ÍSLAND er eitt fárra landa í heiminum sem eru með hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Japan," segir nýr sendiherra Japans hér á landi, Tadayuki Nonoyama, en hann hefur aðsetur í Ósló. Hann segist telja að viðskiptin muni áfram verða blómleg, Japanar flytji æ meira inn af ferskum fiski frá Íslandi og telji hann mikla gæðavöru. Einnig séu vaxandi tækifæri í ferðaþjónustu hér.
Nonoyama, nýr sendiherra Japans á Íslandi, í heimsókn Japansmarkaður

ekki lokaður öðrum

ÍSLAND er eitt fárra landa í heiminum sem eru með hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Japan," segir nýr sendiherra Japans hér á landi, Tadayuki Nonoyama, en hann hefur aðsetur í Ósló. Hann segist telja að viðskiptin muni áfram verða blómleg, Japanar flytji æ meira inn af ferskum fiski frá Íslandi og telji hann mikla gæðavöru. Einnig séu vaxandi tækifæri í ferðaþjónustu hér.

Nonoyama sendiherra afhenti forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, trúnaðarbréf sitt í vikunni og hefur átt viðræður við hérlenda ráðamenn í stjórnmálum og viðskiptalífi. Hann er 62 ára gamall lögfræðingur og hlaut menntun sína í Japan, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nonoyama tók við embætti sendiherra lands síns í Noregi í júní sl.

Nonoyama sagði viðskipti og samskipti þjóðanna á mörgum sviðum fara stöðugt vaxandi. Hann minnti á gagnkvæmar heimsóknir einstaklinga í menningar- og viðskiptalífi og jafnframt að forseti Íslands hefði heimsótt Japan fjórum sinnum og væri væntanlegur þangað næsta vor. Nokkrir Íslendingar stunduðu nú nám við japanska háskóla. Samstarf væri í rannsóknum í jarðhitafræðum og fleiri skyldum vísindagreinum enda aðstæður um margt líkar í löndunum tveim þótt langt væri á milli og munurinn á fólksfjölda mikill.

Ísland nýr áfangastaður?

Aðspurður um horfur á fjölgun japanskra ferðamanna til Íslands sagði sendiherrann að 10 milljónir Japana færu til útlanda ár hvert. Þeir reyndu nú margir að finna nýja staði til að heimsækja. "Ég er sannfærður um Ísland gæti laðað að sér marga slíka ferðamenn en ég held að ekki sé mikið um þá enn þá hér. Japanar, búsettir í Evrópu, eru hins vegar alltíðir gestir hér. Ferðmennirnir myndu að sjálfsögðu hrífast af hlýju og gestrisni íbúanna, einnig jöklunum, mér skilst auk þess að hér sé auðugt fuglalíf.

Japanskir ferðamenn eru reyndar ekki eingöngu áhugasamir um landslag og þess háttar, þeir vilja einnig fræðast um fólkið og sögu þess. Þið eruð afkomendur víkinga og það vekur áhuga."

Er spurt var hvort staða Íslands utan Evrópusambandsins hefði einhver áhrif á viðskipti landanna sagði sendiherrann það ekki skipta máli, Japanar legðu alþjóðlegar reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, til grundvallar í öllum sínum viðskiptum við önnur lönd.

Minnt var á kvartanir Bandaríkjanna sem segja að japanskt samfélag sé svo lokað að erfitt sé að komast inn á markað þar. "Þegar Bandaríkjamenn segja að Japansmarkaður sé lokaður merkir það að þeim gangi ekki vel þar, takist ekki að brjótast inn á markaðinn þar . . . Íslendingar selja mikið af sjávarafurðum á Japansmarkaði og það finnst mér sýna að hann sé ekki lokaður heldur mjög opinn."

Japanar hafa átt við ýmiss konar efnahagsvanda að stríða síðustu árin. "Síðustu 40 árin hefur okkur gengið mjög vel en nú hefur skyndilega slegið í bakseglin. Í japanskri sögu eru mörg dæmi um þung áföll og efnahagslega erfiðleika en okkur hefur tekist að leysa vandann.

Munurinn er sá að minni hyggju að áður var fremur um innanlandsvanda að ræða, sem eingöngu kom niður á Japönum. Nú hefur efnahagslegur máttur okkar vaxið svo mjög að okkar eigin vandkvæði hafa slæm áhrif á efnahagsmál út um allan heim. Það er ný reynsla fyrir okkur."

Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson TADAYUKI Nonoyama, sendiherra Japans á Íslandi.