MORGUNBLAÐINU hefur borizt eftirfarandi athugasemd frá menntamálaráðuneytinu: "Á SÍÐUM Morgunblaðsins hafa á undanförnum dögum birst greinar eftir þá Karl Steinar Guðnason, forstjóra Tryggingastofnunar, og Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem þeir beina spjótum sínum að menntamálaráðuneytinu vegna greiðslna til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.

Um greiðslu til

talmeinafræðinga

Athugasemd

frá menntamálaráðuneytinu

MORGUNBLAÐINU hefur borizt eftirfarandi athugasemd frá menntamálaráðuneytinu:

"Á SÍÐUM Morgunblaðsins hafa á undanförnum dögum birst greinar eftir þá Karl Steinar Guðnason, forstjóra Tryggingastofnunar, og Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem þeir beina spjótum sínum að menntamálaráðuneytinu vegna greiðslna til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.

Tilefni greinanna er að menntamálaráðuneytið, sem hefur annast greiðslur vegna fatlaðra barna á leikskólum, tók upp nýtt greiðslufyrirkomulag 1. júlí síðastliðinn. Vegna þeirra athugasemda sem fram koma í greinum þeirra Karls Steinars og Þórðar er rétt að skýra málið nokkuð og rekja aðdraganda þess.

Menntamálaráðuneytið hefur á liðnum árum annast greiðslur vegna fatlaðra barna á leikskólum. Greiðslurnar hafa verið þríþættar: 1. Greiðslur til sveitarfélaga vegna fatlaðra barna á leikskólum. 2. Menntamálaráðuneytið hefur greitt laun eins talmeinafræðings sem hefur starfað hjá Dagvist barna í Reykjavík. 3. Greiðslur til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins.

Haustið 1994 hófst endurskoðun á því greiðslufyrirkomulagi sem gilt hafði frá 1984. Tilgangurinn með endurskoðuninni var að einfalda þær vinnureglur sem stuðst hafði verið við og laga þær að breyttum lögum en frá því að upphaflegu reglurnar voru settar hafði Alþingi sett ný lög um leikskóla og málefni fatlaðra. Reglurnar áttu einnig að ná yfir allar greiðslur sem ráðuneytið ber ábyrgð á vegna fatlaðra barna á leikskólum.

Endurskoðuninni var lokið nú á vordögum og tóku nýjar vinnureglur gildi 1. júlí. Samkvæmt þeim reglum fara allar greiðslur vegna fatlaðra barna á leikskólum til viðkomandi sveitarfélags sem ber ábyrgð á þjónustu við börnin sem rekstraraðili leikskóla. Þannig er það á ábyrgð sveitarfélagsins að veita börnunum þjónustu á leikskólum en menntamálaráðuneytisins að greiða sveitarfélaginu fyrir hluta af kostnaði við þá þjónustu. Samhliða útgáfu reglnanna voru Tryggingastofnun ríkisins og Félagi talkennara og talmeinafræðinga kynntar breytingarnar en þær fela m.a. í sér að menntamálaráðuneytið hættir að greiða sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar. Þess í stað mun ráðuneytið endurgreiða sveitarfélögum eða öðrum rekstraraðilum leikskóla kostnað að svo miklu leyti sem hann fellur undir hinar endurskoðuðu vinnureglur.

Strax frá upphafi var haft náið samráð við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga um alla þætti málsins, þar með talið þann þátt sem sneri að sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum og Tryggingastofnun ríkisins. Haldnir voru ófáir vinnufundir með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem aðilar skiptust á skoðunum. Fulltrúar Sambandsins höfðu yfirgripsmikla þekkingu á málinu, komu með fjölda ábendinga og var tekið tillit til margra þeirra. Málinu lauk síðan í vor með því að ágæt sátt ríkti milli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytisins um vinnureglurnar og málið í heild. Vinnureglurnar voru því gefnar út og farið að starfa eftir þeim frá 1. júlí.

Menntamálaráðuneytið hefur einnig látið kanna lagalegar skyldur sínar í þessu efni og telur, að sú skipan sem nú er í gildi samrýmist þeim betur en sú sem gilti til 1. júlí 1995. Séu hnökrar á framkvæmd þessara mála er ráðuneytið að sjálfsögðu reiðubúið að bæta úr þeim og áfram í góðri samvinnu við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga."