TÓNLISTARHÁTÍÐIN Norðurljós hefst með tónleikum í Háteigskirkju á morgun kl. 17. Þar koma fram Camilla Söderberg blokkflautuleikari, Sarah Buckley víóluleikari og Martial Nardeau þverflautuleikari. Það er tónlistarhópurinn Musica Antiqua sem stendur fyrir hátíðinni í samvinnu við Ríkisútvarpið en á henni verður lögð áhersla á tónlist frá miðöldum fram að klassískum tíma.
Tónlistarhátíðin Norðurljós

hefst á morgun

Ný endurreisn

­ Ný öld

TÓNLISTARHÁTÍÐIN Norðurljós hefst með tónleikum í Háteigskirkju á morgun kl. 17. Þar koma fram Camilla Söderberg blokkflautuleikari, Sarah Buckley víóluleikari og Martial Nardeau þverflautuleikari. Það er tónlistarhópurinn Musica Antiqua sem stendur fyrir hátíðinni í samvinnu við Ríkisútvarpið en á henni verður lögð áhersla á tónlist frá miðöldum fram að klassískum tíma.

Sverrir Guðjónsson söngvari er einn meðlima tónlistarhópsins. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að undirbúningur hátíðarinnar hefði staðið lengi en stefnt er að því að hún verði fastur viðburður á þessum árstíma.

Á tónleikunum núna erum við einkum með verk frá barokktímanum og endurreisn," sagði Sverrir. Hann sagði að töluvert væri gert af því í dag að flytja gamla tónlist með upprunalegum hljóðfærum og það myndu þau einnig kappkosta að gera.

Musica Antiqua hópurinn hefur hingað til einbeitt sér að tónlist frá endurreisn og barokktímanum en er að færa út kvíarnar með þessari hátíð þar sem teygt verður á tímanum í báðar áttir, að sögn Sverris.

Fleira til en Mozart

Mikill áhugi hefur vaknað á gamalli tónlist á undanförnum árum og hafa þá sumartónleikarnir í Skálholti skipað stóran sess með áherslu á barokktónlist. "Það virðist vera einhver vakning í gangi og það virkar þannig á mig að það sé ákveðin endurskoðun á döfinni. Við erum að færast inn í nýja öld og þá er fólki tamt að líta um öxl. Mér finnst eins og það sem er að gerast í tónlistarheiminum í dag sé einskonar ný endurreisn og fólk lítur bæði aftur fyrir sig og fram á veginn í sama mund."

Aðspurður um hvort hann haldi að fólki finnist kominn tími til að hvíla Mozart, Beethoven og fleiri, sem hafa verið mikið leiknir á þessari öld, sagðist hann halda að fólk væri að vakna til vitundar um að það sé svo margt annað til. "Klassíska tímanum hefur verið haldið mjög á lofti og mikið er til af upptökum af efni frá þeim tíma, en af því ráðast vinsældir oft. Nú er sífellt að aukast framboð á gamalli tónlist á geisladiskum og það hefur sitt að segja," sagði Sverrir.

Munkasöngur hefur verið vinsæll upp á síðkastið og blaðamaður spyr hvort hópurinn hafi hug á að flytja slíkt efni.

"Á þessari hátíð munum við flytja það sem við höfum verið að fást við og erum að fást við en í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að fitja upp á ýmsum hlutum sem ekki hafa verið mikið fluttir hér."

Hátíðin er haldin í samvinnu við Ríkisútvarpið sem mun styðja við bakið á hátíðinni og hljóðrita tónleikana.

Fyrstu tónleikarnir verða eins og áður sagði í Háteigskirkju á morgun, aðrir tónleikarnir í Kristskirkju 29. október og þriðju og síðustu tónleikarnir 30. október í Þjóðminjasafninu en þar mun Sverrir koma fram ásamt Guðrúnu Óskarsdóttur semballeikara og Snorra Erni Snorrasyni lútuleikara.

Sverrir

Guðjónsson.

Snorri

Örn Snorrason.