MIKIÐ HEFUR verið fjallað um Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum í ár, Norður-Írann Seamus Heaney, í breskum fjölmiðlum undanfarið. Samkvæmt umfjöllun í Times Literary Supplement hafa flestir lýst ánægju sinni með val sænsku akademíunnar að þessu sinni.
NÖLDRAÐ

UM HEANEY

MIKIÐ HEFUR verið fjallað um Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum í ár, Norður-Írann Seamus Heaney, í breskum fjölmiðlum undanfarið. Samkvæmt umfjöllun í Times Literary Supplement hafa flestir lýst ánægju sinni með val sænsku akademíunnar að þessu sinni. Írska skáldið og háskólakennarinn, Paul Muldoon, sagði í Guardian fyrir skemmstu að hann hefði verið að vonast eftir því að Heaney fengi verðlaunin um nokkurt skeið. Skáldbræður Muldoons, Douglas Dunn og Andrew Motion sögðust sömuleiðis vera mjög ánægðir. Einnig sagðist Sir Frank Kermode, fyrrum prófessor í bókmenntum, vera mjög sáttur við niðurstöðuna, "sé tekið tilliti til þeirra hræðilegu mistaka sem akademían hefur oft gert áður með vali sínu er þetta mjög ásættanleg niðurstaða; Heaney er mjög gott skáld."

Nýtur pólitískrar samúðar

Nokkrar óánægjuraddir hafa þó einnig heyrst. Í sérstökum nöldurdálki Sunday Telegraph , sem nefndur er Á öndverðum meiði, lætur Ivo Davnay, ritsjóri erlends efnis blaðsins, móðann mása um útnefninguna. Segir hann að Heaney, sem sé "gott annars flokks ljóðskáld," hafi hlotið verðlaunin að þessu sinni fyrst og fremst vegna þess að sem norður-írskur kaþóliki sé hann í hópi þeirra skálda sem njóti "pólitískrar samúðar" akademíunnar. "Í hópi síðustu Nóbelsverðlaunahafa", segir Davnay, "er hvít, angistarfull og frjálslind suður-afrísk kona (Nadine Gordimer), höfundur frá Karíbaeyjum sem þarf að sæta menningarlegri kúgun (Derek Walcott) og bandarísk blökkukona (Toni Morrisson)."

Ljóðhuga Írar!

Meginástæðan fyrir ergelsi Davnays er þó sú að hann telur að með því að útnefna Heaney hafi akademían hvatt fleiri Íra til að taka til við yrkingar. "Við getum nú örugglega átt von á því að nokkur þúsund ljóðhuga landar Heaneys kasti frá sér rekunum og sleggjunum og skeiði út á ritvöllinn. Á meðan rauðnefjuð börn þeirra góla og kerlingarnar garga af gremju yfir leti þeirra og ómennsku munu fylkingar Íra, sem vilja verða Nóbelsskáld líka, arka út á pöbba Dyflinnar og Derrí í leit að andagift og vískíi til að hnoða úr vísur." Segir Davney að það þurfi að grípa til einhverra úrræða áður en holskeflan gangi yfir og stingur upp á að hinn kunni Blarney-steinn í Cork verði hulinn steypu en hver sá sem stein þann kyssir á að verða tungulipur mjög.

Heaney engin módernisti

Fleiri hafa verið að fjargviðrast út af Nóbelnum þetta árið en sennilega hefur engin gengið jafnlangt í gagnrýni sinni og Anthony Easthope, enskur prófessor í menningarfræðum, sem að sögn blaðamanns Times Literary Supplement hefur skrifað margar broslegar greinar til varnar módernismanum. Í bréfi til Guardian 7. október síðastliðinn birtist ein slík. "Nóbelsverðlaun Heaneys endurspegla aðeins stöðnun breskrar menningar," segir þar, "kveðskapur hans fellur ekki undir módernisma, hugmyndastefnunnar sem umbylti vestrænni menningu fyrr á þessari öld með endurmati á hefðbundnum hugmyndum um einstaklinginn, tungumálið og sannleikann."

Easthope bendir á það sem hann telur vera höfuðsynd gagnvart módernismanum í verkum Heaneys. "Dæmigert ljóð eftir Heaney lýsir merkingarfullri upplifun sjálfhverfs einstaklings með áreynslulausu tungumáli." Hefur Easthope talið þessar syndir Heaneys svo augljósar að hann skýrir ekki frekar við hvað hann á en bætir því við að það eina sem Heaney noti úr módernismanum séu ein eða tvær myndlíkingar.

Hestvagnar og Heaney

Niðurstaða Easthopes er ótvíræð. "Ef menning okkar væri nútímaleg í raun og veru myndum við gefa gamaldags hluti upp á bátinn, þótt þeir væru aðlaðandi og skemmtilegir, svo sem hestdregna leiguvagna, reykingar og skáldskap Seamus Heaney." Þetta eru hörð skilyrði en ef til vill er það þess virði að fylgja þeim ef maður telst til nútímamanna fyrir vikið.

"Við getum nú örugglega átt von á því að nokkur þúsund ljóðhuga landar Heaneys kasti frá sér rekunum og sleggjunum og skeiði út á ritvöllinn," segir ritstjóri hjá Sunday Telegraph .