WILLY Claes sagði í gær af sér sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) eftir að þing Belgíu ákvað að svipta hann þinghelgi vegna meintrar aðildar að spillingarmáli. Þetta er í fyrsta sinn í 46 ára sögu bandalagsins sem æðsti embættismaður þess neyðist til að segja af sér.
Claes segir af sér vegna meintrar aðildar að spillingarmáli Fyrsti leiðtogi NATO

er neyðist til afsagnar

Brussel. Reuter, The Daily Telegraph.

WILLY Claes sagði í gær af sér sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) eftir að þing Belgíu ákvað að svipta hann þinghelgi vegna meintrar aðildar að spillingarmáli. Þetta er í fyrsta sinn í 46 ára sögu bandalagsins sem æðsti embættismaður þess neyðist til að segja af sér. Uffe Ellemann- Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, kvaðst gefa kost á sér sem eftirmaður Claes og danska stjórnin sagði hann koma til greina í embættið. Auk hans eru Ruud Lubbers, fyrrverandi forsætisráðherra Hollands, og Hans van den Broek, sem fer með utanríkismál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, taldir líklegir til að verða fyrir valinu.

Willy Claes tilkynnti afsögn sína á blaðamannafundi í Brussel rúmu ári eftir að hann tók við embættinu. Hann kvaðst saklaus af sakargiftunum og sakaði fjölmiðla og pólitíska andstæðinga sína um "pólitískt morð", auk þess sem hann gagnrýndi belgísku stjórnarskrána.

Talsmaður Bandaríkjaforseta sagði að Claes yrði saknað, enda hefði hann reynst "mikilhæfur leiðtogi" á mikilvægu tímabili í sögu Atlantshafsbandalagsins. Embættismenn NATO sögðu þó að óhjákvæmilegt hefði verið að Claes færi frá eftir að þingið svipti hann þinghelgi.

Eftirmaður valinn um helgina?

Bandalagið býr sig nú undir að senda 60.000 hermenn til friðargæslu í Bosníu, sem yrði viðamesta hernaðaraðgerð í sögu bandalagsins. Framkvæmdastjórinn verður skipaður til fimm ára og talið er að á þeim tíma verði meiri breytingar á bandalaginu en í öll þau 46 ár sem liðin eru frá stofnun þess.

Aðildarríkin vilja ákveða sem fyrst hver taki við embættinu og hugsanlega verður það gert um helgina, þegar utanríkisráðherrar ríkjanna koma saman í New York í tilefni af 50 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna.

Simon Lunn, varaforseti þingmannasamkundu NATO, kvaðst telja Uffe Ellemann-Jensen líklegastan til að hreppa embættið, þrátt fyrir reiði Frakka í garð Norðurlanda vegna gagnrýninnar á kjarnorkutilraunir þeirra.

Lubbers, sem er einnig talinn líklegur eftirmaður Claes, er sagður hafa skapað sér óvild Helmuts Kohls, kanslara Þýskalands. Hermt er að Kohl hafi aldrei fyrirgefið honum að hafa lagst gegn sameiningu Þýskalands eftir hrun Berlínarmúrsins. Líklegt þykir að Hans van den Broek sækist ekki eftir embættinu ef Lubbers gefur kost á sér.Sakar andstæðinga sína/20 Claes

Lubbers

Ellemann

V.d. Broek