LEIDARI VEGAGERÐ Í LANDI STÓRA- KROPPS UNDANFÖRNUM mánuðum hafa orðið töluverðar umræður um fyrirhugaða vegalagningu í landi Stóra- Kropps í Reykholtsdalshreppi. Ung hjón keyptu þessa jörð fyrir nokkrum árum og hafa hafið þar umfangsmikinn búskap.
LEIDARI VEGAGERÐ Í LANDI STÓRA- KROPPS

UNDANFÖRNUM mánuðum hafa orðið töluverðar umræður um fyrirhugaða vegalagningu í landi Stóra- Kropps í Reykholtsdalshreppi. Ung hjón keyptu þessa jörð fyrir nokkrum árum og hafa hafið þar umfangsmikinn búskap. Þau hafa byggt jörðina upp og hyggjast bersýnilega auka umsvif sín verulega frá því, sem nú er, þar sem þau hafa fest kaup á annarri jörð í námunda við Stóra- Kropp, Eyri í Flókadal. Það er óvenjulegt að fólk, sem hefur hazlað sér völl á öðru starfssviði, að ekki sé talað um í öðru landi, og náð þar umtalsverðum árangri, eins og í þessu tilviki, hafi svo brennandi áhuga á búskap á Íslandi.

Deilurnar hafa komið upp vegna þess, að Vegagerð ríkisins hyggst breyta vegarstæði á þessum slóðum og leggja veginn um túngarðinn hjá Stóra-Kroppi. Jón Kjartansson, bóndi á Stóra-Kroppi, telur að með þessum áformum sé verið að eyðileggja þá uppbyggingu á jörðinni, sem hann hefur beitt sér fyrir. Meirihluti hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps styður málstað hans. Allir bændur í Flókadal utan einn hafa mótmælt þessari breytingu á vegarstæði, sem augljóslega ýtir undir einangrun Flókadals, sem er nokkur fyrir.

Skipulagsstjóri ríkisins kvað upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum vegna þessarar vegalagningar. Sá úrskurður var kærður til umhverfisráðherra, sem nú hefur staðfest niðurstöðu skipulagsstjóra. Í úrskurði ráðherrans segir m.a.: "Veglínan fer á neðri leið um jafnt land, er tiltölulega bein, vegsýn betri og allar aðstæður hagkvæmar og má þar nefna minni hættu á sviptivindum en við fjallið sjálft, auk þess sem reikna má með minni snjóþyngslum vegna lægri legu vegarins . . . Þótt neðri leiðinni fylgi óhagræði fyrir eigendur og ábúendur nokkurra jarða, sem vegurinn fer um og íbúar Flókadals telji sig búa við lakari hlut þar sem vegalengd að stofnbraut eykst, hljóta þeir hagsmunir að teljast ríkari, sem fólgnir eru í því að um stofnbraut er að ræða . . ."

Í þessum úrskurði umhverfisráðherra kemur ekki fram mikil tilfinning fyrir stöðu bóndans, sem hlut á að máli. Þvert á móti er eins og hún skipti engu máli. Þegar Jón Kjartansson og kona hans keyptu jörðina Stóra-Kropp höfðu þau enga ástæðu til að ætla, að þjóðvegur yrði lagður þvert yfir túnið hjá þeim og jörðinni skipt í tvennt með öllu því óhagræði, sem því fylgir augljóslega fyrir búskaparstarfsemi. Þau hafa lagt í mikla fjárfestingu á jörðinni en eftir að þau gerðu það taka stjórnvöld ákvarðanir, sem breyta öllum forsendum fyrir fjárfestingum þeirra en á mótmæli þeirra er ekki hlustað.

Í annan stað er ljóst, að það er engin brýn þörf á því að leggja nýjan þjóðveg um þetta svæði. Raunar má færa sterk rök fyrir því, að það sé alger óþarfi að breyta núverandi vegarstæði nema þá að sáralitlu leyti. Núverandi vegarstæði hefur dugað vel í marga áratugi. Hvers vegna er nauðsynlegt að verja stórum upphæðum af almannafé til þess að breyta vegarstæðinu í andstöðu við nær alla íbúa Flókadals, meirihluta hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps og bóndann á Stóra-Kroppi og eyðileggja jafnframt stórhuga uppbyggingu og framkvæmdaáform dugmikilla ungra hjóna?

Í samtali við Morgunblaðið í gær, segir Jón Kjartansson, bóndi: "Þetta er gjörsamlega óskiljanleg ákvörðun miðað við þá þjóðfélagsumræðu, sem við heyrum í dag. Ég átti von á, að umhverfis- og landbúnaðarráðherra tæki meira tillit til okkar sjónarmiða en Vegagerðarinnar, sem á þarna engra hagsmuna að gæta. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál hafi snúizt um það, hvort Vegagerðinni líðist að fara yfir land bænda án þess, að við það séu gerðar athugasemdir eða hvort almenningur á skv. nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum að geta komið í veg fyrir að unnið sé óbætanlegt tjón á náttúru og auðlindum landsins."

Rökin gegn því að leggja veginn um þetta svæði eru margfalt sterkari en rökin fyrir því. Auk þess er tími til kominn, að stjórnvöld taki tillit til þess, þegar fólk hefur lagt í stórfelldar fjárfestingar á ákveðnum forsendum og kippi ekki fótunum undan þeim fjárfestingum. Hér er ekki um það að ræða að fyrirhugað vegarstæði sé hið eina, sem til greina komi. Því fer víðs fjarri. Varla getur það verið metnaðarmál Vegagerðarinnar eða stjórnvalda að knýja sinn vilja fram ­ eða hvað? Nú er nauðsynlegt að þeir, sem hafa hið endanlega vald í þessu máli, taki af skarið og komi í veg fyrir þessa ónauðsynlegu ráðstöfun almannafjár.