ÍSLENZKA sendinefndin á fundi Norður-Atlantshafsþingsins, þingmannasamtaka aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, lagði á það áherzlu á fundi þingsins í Tórínó fyrir skömmu að áfram yrði lögð áherzla á að viðhalda samstarfinu yfir Atlantshafið og að áfram yrði virk þátttaka Bandaríkjanna í vörnum Evrópu tryggð.
Norður-Atlantshafsþingið N-Ameríka taki áfram þátt í vörnum

ÍSLENZKA sendinefndin á fundi Norður-Atlantshafsþingsins, þingmannasamtaka aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, lagði á það áherzlu á fundi þingsins í Tórínó fyrir skömmu að áfram yrði lögð áherzla á að viðhalda samstarfinu yfir Atlantshafið og að áfram yrði virk þátttaka Bandaríkjanna í vörnum Evrópu tryggð.

Í lokaályktun þingsins segir að að virk þátttaka Norður-Ameríku í öryggis- og varnarmálum sé enn nauðsynleg fyrir öryggi og stöðugleika í álfunni. Hugmyndum um eflingu sjálfstæðs varnarmáttar Evrópuríkja, á vettvangi Vestur- Evrópusambandsins eða Evrópusambandsins, er fagnað, enda verði slík þróun til þess að efla NATO en komi ekki í stað bandalagsins.

Í áskorun þingsins til ríkisstjórna aðildarríkja NATO eru þær meðal annars hvattar til þess að hefjast handa við stækkun bandalagsins til austurs án tafar; efla og stofnanabinda samskipti Vestur-Evrópusambandsins og Evrópusambandsins við NATO, meðal annars til að tryggja þátttöku Bandaríkjanna og Kanada í öryggismálum Evrópu; og koma á fót nánu samstarfi við Rússland og Úkraínu á sviði öryggismála.

Sólveig varaformaður

Sólveig Pétursdóttir alþingismaður, sem situr í stjórnarnefnd Norður-Atlantshafsþingsins, var á fundinum kjörin varaformaður sérstakrar nefndar um evrópskar stofnanir, stofnanir sem ríki beggja vegna Atlantshafsins eiga aðild að og um Suðursvæðið. Jón Kristjánsson tók sæti í sérstökum vinnuhópi um öryggismál á norðurslóðum. Auk þeirra tveggja skipuðu sendinefnd Íslands þingmennirnir Árni Ragnar Árnason og Gunnlaugur Sigmundsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, alþjóðaritara Alþingis.

Sólveig Pétursdóttir