MAGNÚS Ver er 32 ára gamall og er í sambúð með Ástu Guðmundsdóttur. Hann hefur verið í fremstu röð í aflraunum í mörg ár, en stundaði handbolta, fótbolta og körfubolta á árum áður. Eftir að hann varð Evrópumeistari í kraftlyftingum 1991 sneri hans sér að aflraunum. Honum var boðið í keppnina Sterkasti maður heims 1991 á Tenerife á Kanaríeyjum og vann sigur.
Sameinar fjórar

íþróttagreinar MAGNÚS Ver er 32 ára gamall og er í sambúð með Ástu Guðmundsdóttur. Hann hefur verið í fremstu röð í aflraunum í mörg ár, en stundaði handbolta, fótbolta og körfubolta á árum áður. Eftir að hann varð Evrópumeistari í kraftlyftingum 1991 sneri hans sér að aflraunum. Honum var boðið í keppnina Sterkasti maður heims 1991 á Tenerife á Kanaríeyjum og vann sigur. Síðan hefur hann keppt í aflraunum og verið sigursæll, bæði hér heima og erlendis.

"Ég tel að aflraunir sameini fjórar íþróttir. Kraftlyftingar, olympískar lyftingar, vaxtarrækt og frjálsar íþróttir. Það þarf mikinn styrk og snerpu til að ná árangri í aflraunum," sagði Magnús um þátttöku sína í aflraunum síðustu ár.

"Það þarf mikla tækni og útsjónarsemi til að takast á við misþunga hluti og burðast með þá. Ég er í eigin heimi þegar ég keppi og tala lítið, reyni að einbeita mér fullkomlega að því sem ég er að gera. Ég ákveð oft fyrirfram hvernig ég ætla að gera hlutina og gæti þess að eyða ekki orku í óþarfa. Það er ekki nóg að hafa krafta, það þarf að beita þeim rétt. Þetta kostar átök og ég er oft lurkum laminn í nokkra daga eftir keppni."

Magnús hefur keppt í mörgum mótum í ár, vann m.a. á stóru kraftamóti í Skotlandi, sem heitir World Muscle Power, einnig á tveimur mótum í Finnlandi. Þá vann hann á móti sem Manfred Höberl skipulagði í Þýskalandi, þar sem margir sterkir keppendur voru þátttakendur. Hér heima vann hann Vestfjarðavíkinginn, þar sem sterkustu menn landsins áttust við um það hver væri sterkastur á landinu. Einnig lagði hann keppinauta sína að velli á Íslandsmótinu í hálandaleikum á Selfossi.

Til að halda kröftum tekur Magnús Ver duglega til matar síns, forðast fituríkt fæði, en borðar mikið af pasta og hrísgrjónum. "Ég hef aldrei viljað feitt kjöt, en finnst gaman að fá mér steik öðru hvoru," sagði Magnús, "ég borða frekar oft, en mikið og sjaldan, þá verður brennslan betri. Annars er ég alæta á mat og konan er dugleg að elda fyrir mig."

Magnús kveðst enn vel liðtækur í fótbolta, þrátt fyrir mikla líkamsburði og hann þykir ekki árennilegur á fullu skriði, hvort sem er í vörn eða sókn. "Ég hef gaman af öllum íþróttum, fylgist vel með. Sérstaklega hef ég gaman af NBA körfubolta og ég fylgist með framgangi mála hér heima, þegar dregur að úrslitum. Frank Booker fannst mér alltaf góður. Þá finnst mér gaman af torfærunni og fór á eina keppni í sumar. Það er stutt í bílaáhugann og ég skrepp oft bílasölurúnta að skoða flotta bíla. Það hefur hinsvegar verið lítill tími undanfarið til að skoða hluti. Eftir Bahamaferðina tekur við skipulag á móti, sem verður í Laugardalshöll í byrjun desember. Þá munu koma fimm aflraunamenn, sem ég ætla að taka í karphúsið. Það eru Gary Taylor, Jamie Reeves, Ilka Kinnunen, Heinz Ollesch og Joe Osoani. Sá síðastnefndi er 180 kíló, hrikalegur skrokkur. Ég verð að vinna þessa kappa á heimavelli líka. Ég á nóg eftir og verð í þessari íþrótt næstu árin," sagði Magnús Ver Magnússon.