BANDARÍSKA fjarskiptastofnunin FCC (Federal Communications Commission) hefur samþykkt að hrinda í framkvæmd fyrirætlunum um útboð á síðasta rekstrarleyfinu til að sjónvarpa um gervihnött um öll Bandaríkin.
Uppboð á sjónvarpi

um gervihnött

Washington. Reuter.

BANDARÍSKA fjarskiptastofnunin FCC (Federal Communications Commission) hefur samþykkt að hrinda í framkvæmd fyrirætlunum um útboð á síðasta rekstrarleyfinu til að sjónvarpa um gervihnött um öll Bandaríkin.

Samþykktin er áfall fyrir Tele-Communications Inc., stærsta kaplasjónvarpsfyrirtæki Bandaríkjanna, sem hafði sótt um að veita beina gervihnattaþjónustu (DBS) með því að kaupa rekstrarleyfið af fyrirtæki í Virginíu, sem hafði mistekizt að koma á DBS þjónustu.

Samþykkt FCC (með 3 atkvæðum gegn 2) verður til þess að TCI í Denver verður að taka þátt í uppboði í byrjun næsta árs og keppa við aðra volduga aðila eins og MCI Communications Corp., sem nýlega gekk til samvinnu við fjölmiðlafyrirtæki Ruperts Murdochs, News Corp.

Ákveðið hefur verið til bráðabirgða að uppboðið fari fram 18. janúar og það stendur í einn dag.

Mikið í húfi

Í húfi er rekstrarleyfi, sem veitir einn af örfáum möguleikum til að sjónvarpa um gervihnött til áskrifenda um þver og endilöng Bandaríkin. Tekið er á móti útsendingunum með 18 þumlunga gervihnattadiski.

Hægt verður að sjónvarpa um gervihnött á tugum rása til áskrifenda. Lítill gervihnattadiskur eins og sá sem verður notaður hefur fleiri kosti en stóru diskarnir, sem setja sérkennilegan svip á húsaþök og baklóðir hvarvetna í Bandaríkjunum.

TCI hafði samþykkt að kaupa rekstrarleyfið fyrir um 45 milljónir dollara af fyrirtækinu Advanced Communications Corp. í Arlington, Virginíu. Í maí dró FCC leyfið til baka á þeirri forsendu að Advanced Communications hefði ekki notað það. Fyrirtækið hafði fengið leyfið ókeypis 1984.

700 millj. dala virði?

John McCain, öldungadeildarmaður repúblikana frá Arizona, hefur beitt sér fyrir því að FCC bjóði leyfið út.

MCI hefur stutt hugmyndir um opinbert uppboð og sagt FCC að fyrsta boð verði 175 milljónir dollara. Fyrirtækið vitnaði í áætlanir um að leyfið væri 700 milljóna dollara virði.

TCI segir ákvörðun FCC valda vonbirgðum" og heldur í þá von að henni verði hnekkt að því er fram kemur í yfirlýsingu.