RUPERT MURDOCH, hinn kunni fjölmiðlakóngur, hefur treyst stöðu sína á áströlskum sjónvarpsmarkaði með samningi upp á einn milljarð Ástralíudollara (760 millj. Bandaríkjadala) um samvinnu milli Foxtel-fyrirtækis hans og fyrirtækis keppinautanna, Australis Media Ltd.
Aukin ítök Rupert Murdochs í ástralíu

Sydney. Reuter.

RUPERT MURDOCH, hinn kunni fjölmiðlakóngur, hefur treyst stöðu sína á áströlskum sjónvarpsmarkaði með samningi upp á einn milljarð Ástralíudollara (760 millj. Bandaríkjadala) um samvinnu milli Foxtel-fyrirtækis hans og fyrirtækis keppinautanna, Australis Media Ltd.

Foxtel er sameignarfyrirtæki News Corp-fyrirtækis Murdochs og fjarskiptafyrirtækisins Telstra Corp, sem er í ríkiseign. Foxtel og Australis munu sameinast í nýtt fyrirtæki, sem mun ná til 90% heimila í Ástralíu.

Sérfræðingar segja að með samningnum sé komið á fót voldugasta áskriftarsjónvarpi í Ástralíu. Með samningnum verða örbylgju- og gervihnattasjónvarp í Ástralíu samræmd fyrirætlunum Foxtels um að hleypa af stokkunum 20 rása kaflasjónvarpsþjónustu þesa dagana.

Taprekstur hefur verið hjá báðum aðilum, en nú á að sameina hæfni þeirra á sviðum útsendinga, markaðssetningar og dagskrárgerðar, auk þess sem Australis fær aðgang að miklu alþjóðlegu safni Foxtels af sjónvarpsefni.

Áskriftarsjónvarp Australis, Galaxy, nær til 31.000 áskrifenda með sendingum á örbylgju, en búizt hefur verið við að áskrifendum fjölgi þegar stöðin hefur gervihnattarsendingar síðar í ár.

Þessi áhorfendahópur sameinast áhorfendum að sendingum Foxtel- fyrirtækis Murdochs og kaplasjónvarps Telstra, sem gert er ráð fyrir að nái til einnar milljónar heimila fyrir áramót.

Gamall keppinautur eftir

Eftir samrunanna verður eini meiriháttar keppinauturinn á sviði kaplasjónvarps fyrirtækið Optus Vision, sem er að hluta til fjármagnað af Kerry Packer, hinum gamalkunna mótherja Murdochs. Optus Vision hóf útsendingar í septemberlok, en lengri tíma tekur að leggja kaplana.

Ef samruninn fær samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa í Ástralíu verður hann mikið áfall fyrir Optus Vision.

Ekki er talið að stjórn Ástralíu leggist gegn samrunanum, en sumir þeir sem gagnrýna hann halda því fram að Murdoch fái of mikil áhrif í fjölmiðlum á landsbyggðinni. News Corp á 66% blaða í Ástralíu.

Áskrift að Foxtel mun kosta 39,95 Ástralíudali á mánuði (30 Bandaríkjadali). Áskrift að Optus Vision og Australis kostar 25-39,95 dali (19-30) og 49,95 dali (38).

Rupert Murdoch