

Áður en þingið greiddi atkvæði flutti framkvæmdastjórinn tilfinningaþrungna ræðu yfir þingheimi og sagði að yrði hann dreginn fyrir hæstarétt jafngilti það aftöku, einnig minntist hann á fjölskyldu sína í ræðunni.

Í ávarpi sínu á blaðamannafundinum hyllti Claes NATO sem hann sagði mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Hann fordæmdi afstöðu rannsóknaraðila og stjórnmálaleiðtoga í Belgíu. "Leyfið mér enn einu sinni að ítreka að ég er algerlega saklaus," sagði hann. "Ég hef orðið að verja mig við aðstæður sem ekki eru sæmandi nútímaríki," sagði Claes og taldi sig ekki hafa hlotið réttláta málsmeðferð.

Hann sagðist vera reiður en ætlaði ekki að verða bitur maður. Hann hefði aldrei fengið að verja sig augliti til auglitis við þá sem sökuðu sig um að hafa vitað um múturnar án þess að gera nokkuð í málinu. "Enginn getur neitað því að ég nýt ekki lengur trausts til að veita þessu mikla bandalagi trausta forystu. Er því hægt að kalla þetta annað en pólitískt morð?"

Án fordæma í sögu NATO

Þetta er í fyrsta sinn í 46 ára sögu bandalagsins sem framkvæmdastjóri þess hefur verið neyddur til að segja af sér en hann er skipaður til fimm ára í senn.

Ár er liðið síðan hinn 56 ára gamli Claes tók við embættinu en hann var lengi harður gagnrýnandi NATO og andmælti ýmsu í stefnu bandalagsins, m.a. uppsetningu bandarískra kjarnorkuflauga í Evrópu. Hann er lögfræðingur og snjall tónlistarmaður í frístundum, kvæntur og tveggja barna faðir. Claes er af fátækum kominn og sagður afar metnaðarfullur.

Valið á Claes var umdeilt á sínum tíma hjá NATO. Hann átti í nokkrum erfiðleikum fyrst í stað í embætti sínu og var sakaður um að vilja engin ráð þiggja. Smám saman vann hann sig þó í álit, einkum hjá Bandaríkjamönnum.

Hann þótti sýna mikla forystu- og stjórnunarhæfileika er ákveðið var að herflugvélar NATO yrðu notaðar til að þvinga Bosníu-Serba til að fjarlægja þungavopn frá Sarajevo. Hann var síðan gagnrýndur harkalega nýlega fyrir þau ummæli sína að íslam yrði framvegis aðalhættan er steðjaði að Vesturlöndum í stað kommúnismans áður. Þótti þessi yfirlýsing ekki líkleg til að efla góð samskipti við múslimaþjóðir Norður-Afríku.

Morðið á Couls

Það var morðið á einum af leiðtogum vallónskra sósíalista, André Couls, í Liege árið 1991 sem varð til þess að farið var að kanna peningagreiðslur til sósíalistaflokksins belgíska. Harðsnúinn saksóknari í Liege, Veronique Ancia, og starfslið hennar hóf m.a. að kanna ásakanir um að ítalska þyrlufyrirtækið Agusta hefði árið 1988 greitt flokknum, sem þá var í stjórn, mútur til að fá að selja hernum 46 þyrlur fyrir 25 milljarða króna á núvirði.

Claes, sem var efnahagsmálaráðherra 1988 og síðar utanríkisráðherra, sagðist í fyrstu aldrei hafa heyrt minnst á neinar peningagreiðslur en viðurkenndi síðar að hafa heyrt lauslega drepið á þær.

Claes var nú orðinn tvísaga, málið vatt smám saman upp á sig og skoðanakönnun í fyrradag sýndi að yfir 90% Belgíumanna vildu að hann segði af sér. Málið væri orðið hneisa fyrir þjóðina.

Reuter

Willy Claes