TUGIR þúsunda kvenna í Bretlandi hafa haft samband við heimilislækna sína og heilsugæslustöðvar eftir að tilkynnt var að sjö gerðir af getnaðarvarnapillum gætu reynst hættulegar heilsu þeirra. Maður, sem vann að rannsókn á pillunum, hefur þó gagnrýnt tilkynninguna harðlega og segir hættuna stórýkta. Reynir T.
Varað við sjö gerðum

af getnaðarvarnapillum

Prófessor á kvennadeild Landspítalans segist taka fréttunum með varúð

TUGIR þúsunda kvenna í Bretlandi hafa haft samband við heimilislækna sína og heilsugæslustöðvar eftir að tilkynnt var að sjö gerðir af getnaðarvarnapillum gætu reynst hættulegar heilsu þeirra. Maður, sem vann að rannsókn á pillunum, hefur þó gagnrýnt tilkynninguna harðlega og segir hættuna stórýkta.

Reynir T. Geirsson, prófessor á kvennadeild Landspítalans, segist taka þessum fregnum með ákveðinni varúð og kveðst muni bíða eftir að rannsóknaniðurstöður, sem vitnað var til, verði birtar og umræðum fagfólks um þær.

Niðurstöður ekki birtar

Opinber nefnd í Bretlandi tilkynnti á fimmtudag og vitnaði í skýrslu, sem ekki hefur verið birt, að sjö gerðir af getnaðarvarnapillum gætu verið hættulegar heilsunni og réð konum að hætta notkun þeirra. Var sagt, að þær ykju líkur á blóðtappa um helming.

Umræddar gerðir eru Femodene, Femodene ED, Minulet, Tri-Minulet, Triadene, Marvelon og Mercilon.

Walter Spitzer, einn vísindamannanna sem unnu að rannsókninni, hraðaði sér heim frá Kanada þegar hann frétti af tilkynningunni og kvaðst vera æfur yfir því hvernig starf hans í fimm ár hefði verið misnotað. Sagðist hann telja litla hættu fylgja notkun pillnanna.

Konur í áhættuhópum

Reynir T. Geirsson segir konur sem eru feitlagnar, reykja eða eru með æðahnúta í mestri hættu að fá blóðtappa. Hann telur ráðlegt fyrir konur, sem hafa þessa áhættuþætti og nota lyf af umræddum tegundum, að skipta yfir í aðra pillutegund í upphafi næsta tíðahrings. Ungar og hraustar konur, sem þola þessar getnaðarvarnatöflur vel, ættu að bíða með að skipta um pillutegund meðan málin eru að skýrast.

Reynir bendir á að sú áhætta sem hér um ræðir sé í raun lítil eða af stærðargráðunni sex konur af hverjum 100 þúsund. Þótt áhætta tvöfaldist verði hún 12 konur af hverjum 100 þúsund. Þannig megi ætla að líklegra sé að kona lendi í árekstri í umferðinni en að hún fái blóðtappa af notkun getnaðarvarnarlyfja.

Framleiðendur mótmæla

Þrír framleiðendur getnaðaravarnarpilla hafa harðlega mótmælt túlkun enskra heilbrigðisyfirvalda á upplýsingum um umræddar rannsóknir. Þeir benda á að rannsóknaniðurstöður hafi enn ekki verið birtar. Fjölmiðlaumfjöllun um þetta mál hafi valdið fjölda fólks óþarfa áhyggjum og ótta.

Danski sérfræðingurinn Öjvind Lidegaard, sem nýtur mikillar virðingar fyrir rannsóknir sínar á getnaðarvarnarpillum, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þessa máls. Hann telur yfirlýsingu enskra heilbrigðisyfirvalda ganga of langt og ástæðulaust fyrir Dani að hætta að ávísa á pillur með litlu östrógeninnihaldi.