Leikhópurinn Barflugur frumsýnir í kvöld í samvinnu við Leikfélag Reykjavíkur Bar Par eftir breska leikritaskáldið Jim Cartwright í Veitingastofu Borgarleikhússins. Orri Páll Ormarsson brá sér á barinn og andaði að sér andrúmsloftinu.
Öl, átök og

orrusta orða

Leikhópurinn Barflugur frumsýnir í kvöld í samvinnu við Leikfélag Reykjavíkur Bar Par eftir breska leikritaskáldið Jim Cartwright í Veitingastofu Borgarleikhússins. Orri Páll Ormarsson brá sér á barinn og andaði að sér andrúmsloftinu.

KYNLEGIR kvistir stinga við stafni. Öl í krús, eldur í æðum og augu á stilkum. Togstreyta, tár og taumlaus gleði. Lifað er fyrir líðandi stund.

Þannig er stemmningin á ónefndri ölkrá sem leikritaskáldið Jim Cartwright gerir að vettvangi verks síns, Bar Par, sem frumsýnt verður í Veitingastofu Borgarleikhússins í kvöld. Þýðandi er Guðrún Bachmann.

Parið sem rekur barinn er í brennidepli en inn í frásögnina fléttast margir kostulegir viðskiptavinir. Glatt er á hjalla og meinfyndin orrusta orða geisar á hrjúfu yfirborðinu en víða er stutt í kvikuna og skerandi sársaukann.

"Bar Par fjallar fyrst og fremst um manneskjur - samskipti þeirra, gleði og sorgir," segir Helga E. Jónsdóttir leikstjóri. "Undirtónninn er alvarlegur en höfundurinn skreytir verkið með ýmsum kostulegum persónum. Þetta er eiginlega bæði hugljúft og átakanlegt verk."

Bar Par sló á liðnum vetri sýningarmet hjá Leikfélagi Akureyrar og önnur verk Cartwrights, Stræti og Taktu lagið Lóa, hafa notið mikilla vinsælda í Þjóðleikhúsinu. Öll fjalla þau um daglegt amstur alþýðunnar, sigra hennar og skakkaföll.

Litrík mynd

"Þessi höfundur virðist höfða til Íslendinga," segir Guðmundur Ólafsson en þau Saga Jónsdóttir, sem jafnframt var helsti hvatamaðurinn að uppfærslunni, skipta með sér öllum hlutverkunum í sýningunni. Telur hann skýringuna einkum felast í því hvað viðfangsefni Cartwrights standi fólki nærri. "Cartwright fjallar um venjulegt fólk en dregur upp mjög skemmtilega og litríka mynd af lífi þess."

Jón Þórisson, sem hannar búninga, leikmynd og gervi, tekur upp þráðinn: "Sumir karakterarnir í Bar Pari eru vissulega ýktir en hefur maður ekki séð þá alla einhvers staðar," og Helga bætir við að ýkjurnar séu hluti af leiknum. "Við förum ekki fram úr raunveruleikanum og þegar öllu er á botninn hvolft er þetta ekki svo framandi fólk. Manneskjurnar á bak við alla þessa karaktera eru raunverulegar."

Öllu gamni fylgir alvara og Jón segir að Cartwright fjalli öðrum þræði um sorglega hluti í verkum sínum. Hann velti sér hins vegar ekki upp úr þeim en dragi þess í stað upp myndir og láti áhorfandanum eftir að taka afstöðu.

Bar Par er skrifað fyrir tvo leikara en hlutverkin eru fjórtán. "Það er vel hægt að hugsa sér að þessi fjórtán hlutverk séu leikin af jafn mörgum leikurum," segir Helga, "en það er hins vegar meira spennandi að hafa bara tvo; þá þurfa þeir að hoppa úr einu hlutverkinu í annað á svipstundu. Það krefst þó mikillar vinnu, tækni og einbeitingar að gera þetta með þessum hætti, svo ekki sé talað um snör handtök meðan á sýningunni stendur."

Leikararnir taka í sama streng en segjast engu að síður hafa æft verkið á hefðbundinn hátt. "Þetta hefur verið óskaplega skemmtilegt og við fáum úr miklu að moða. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að leika svona margar persónur í sömu uppfærslunni," segir Guðmundur.

Kjörinn vettvangur

Jón segir að Cartwright geri ráð fyrir lágmarks umgjörð: Tveimur stólum, borði og fábrotnum búningum og Saga bætir við að í raun sé hægt að færa leikritið upp hvar sem er. Veitingastofan hafi hins vegar verið kjörinn vettvangur.

Veitingastofan er í kjallara Borgarleikhússins og hefur ekki í annan tíma þjónað sem leiksvið. Stofunni var breytt úr kokteilbar í ölkrá af þessu tilefni og aðrar smávægilegar breytingar gerðar. Lárus Björnsson var síðan fenginn til að hanna lýsingu og þar með var ekkert að vanbúnaði.

Leikararnir una hag sínum vel í veitingastofunni og líta á það sem áskorun að bregða sér út úr hinu verndaða umhverfi leiksviðsins.

Fjórmenningarnir leggja áherslu á, að Bar Par sé leiksýning í fullri lengd þótt umgjörðin sé óhefðbundin. Veitingar verði á boðstólum á sýningum og ekki sé loku fyrir það skotið að kraftar áhorfenda verði virkjaðir í leiknum. Og Saga er með markmiðið á hreinu: "Þetta er umfram allt hugsað sem skemmtileg kvöldstund."

Morgunblaðið/Ásdís SAGA Jónsdóttir og Guðmundur Ólafsson skipta oftsinnis um ham í Bar Pari.