GUNNAR Olsen, stöðvarstjóri Flugleiða á Keflavíkurflugvelli segir ekki hafa borist í tal við Flugleiðir að til standi að hækka húsaleigu eða innritunargjöld í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær er rætt um að hækka húsaleiguna og innritunargjöld til að auka tekjur Flugstöðvarinnar,
Stöðvarstjóri Flugleiða um hugsanlega hækkun gjalda í Flugstöðinni Nóg um skattlagn-

ingu nú þegar

GUNNAR Olsen, stöðvarstjóri Flugleiða á Keflavíkurflugvelli segir ekki hafa borist í tal við Flugleiðir að til standi að hækka húsaleigu eða innritunargjöld í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær er rætt um að hækka húsaleiguna og innritunargjöld til að auka tekjur Flugstöðvarinnar, en 150 milljón króna tekjur vantar á ári til að hægt verði að greiða skuldir Flugstöðvarinnar á 25 árum.

Gunnar sagði í samtali við Morgunblaðið að þeir sem væru með rekstur í Flugstöðinni teldu leigu þar mjög háa nú þegar, en mismunandi leiga er greidd eftir því hvort um er að ræða skrifstofuhúsnæði, verslunarhúsnæði eða geymslur. Hvað innritunargjöldin varðar sagði Gunnar að menn teldu álögurnar í fluginu almennt vera nógar þó ekki væri verið að bæta við þær.

"Það eru svo mörg gjöld sem eru, og til dæmis er tiltölulega stutt síðan svokallað vopnaleitargjald kom, sem er 90 krónur á hvern einstakling. Innritunargjaldið er 5 dollarar og síðan allir þessir blessuðu brottfararskattar, há húsaleiga og hár rekstur. Mönnum finnst því nóg um skattlagninguna nú þegar á þessa atvinnugrein og ekki á það bætandi," sagði hann.

Flugstöðin sem slík stendur vel

Varðandi skuldir Flugstöðvarinnar sagði Gunnar það vera spurningu hvernig farið væri með þær tekjur sem mynduðust í henni, en þær væru meiri en nógar til að standa straum af kostnaði.

"Tekjurnar af Fríhöfninni, sem eru verulegar, og margfalt þetta 150 milljóna króna gat sem verið er að tala um, fara beint í ríkiskassann og ekkert til stuðnings við rekstur flugstöðvarinnar. Sama skilst mér eiga við um lendingargjöld, sem fara í allt annað en að halda uppi rekstrinum hérna á Keflavíkurflugvelli. Ef Flugstöðin sem slík fengi að njóta þeirra tekna sem þar myndast þá væri þetta gat ekki til staðar, en Flugstöðin sem eining stendur nokkuð vel án tillits til þess hvert aurarnir fara," sagði Gunnar.