SVANFRÍÐUR Jónasdóttir, alþingismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. nóvember sl. og ræðir félagslega húsnæðiskerfið. Ég efast ekki um góðan hug höfundar, en finnst greinin kalla á andsvör vegna vanþekkingar, sem þar birtist, á framkvæmd þessa kerfis og á kjörum fólks yfirleitt. Sú vanþekking er furðu algeng meðal ráðamanna, ekki síst meðal þingmanna og sumra verkalýðsforingja.

Bréf til

Svanfríðar

Sú vanþekking er furðu algeng, segir Jón frá Pálmholti , ekki síst meðal þingmanna og verkalýðsforingja.

SVANFRÍÐUR Jónasdóttir, alþingismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. nóvember sl. og ræðir félagslega húsnæðiskerfið. Ég efast ekki um góðan hug höfundar, en finnst greinin kalla á andsvör vegna vanþekkingar, sem þar birtist, á framkvæmd þessa kerfis og á kjörum fólks yfirleitt. Sú vanþekking er furðu algeng meðal ráðamanna, ekki síst meðal þingmanna og sumra verkalýðsforingja.

Vissulega fullnægði þetta kerfi "íbúðaþörf ýmissa hópa" á sínum tíma, en þjóðfélagið hefur breyst, Svanfríður, og kjör fólksins hafa breyst, en húsnæðiskerfið ekki sem því svarar. Það er t.d. rétt að sveitarstjórnir hafa "notað kerfið til að halda uppi atvinnu fyrir verktaka á staðnum". Og það er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni, hvað þetta varðar, ef ekkert er gert og engu breytt. Þess vegna hafa ég og fleiri barist fyrir uppstokkun húsnæðiskerfisins og mótun nýrrar stefnu sem tekur mið af kjörum fólksins og aðstæðum í þjóðfélaginu. Húsnæðisstefna sem miðast við annað en úrlausnir í húsnæðismálum er röng stefna. Sú tíð er liðin, Svanfríður, að húsnæði sé það eina sem fólk getur átt og að þannig ávaxti fólk best fémuni sína. Á borðinu hjá mér liggja 6 skýrslur um skuldir heimilanna og hvað kosta þessa skuldir beint og óbeint?

Það er rangt, Svanfríður, að umfjöllunin hafi borið meiri svip af upphrópunum en gagnrýnni hugsun, að dagar kerfisins hafi verið taldir án þess að spurt væri um galla og kosti, og að umfjöllunin sem slík hafi grafið undan kerfinu. Og það er einnig rangt að málið snúist um 60 íbúðir á Vestfjörðum. Þeir sem þannig tala vita ekkert hvað þeir eru að segja. Hér liggur skrá yfir 11 íbúðir frá Húsnæðisnefnd Rvk og eru til leigu. Leigan er 40­60 þús. kr. á mánuði. Hver var að tala um húsnæði fyrir láglaunafólk? Það er einmitt eignaþátturinn sem er meginástæða vandans. Til hans má rekja skuldasöfnunina, kaupsýsluna, uppgjörsklúðrið og endurfjármögnunina. Og hvað á það fólk að gera sem ekki stenst greiðslumat? Ég hef aldrei fengið svör við því.

Ég hef lagt til að eignaríbúðunum verði breytt í búsetuíbúðir og kaupleiguíbúðunum í leiguíbúðir. Þá myndu menn losna að mestu við áðurnefndan vanda. Tíu prósent útborgun er mörgum ofviða, Svanfríður. Þá verður að sameina húsaleigubætur og vaxtabætur í eitt húsnæðisbótakerfi svo fólk ráði við greiðslurnar.

Höfundur er formaður leigjendasamtakanna.

Jón Kjartansson frá Pálmholti