KARDEMOMMUBÆRINN er vinsælasta barnaleikritið í sögu Þjóðleikhússins en verkið hefur fjórum sinnum áður verið sett upp þar á bæ: 1959, 1965, 1974 og 1984. Hafa 128 þúsund gestir sótt sýningarnar, sem er aðsóknarmet, en þær eru orðnar 233 talsins.
Óvenju lengi í embætti

KARDEMOMMUBÆRINN er vinsælasta barnaleikritið í sögu Þjóðleikhússins en verkið hefur fjórum sinnum áður verið sett upp þar á bæ: 1959, 1965, 1974 og 1984. Hafa 128 þúsund gestir sótt sýningarnar, sem er aðsóknarmet, en þær eru orðnar 233 talsins.

Leikstjóri í fjórum fyrstu uppfærslunum var Klemenz Jónsson og hann er ekki langt undan að þessu sinni þar sem nýi leikstjórinn, Kolbrún Halldórsdóttir, fékk hann til liðs við sýninguna sem listrænan ráðunaut. "Það er mjög mikilvægt að geta leitað til Klemenzar en hann átti stóran þátt í að skapa þennan heim á sínum tíma, í mikilli þökk Thorbjørns Egners," segir Kolbrún.

Fjölmargir leikarar hafa tekið þátt í leiknum í gegnum tíðina og margir oftar en einu sinni. Róbert Arnfinnsson slær þó öllum við en hann fer nú í föt Bastíans bæjarfógeta í fjórða sinn. Uppfærslan sem Róbert missti af var árið 1974 en þá var hann við störf erlendis. "Það er alltaf jafn gaman að ganga inn í gamla starfið enda er andrúmsloftið í Kardemommubæ alltaf eins. Það verður hins vegar að viðurkennast að menn sitja venjulega ekki svona lengi í embætti," segir Róbert.

Emilía Jónasdóttir túlkaði Soffíu frænku á eftirminnilegan hátt í tveimur fyrstu uppfærslunum. Heillaði hún meðal annars höfundinn svo rækilega upp úr skónum, þegar Þjóðleikhúsið bauð honum á sýningu árið 1960, að hann breytti teikningum sínum af persónunni lítillega með hliðsjón af túlkun Emilíu. Guðrún Stephensen og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir fetuðu í fótspor Emilíu 1974 og 1984 og nú er röðin komin að Ólafíu Hrönn Jónsdóttur.

Þrír leikið Tobías

Þrír ástsælir leikarar hafa skipt hlutverki Tobíasar gamla á milli sín. Jón Aðils reið á vaðið, Árni Tryggvason kom næstur, þá endurtók Jón leikinn, árið 1974 brá Baldvin Halldórsson sér upp í turninn og nú rifjar Árni upp gömul kynni af öldunginum geðþekka.

Hlutverk ræningjanna þriggja voru í fyrstu tvö skiptin í höndum Ævars Kvarans (Kasper), Baldvins Halldórssonar (Jesper) og Bessa Bjarnasonar (Jónatan). Bessi var einnig með í þriðju uppfærslunni en þá skipti hann um ham og varð Kasper. Randver Þorláksson brá sér þá í gervi Jespers og Þórhallur Sigurðsson var Jónatan. Í síðustu uppfærslu hélt Randver sínu striki en Pálmi Gestsson var þá kominn í hlutverk Kaspers og Örn Árnason í hlutverk Jónatans. Að þessu sinni er Pálmi áfram Kasper, Örn spreytir sig á Jesper og Hjálmar Hjálmarsson leikur Jónatan.

Aðrir leikendur að þessu sinni eru Anna Kristín Arngrímsdóttir, Magnús Ragnarsson, Hinrik Ólafsson, Kristján Franklín Magnús, Benedikt Erlingsson, Sveinn Þ. Geirsson, Bergur Þór Ingólfsson og Agnes Kristjónsdóttir. Ennfremur Guðbjörg Helga Jóhannsdóttir, Þorvaldur Kristjánsson, Jónas Óskar Magnússon, Þorgeir Arason og fjöldi annarra barna, unglinga og hljóðfæraleikara.