HINAR miklu vinsældir fyrstu bókar breska blaðamannsins Richards Harris, Föðurlands, gerðu honum kleift að láta af störfum sem dálkahöfundur og að festa kaup á glæsihýsi frá viktoríutímanum, skammt frá London. Vinsældirnar urðu honum hvatning til að halda skriftunum áfram og önnur skáldsaga hans, sem kom út fyrir skemmstu, hefur ekki valdið gagnrýnendum vonbrigðum.
Ráðgáta úr

stríðinu Breski rithöfundurinn og blaðamaðurinn

Robert Harris þykir hafa sannað hvað í honum býr með útkomu annarrar skáldsögu hans, Enigma" (Ráðgátu) HINAR miklu vin sældir fyrstu bókar breska blaðamannsins Richards Harris, Föðurlands, gerðu honum kleift að láta af störfum sem dálkahöfundur og að festa kaup á glæsihýsi frá viktoríutímanum, skammt frá London. Vinsældirnar urðu honum hvatning til að halda skriftunum áfram og önnur skáldsaga hans, sem kom út fyrir skemmstu, hefur ekki valdið gagnrýnendum vonbrigðum. Skáldsagan Föðurland er spennusaga sem byggist á því hvernig málin hefðu þróast í Evrópu ef Þýskaland hefði sigrað í heimsstyrjöldinni síðari. Harris skrifaði bókina vegna þess að hann vantaði fé til að greiða af húsnæðisláni sínu og hún vakti enga athygli. Enginn sá ástæðu til að taka viðtal við Harris áður en bókin kom út, enginn beið óþreyjufullur eftir útkomu hennar, nema ef vera skyldi Harris sjálfur. Hún kom út árið 1992 og seldist í yfir 4 milljónum eintaka um allan heim. Áður hafði Harris sent frá sér nokkrar fræðibækur Þegar önnur skáldsaga Harris, Enigma", kom út fyrr í haust var hann undir miklum þrýstingi vegna þeirra væntinga sem hún vakti, jafnvel áður en hann settist niður til að skrifa hana, segir í International Herald Tribune . Enigma" fjallar um breska leyniþjónustumenn sem reyna að leysa dulmálslykil Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari. Bókin kom út fyrir skömmu og nú getur Harris andað léttar, því gagnrýnendur hafa lokið lofsorði á hana. Hann stóðst þá prófraun sem önnur skáldsagan hefur reynst þeim sem slá í gegn með fyrsta verki sínu. Fleiri en einn gagnrýnandi sagði Harris skrifa í anda breskra spennusagnameistara á borð við Eric Ambler, Len Deighton, John Buchan og John le Carré (en Harris hefur gert samning um að skrifa ævisögu þess síðastnefnda). Enigma" trónir nú á toppi breska sölulistans. Harris hefur sett saman sögu sem er eins mannleg, vitræn og grípandi og nokkur heimildarskáldsaga getur verið," sagði í The Financial Times og í The Times of London sagði að bókin væri í heild úrvalsefni". Jenkins lávarður, fyrrum ráðherra Verkamannaflokksins, sem glímdi við dulmálslykla Þjóðverja í stríðinu, er einn þeirra sem hrósar bókinni í hástert og segir hana svo grípandi að honum hafi fundist að ýmislegt hefði farið fram hjá honum í Bletchley Park, sögusviði sögunnar. Fjölmargar skáldsögur hafa verið látnar gerast í Bletchley á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá því að hulunni var svipt af staðnum. Sjálfur segist Harris hafa hrifist af tilrauninni til að leysa dulmálslykla, leitinni að skilaboðum í texta sem virðist í fyrstu glórulaus. Þetta leiddi hann fljótlega að eftirlætistímabili hans í sögunni, heimsstyrjöldinni síðar. Um miðjan síðasta áratug kom út bók eftir hann sem nokkra athygli vakti, Selling Hitler", en hún fjallaði um falsaðar dagbækur Hitlers. Í fyrstu var það ekki ætlun Harris að bókin Föðurland yrði skáldsaga en breyting varð á fyrirætlunum hans árið 1987 er Harris var í fríi á Sikiley. Þar var mikið af þýskum ferðamönnum og ef maður lokaði augunum gat maður vel ímyndað sér að maður væri staddur í illu heimsveldi Þýskalands. Skyndilega datt mér í hug að skrifa skáldsögu um slíkt ríki og hugmyndirnar hrönnuðust upp, um yfirhylmingar, dauða og rannsókn á honum. Ég skellti mér út í sjóinn, buslaði stundarkorn og þegar ég kom aftur upp á strönd var hugmyndin nær fullmótuð í huga mínum." Skáldsagnaritunin snúin Næsta skref var ekki eins einfalt. Harris hafði starfað sem frétta- og blaðamaður hjá BBC, The Observer og The Sunday Times í yfir áratug og honum reyndist allt annað en auðvelt að fara að skrifa skáldskap. Það sem mestu máli skiptir í blaðamennsku, skýrleiki og einfaldleiki, svo dæmi séu tekin, eru óvinir spennusagnaritunarinnar, þar sem tungumálið er notað til að leiða menn á villugötur," segir hann. En hrifning hans á heimsstyrjöldinni, sem ef til vill nálgaðist þráhyggju, hélt honum við efnið. Þetta var tími svo miklu meiri atburða en við þekkjum nú. Mörgum af minni kynslóð finnst eins og ekkert hafi gerst, að við höfum ekki gengið í gegnum neina prófraun. Þegar fólk spyr mig hvers vegna ég sé svo heillaður af þessu tímabili, spyr ég á móti, hvers vegna eruð þið það ekki?" Þýskir bókaútgefendur létu sér ekki segjast er Harris sýndi þeim handritið og fóru margir óvægnum orðum um ritsmíð hans. Sögðu hana hneyksli sem þeir vildu ekki tengjast á nokkurn hátt. Alls neituðu 25 útgáfur að gefa bókina Föðurland út. Að endingu fékkst hún útgefin á þýsku í Sviss og um 200.000 eintök hafa selst af henni í Þýskalandi. Heldur sig við stríðið Harris hefur ekki sagt skilið við stríðið. Enigma" (Ráðgáta) var nafnið á dulmálslyklum Þjóðverja og lagði Harris á sig mikla undirbúningsvinnu fyrir bókina. Hann kynnti sér sögu stríðsins á Atlantshafi, sérstaklega sem tengdist kafbátum Þjóðverja, og ræddi við fjölmarga sem unnið höfðu í Bletchley í upphafi fimmta áratugarins. Þá þurfti Harris að glíma við þá flóknu stærðfræði sem liggur að baki lausn á dulmálslyklum. Hann komst m.a. að því að árið 1943 hefðu um 6.000 manns starfað hjá leyniþjónustunni í Bletchley, en þeir sem unnu að dulmálslyklunum voru aðallega breskir fræðimenn og erlendir starfsbræður þeirra sem voru flóttamenn í landinu, sem nutu aðstoðar ungra hástéttarkvenna sem vandlega höfðu verið valdar. Hópurinn komst oft að mikilvægum upplýsingum sem Bretar þorðu ekki að nota af ótta við að þá myndu Þjóðverjar uppgötva að þeir hefðu ráðið dulmálslykilinn. Þegar Harris hafði kynnt sér hvað raunverulega hafði átt sér stað í Bletchley skrifaði hann bókina um Tom Jericho, ungan og bráðsnjallan stærðfræðing sem hnígur niður af ofþreytu eftir að honum tekst að ráða mikilvægan lykil og sem er kallaður til að nýju eftir að dulmálslyklunum fyrir kafbáta Þjóðverja er breytt. Spennan magnast þegar stór skipalest heldur frá Bandaríkjunum yfir Atlantshafið og Jericho kemst að þeirri niðurstöðu að njósnari sé á meðal starfsmannanna í Bletchley. Sögufléttan er algert aðalatriði í huga Harris. Ég tel að þegar maður skrifar spennusögu hafi maður gert samning við lesandann á fyrstu síðu. Maður reynir að halda athygli hans út bókina og koma honum á óvart ... Mér finnst að skáldsaga þar sem ekki er skýr söguþráður sé eins og að eiga bíl og rækta blóm í honum." ROBERT Harris er heillaður af heimsstyrjöldinni síðari. Við hlið hans er vél sem nasistar notuðu við dulmálslykla sína.