VIÐRÆÐUM embættismanna frá Íslandi, Noregi og Rússlandi um veiðar íslenzkra skipa í Barentshafi lauk í Moskvu í gær án samkomulags. Stjórnvöld í ríkjunum þremur telja þó að árangur hafi náðst á fundinum og þokazt í samkomulagsátt. Nýr samningafundur hefur verið boðaður í lok nóvember og er áfram stefnt að því af allra hálfu að ná samningum fyrir áramót.
Nýr samningafundur um Smuguna boðaður í lok nóvember Þokaðist í samkomu-

lagsátt í Moskvu

VIÐRÆÐUM embættismanna frá Íslandi, Noregi og Rússlandi um veiðar íslenzkra skipa í Barentshafi lauk í Moskvu í gær án samkomulags. Stjórnvöld í ríkjunum þremur telja þó að árangur hafi náðst á fundinum og þokazt í samkomulagsátt. Nýr samningafundur hefur verið boðaður í lok nóvember og er áfram stefnt að því af allra hálfu að ná samningum fyrir áramót.

Rætt var um kvótatölur, en ekki er samkomulag um hversu mikinn kvóta Ísland fái í Smugunni. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins ber þó ekki mikið á milli. Skipti Íslendinga og Norðmanna á veiðiheimildum voru einnig rædd.

Jafnframt er deilt um hvort Íslendingar fái að veiða kvóta sinn á Svalbarðasvæðinu og í lögsögu Noregs og Rússlands. Þá gera Noregur og Rússland þá kröfu að komið verði í veg fyrir að skip í eigu Íslendinga sigli undir hentifána og komist þannig framhjá kvótaákvörðunum.

Styttra á milli en áður

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segist ekki endilega hafa átt von á samkomulagi í Moskvu. "Ég tel að þessi fundur hafi verið gagnlegur og að margt hafi skýrzt á honum. Það var árangur út af fyrir sig að samningaviðræður voru hafnar á nýjan leik, því að það hefur tekið alllangan tíma að koma þeim á," segir Halldór. "Það er líka árangur að menn skilja sáttir eftir þennan fund og hafa ákveðið að halda nýjan."

Aðspurður hvort styttra sé á milli ríkjanna hvað varðar til dæmis kvóta og veiðisvæði eftir fundinn, segir Halldór: "Það er styttra á milli eftir þennan fund en áður var og það er árangur." Halldór telur að með góðum samningsvilja verði hægt að ljúka málinu fyrir áramót. "Það voru þau tímamörk, sem ég taldi eðlilegt að setja."

Jákvæðar viðræður

"Við lítum svo á að viðræðurnar hafi verið jákvæðar og gagnlegar," segir Ingvard Havnen, talsmaður norska utanríkisráðuneytisins. "Við erum nær lausn en áður."

Havnen segir að norsk stjórnvöld hafi áfram von um markmið ríkjanna þriggja, um að ná samkomulagi fyrir áramót, geti náðst. Hins vegar séu samningaviðræðurnar flóknar og brugðið geti til beggja vona.