SAMKOMULAG náðist ekki um lágmarksverð á hörpudiski á fundi Verðlagsráðs sjávarútvegsins á fimmtudag. Verð á hörpudiski er því frjálst og er það í fyrsta sinn sem svo háttar til að sögn Péturs Bjarnasonar formanns Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.
Verð á

hörpudiski

frjálst

SAMKOMULAG náðist ekki um lágmarksverð á hörpudiski á fundi Verðlagsráðs sjávarútvegsins á fimmtudag. Verð á hörpudiski er því frjálst og er það í fyrsta sinn sem svo háttar til að sögn Péturs Bjarnasonar formanns Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda. Hörpudiskurinn var síðasta tegundin sem háð var ákvörðun um lágmarksverð, þannig að nú er ekki í gildi lágmarksverð á neinni fisktegund hér við land.

Pétur sagði að verð á hörpudiski hefði lækkað umtalsvert frá áramótum, eða um 8%. Félagið sagði verðinu upp á dögunum, en samkomulag hefur ekki náðst um nýtt verð. "Við viljum gjarnan vera inni í verðlagsráði, en því miður náðist ekki samkomulag um nýtt verð. Staðan er því þannig að verðið er frjálst og menn verða að semja á hverjum stað," sagði Pétur. Hann sagði horfur ekki góðar í greininni. "Verðið hefur farið lækkandi undanfarið og það hefur líka gengið treglega að selja afurðir, þannig að í augnablikinu er ástandið ekki gott," sagði hann.