BORIS Jeltsín, forseti Rússlands, dró í gær í land með að hann hygðist víkja Andrej Kozyrev utanríkisráðherra úr embætti og sagði að hann þyrfti að fá góðan aðstoðarráðherra til að geta sinnt starfi sínu sem skyldi.
Jeltsín Rússlandsforseti dregur í land með hótun um ráðherraskipti Kozyrev áfram ráðherra um sinn

Moskvu. Reuter, The Daily Telegraph.

BORIS Jeltsín, forseti Rússlands, dró í gær í land með að hann hygðist víkja Andrej Kozyrev utanríkisráðherra úr embætti og sagði að hann þyrfti að fá góðan aðstoðarráðherra til að geta sinnt starfi sínu sem skyldi.

Fréttaskýrendum þykja ummæli Jeltsíns til marks um að einn dagur sé langur tími í rússneskum stjórnmálum. Þegar Jeltsín gekk til hvílu á fimmtudagskvöld hélt heimsbyggðin að hann hygðist víkja Kozyrev úr embætti. Þegar hann vaknaði virtist hann hafa áttað sig á því að hann þyrfti á utanríkisráðherranum að halda í ferð til Frakklands og Bandaríkjanna, þar sem ýmis viðkvæm deilumál verða til umræðu.

Jeltsín sagði áður en hann hélt til Parísar í gærmorgun að ummæli hans á fimmtudag um að hann væri að leita að nýjum utanríkisráðherra hefðu verið misskilin; Kozyrev gæti "ef til vill" haldið embættinu, a.m.k. um sinn.

Sex aðstoðarráðherrar

Forsetinn sagði að Kozyrev þyrfti fyrst og fremst á góðum aðstoðarráðherra að halda til að stjórna utanríkisráðuneytinu meðan ráðherrann væri í útlöndum. Þessi ummæli komu stjórnarerindrekum í Moskvu á óvart þar sem Kozyrev er þegar með sex aðstoðarráðherra.

Jeltsín sagði í gær að utanríkisráðherrann hefði spurt hvort hann ætti að fylgja honum til Frakklands og Bandaríkjanna. "Ég svaraði: "Komdu með, komdu með í þetta sinn"."

Daginn áður var Jeltsín spurður á blaðamannafundi í Kreml hvort það væri vandamál að finna eftirmann Kozyrevs og forsetinn játti því. "Leyfum honum að sinna starfi sínu áfram. Við megum ekki verða til þess að hann láti bugast. En ákvörðun mín stendur."

Utanríkisráðherrann stóð við hlið forsetans þegar hann ræddi við fréttamenn í gær og virtist taka umræðunni með ró. Ráðherrann hefur sætt harðri gagnrýni þjóðernissinna á rússneska þinginu, sem saka hann um undirgefni við Vesturlönd, einkum í málefnum Bosníu.Stefnubreyting ólíkleg/20