UNGLINGSÁRIN er okkur flestum minnisstæð sem mikilvæg mótunarár og jafnframt tímabil mikilla tilfinningasveiflna. Flest eigum við ljúfsárar minningar frá þessum árum um fyrstu ástina, sjálfstæðisbröltið o.s.frv. Þetta viðkvæma aldursskeið getur þó reynst mörgum erfitt, ekki síst þeim er höllum fæti standa. Tilveran verður stöðugt flóknari og margvíslegar freistingar á veginum.

Þjónusta við unglinga

og fjölskyldur

Félagsmálastofnun rekur umfangsmikla þjónustu fyrir unglinga og fjölskyldur, segir Snjólaug Stefánsdóttir, sem hér gerir grein fyrir þeim þætti stofnunarinnar.

UNGLINGSÁRIN er okkur flestum minnisstæð sem mikilvæg mótunarár og jafnframt tímabil mikilla tilfinningasveiflna. Flest eigum við ljúfsárar minningar frá þessum árum um fyrstu ástina, sjálfstæðisbröltið o.s.frv. Þetta viðkvæma aldursskeið getur þó reynst mörgum erfitt, ekki síst þeim er höllum fæti standa. Tilveran verður stöðugt flóknari og margvíslegar freistingar á veginum.

Félagsmálastofnun hefur um árabil rekið nokkuð umfangsmikla þjónustu fyrir unglinga og fjölskyldur þeirra og verða henni gerð nokkur skil hér í tilefni af opnum degi Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Eðli málsins samkvæmt miðast þjónusta Félagsmálastofnunar við þá sem eiga í vanda og það gildir einnig um unglingamálin.

Á vegum Unglingadeildar er rekin þjónusta sem hefur það að markmiði að aðstoða unglinga 13-18 ára og fjölskyldur þeirra við lausn þess vanda sem við er að glíma hverju sinni. Verður nú í stuttu máli gerð grein fyrir þjónustu Unglingadeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar sem skiptist í eftirfarandi deildir:

Meðferðar- og ráðgjafardeild

Til meðferðar- og ráðgjafardeildar er vísað málum unglinga sem eiga í umtalsverðum erfiðleikum. Það er t.d. þegar unglingur er viðriðinn afbrot, notar áfengi eða aðra vímugjafa, á í alvarlegum hegðunarerfiðleikum í skóla, býr við erfiðar fjölskylduaðstæður, hefur verið beittur ofbeldi eða verið vanræktur.

Markmiðið er að styðja og aðstoða unglinginn og fjölskylduna við að leysa vandann og bjóða þá aðstoð sem hentar viðkomandi í náinni samvinnu við alla fjölskyldumeðlimi. Það er gert m.a. með:

Fjölskylduviðtölum, meðferð og sálfræðiaðstoð eða með því að vísa á aðra sérfræðinga á því sviði.

Ráðningu tilsjónarmanns, sem er starfsmaður sem ætlað er að styðja við ungling sem stendur höllum fæti, t.d. vegna einsemdar, lélegrar mætingar í skóla, vegna skorts á jákvæðri fyrirmynd o.fl.

Hópastarfi fyrir unglinga og/eða hópfræðslu fyrir foreldra.

Vistun utan heimilis ef vandi unglingsins eða fjölskyldunnar er þess eðlis að vímuefnameðferð, rannsóknarvistun eða meðferðarvistun er talin gagnlegust. Lögð er mikil áhersla á að leysa vandann án vistunar utan heimilis.

Þegar börn/unglingar eru fóstruð utan heimilis til lengri tíma er farið með slík mál samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992.

Útideild

Sinnir leitar- og vettvangsstarfi meðal reykvískra unglinga og felst starfsemin í að:

Fara á þá staði sem unglingarnir safnast helst saman á, t.d. á leiktækjasali, og í söluturna, þeir fara í miðbæinn um helgar og víðar. Starfsmenn leggja áherslu á að kynnast unglingum sem eiga í erfiðleikum bæði vegna hegðunar sinnar svo sem óreglu, útstáelsis o.fl. eða þeim sem eru fórnarlömb aðstæðna t.d. lögð í einelti, beitt ofbeldi o.fl.

Starfsmenn leiðbeini og aðstoði unglinga við úrlausn þess vanda sem þau eiga í, bæði með viðtölum í Útideild eða á vettvangi eða vísa þeim í úrræði sem við eiga.

Starfsmenn hafa umsjón með afbrotamálum unglinga og eru m.a. viðstaddir yfirheyrslur með unglingum hjá lögreglu og hafa m.a. verið með hópastarf fyrir unglinga sem gerst hafa brotlegir við lög.

Í húsakynnum Útideildar hefur verið starfrækt neyðarmóttaka í samstarfi við Íþrótta- og tómstundaráð á föstudagsnóttum og þangað eru fluttir unglingar sem eru yngri en 16 ára og seint á ferli og illa á sig komnir. Er foreldrum þeirra gert viðvart og þeir beðnir að vitja þeirra.

Útideild hefur starfrækt margvíslegt hópastarf og má þar nefna bifhjólaklúbb sem verið hefur til húsa í Tryggvagötu en verður í framtíðinni rekinn í samstarfi við Íþrótta- og tómstundaráð á Vagnhöfða. Þá er hópastarf fyrir unglingsstúlkur nokkuð fastur liður í starfsemi deildarinnar.

Unglingaathvörf

Í dag eru starfrækt tvö unglingaathvörf. Starfsemin er ætluð unglingum sem eiga í félagslegum erfiðleikum, þó fyrst og fremst þeim sem eiga erfitt í samskiptum við jafnaldra, eru einmanna og/eða lagðir í einelti. Starfandi eru tveir hópar hverju sinni á hvorum stað, meðferðarhópur og útskriftarhópur. Starfsemin fer fram þrjú kvöld vikunnar fyrir meðferðarhópana en útskriftarhóparnir koma í athvörfin einu sinni í viku.

Starfsemin er blanda af tómstunda- og meðferðarstarfi, þannig fá unglingarnir þjálfun í mannlegum samskiptum, þeir fá aðstoð við að leysa mál er upp koma og tjá sig í hópi. Mikil áhersla er lögð á að styrkja sjálfsöryggi og stuðlað að jákvæðri sjálfsmynd unglinganna. Í því sambandi er m.a. lögð rækt við uppbyggilegar tómstundir t.d. fer hópurinn saman á skíði, á hestbak, í hjólreiðatúra, tekið þátt í íþróttum og ýmsum listviðburðum. Blaðaútgáfa er fastur liður í starfseminni og árlega er gefið út unglingablaðið Dúndur sem er m.a. liður í fjáröflun unglingaathvarfanna fyrir sumarferð innanlands eða utanlands.

Fjölskylduheimili

Á vegum Unglingadeildar er starfrækt eitt fjölskylduheimili fyrir unglinga á aldrinum 13-17 ára. Heimilið er rekið af hjónum sem búa á staðnum og veita 4 - 5 unglingum heimili, tímabundið eða til lengri tíma, eftir því sem við á. Markmiðið er þó oftast það að unglingurinn geti snúið heim að lokinni dvöl á fjölskylduheimilinu, enda hafi þá fjölskyldan fengið aðstoð við að takast á við þá erfiðleika sem við er að eiga. Heimilið er ætlað unglingum sem búa við erfiðar heimilisaðstæður, t.d. vegna veikinda foreldra, mikilla samskiptaerfiðleika á heimili, alvarlegrar óreglu og/eða vanrækslu.

Unglingasambýli

Tvö lítil sambýli fyrir unglinga 16 - 18 ára eru starfrækt á vegum Unglingadeildar. Með unglingunum býr starfsmaður, sem er þeim til stuðnings og aðstoðar. Tveir unglingar búa á hverju sambýli. Sambýlin eru fyrir unglinga sem af ýmsum ástæðum geta ekki búið heima hjá aðstandendum en eru í skóla eða vinnu og eiga erfitt sökum aldurs og aðstæðna að standa á eigin fótum einir og óstuddir. Íbúar sambýlanna borga leigu, og annað sem fylgir því að búa sjálfstætt. Starfsmenn meðferðar- og ráðgjafadeildar hafa milligöngu um dvöl ungmenna á sambýlunum og gefa jafnframt nánari upplýsingar um starfsemina.

Hópastarf

Á liðnum árum hefur verið í boði margvíslegt hópastarf sem liður í þjónustu og fyrirbyggjandi starfi fyrir unglinga og foreldra. Í boði hefur t.d. verið fræðsla og stuðningur fyrir foreldrahópa um mál er varða uppeldi á "erfiðum" unglingum. Hópastarf fyrir ungar mæður o.fl.

Starfræktur hefur verið svokallaður Hálendishópur í samstarfi unglingadeildar og Íþrótta- og tómstundaráðs í nokkur ár. Starfið felst í því að þrír þrautþjálfaðir starfsmenn fara með níu unglinga sem eiga sögu um umtalsverða erfiðleika í 15 daga göngu norður á Strandir. Í tengslum við gönguna er umtalsverður undirbúningur og frágangur og tengjast unglingarnir þessu starfi í þrjá mánuði.

Vinnuþjálfun er einnig samstarfsverkefni Unglingadeildar og ÍTR. Um er að ræða vinnuþjálfun yfir sumarmánuðina fyrir unglinga sem hafa átt erfitt uppdráttar á vinnumarkaðnum, óháð atvinnuástandi á hverjum tíma. Markmið starfsins er að með námi og vinnu fái þátttakendur þjálfun í að standa á eigin fótum á vinnumarkaðnum. Starfið er ætlað 10-12 unglingum.

Að lokum

Það hefur löngum verið markmið okkar sem störfum að unglingamálum og barnavernd að leita allra leiða til að aðstoða fjölskylduna sem heild sé þess kostur. Það er oftast neyðarbrauð að vista barn/ungling utan heimilis. Því miður hefur m.a. vaxandi neysla vímuefna undanfarna áratugi, aukið ofbeldi og neyslukapphaupið riðlað fjölskylduböndum og skapað nýjan vanda sem á stundum er illviðráðanlegur.

Það er engin auðveld lausn á þeim vanda en aukið samráð og samstaða okkar allra, bæði foreldra og annarra sem vinna að uppeldismálum, getur skilað okkur fram veginn og leit til betra lífs fyrir börn okkar og unglinga.

Höfundur er forstöðumaður Unglingadeildar F.R.

Snjólaug Stefánsdóttir