HEILBRIGÐISNEFND Reykjavíkur hefur ákveðið að óska eftir rannsókn lögreglu á meintri ólöglegri förgun fyrirtækisins Hringrásar hf. á spilliefnum. Fyrirtækið er talið hafa ekið fjórum bílhlössum af menguðum jarðvegi af lóð sinni og losað á tippnum við Klettagarða.
Óska rann-

sóknar á

förgun

jarðvegs

HEILBRIGÐISNEFND Reykjavíkur hefur ákveðið að óska eftir rannsókn lögreglu á meintri ólöglegri förgun fyrirtækisins Hringrásar hf. á spilliefnum. Fyrirtækið er talið hafa ekið fjórum bílhlössum af menguðum jarðvegi af lóð sinni og losað á tippnum við Klettagarða.

Tryggvi Þórðarson, deildarstjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sagði í samtali við Morgunblaðið að forsvarsmenn Hringrásar hf. hefðu gefið þá skýringu á þessu, að drulla hefði safnast upp á vegi sem liggur á lóð fyrirtækisins. Því hefði um 10 sentimetra lag verið skafið ofan af veginum og því ekið í tippinn.

Jarðvegurinn er spilliefni

"Við lítum á jarðveginn á lóðinni sem spilliefni, sem beri að farga á viðeigandi hátt," sagði Tryggvi.

"Við höfum enga ástæðu til að rengja skýringu Hringrásar. Hins vegar hefðum við viljað vera með í ráðum um förgunina, þar sem jarðvegur á lóð fyrirtækisins er mjög mengaður. Tvær mælingar, sem gerðar hafa verið, hafa mælt þarna ýmsa þungmálma, eins og blý, PCB og klórefni í jarðveginum. Þá hefur verið rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins um hvernig megi best hindra að mengunin berist út af lóð fyrirtækisins, svo við erum ósáttir við þessa förgun."